miðvikudagur, 23. september 2009

Atvinnuleysið

Hrunið hefur haf margskonar áhrif á samfélag okkar og næsta víst að viðhorfsbreytingar verði miklar til lengri tíma litið. Því miður verður að segjast eins og er að umræðan einkennist alltof oft af fullkominni ringulreið, þar sem ólíkum og algjörlega ótengdum hlutum er hiklaust blandað saman, sem veldur því að lesandinn færist enn fjær því að geta dregið ályktanir.

Hrunið hefur haft áberandi áhrif á fall krónunnar, með þeim afleiðingum að verðlag hefur hækkað, kaupmáttur lækkað og þeir sem fóru að ráðum bankanna um að fjárfesta og taka erlend gengistryggð lán frekar en innlend sitja í miklum vandræðum. Fólki stóð til boða að taka bæði óverðtryggð eða verðtryggð innlend lán og valdi frekar verðtryggð lán. Verðbólgan hefur þotið upp með hækkunum á vöxtum og síðast en ekki síst vaxandi atvinnuleysi. Önnur fyrirvinna heimilis hefur oft misst vinnuna og hin hefur minni heildartekjur, heimilistekjur í mörgum tilfellum lækkað um helming.

Há verðbólga eru engin tíðindi hér á landi. Hún hefur oft verið mun hærri og oft hafa húsbyggendur átt í miklum vandræðum. Þar má t.d. benda á tímann 1983 fram undir 1993. Þá voru margir sem ekki sáu til lands, þar á meðal ritari. En fólk vann sig úr vandanum. Sá meginmunur er á að þá voru skuldir heimila minni með tilliti til eigna. Fólki stóð þá ekki til boða hin feiknarlegu lán sem bankar héldu ákaft að fólki í aðdraganda hrunsins. Þar af leiðandi voru keyptar minni íbúðir og þær voru ekki veðsettar upp í rjáfur, en lánin fóru þrátt fyrir að reyndar á tímabili upp úr rjáfrinu. Einnig voru yfirdráttarlán og raðgreiðslur nánast óþekktar á þessum tímum.

Gríðarleg skuldasöfnun heimilanna á þenslutímum var framkölluð vegna óábyrgra kosningaloforða þáverandi stjórnarþingmanna um hækkun húsnæðislána, sem leiddi til miskunnarlausrar samkeppni bankanna við Íbúðalánasjóð til þess að knýja fram einkavæðingu hans. Þetta leiddi til fasteignabólu og nær takmarkalítillar framleiðslu á húsnæði.

Hér voru á ferð óábyrgir stjórnmálamenn í atkvæðavæðum og starfsmenn banka á bónusum tækist þeim að koma lánum út. Fólki var talið í trú um að gengi krónunnar væri rétt þó svo margir bentu á að hún væri í raun 30% of hátt skráð. Fall gengis krónunar og að vindurinn rann úr fasteignabólunni kom í bakið á fólki, sem margt hvert var í grandaleysi að koma þaki yfir fjölskyldu sína. Margir þeirra sem eru á fremsta bekk í spjallþáttum sýndu þó mesta ábyrgðarleysið og eru ekki endilega til þess fallnir að vekja samúð.

Það er full ástæða til þess að koma til hjálpar fjölmörgum fjölskyldum, en einhverra hluta vegna hefur ríkisstjórninni ekki tekist að koma sér saman um að hvernig eigi að gera það. Ég hef lýst sjónarmiðum sem ég hef heyrt hjá allnokkrum og reynt að koma þeim á framfæri. Jafnframt því að skoðanir séu ekki eins einhliða og fram hafa komið í spjallþáttum og í bloggheimum.

Flestir vilja að þeim sem verst eru staddir verði hjálpað, en mmargir eru ekki tilbúnir að greiða fyrir allan dótakassann hjá óreiðufólkinu, sem sumt hvert er með háværustu kröfurnar á hendur lífeyrisparnaði þeirra sem eiga lífeyrissjóðina, samfara kröfum um að verkalýðshreyfingin beri ábyrgð á kröfugerð þeirra.

Atvinnuleysið er sannarlega stærsta vandamál okkar. Það eru mikil ótíðindi að stjórnvöldum og Seðlabanka hafi ekki tekist að endurheimta betra gengi krónunnar, slá á verðbólguna og þá um leið vextina og koma atvinnulífinu í gang. Ofan á allt annað stefnir í að flestir kjarasamningar í landinu falli 1. nóvember næstkomandi. Það verður ekki spennandi verkefni að takast á við, sé litið þess ástands sem ríkir á vinnumarkaði og innan heimilanna og gæti svo farið að launamenn verði samningslausir um langa hríð og á meðan hrynji heimilin.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég held að flest okkar sem tóku erlend lán hafi reiknað með að krónan gæti fallið um 20-30%. En hver í ósköpunum hefði átt að sjá fyrir nærri 200% veikingu eins og tilfellið er með lán í svissneskum frönkum og jenum ?

Það er eins og þú og fleiri vilji ekki horfast í augu við þá staðreynd að við erum bara heill haugur af ósköp venjulegu fólki sem tókum ráðgjöf bankanna og tókum erlend lán og erum núna að horfa fram á ævilangt skuldafangelsi. Hvað heldurðu að það taki mörg ár að vinna sig út úr láni sem var 10 milljónir en er blásið út í 28 milljónir?

Nafnlaus sagði...

Þeir sem fóru of hratt í fjáfestingar og skuldsettu sig uppúr öllu. Það má segja að það sé þeirra mál, spiluðu of bratt. Enn þeir sem tóku lán hjá íbúðalánasjóði og eru komin með lán sem eru hærri enn verð íðar er , það er fólkið sem þarf aðstoð. Þú veist nú það Guðmundur að verðtryggð lán hafa hækkað um 40% frá 2006 og það reiknaði enginn með. Ef svo bætist við kjararýrnun og atvinnleysi þá vitum við hvað fólk gerir. Sérstaklega ungt og velmetnað fólk fer og kemur ekki aftur. Kv Simmi

Nafnlaus sagði...

Gott blogg og alveg ástæða til að benda á að þettta er ekki fyrsta kreppan á Íslandi.

Mér finnst samt áberandi í allri þessari umræðu að fólk vill einblína á þá sem tóku himinhá lán og oft hrein neyslulán.

Þetta "óreiðufólk" á að gera það að verkum að ekki verður gripið til leiðréttingar á skuldum.

Skuldsetningin hjá okkur hjónum var til dæmis bísna hófleg eða um 70% og við höfðum varann á og keyptum eins lítið og eins seljanlegt og hægt var.

Þessi íbúð er metin á 22 m en á henni hvíla 32 í dag. Það er vegna láns sem nam 15 m. þegar það var tekið í desember 2007. Sama á við um þá félaga mína sem voru að fjármagna íbúðarkaup á þessum tíma.

Ég kannast ekki við jeppa, vélsleða eða skíðaferðir úr þeim hóp. Á þessum tíma var enginn að spá 30% gengislækkun og krónan mjög nálægt margtilkynntu "jafnvægisgengi" og hafði enda lækkað eitthvað undanfarna mánuði.

Staðreyndin eins og hún snýr að mér er sú að stjórnvöld, bankar og lífeyrissjóðir kepptust um að hamra á sterkri stöðu Íslands og buðu innlánseigendum ofurvexti eins og þeir höfðu reyndar gert all lengi. Undir þesum vöxtum var engin verðmætasköpun heldur einungis sjálfuppblásnar loftbólur eins og húsnæðisbólan.

Þegar "Hrunið" er síðan orðið að staðreynd þá fá innlánseigendur fulla innlánstryggingu á kostnað alls samfélagsins jafnvel þótt að bankarnir séu á þeim tíma komnir undir ríkið og "gjaldþrota".

Fyrir mér er þetta ekkert annað en ómerkilegur fjárdráttur. Því þeir sem á annað borð þurftu að kaupa sér húsnæði á þessum tíma gerðu það samkvæmt verðsetningu og lánafyrirgreiðslu þessara aðila.

Menn segja í dag að það hafi kannski verið mistök að ábyrgjast innlán að fullu en það er einkennilegt hvernig mistökin lenda alltaf öðru megin. Ég skil vel það sjónarmið að fólk vilji ekki greiða skuldir óreiðumanna en það hljómar undarlega að sumir standi eftirátryggðir upp fyrir haus en aðrir uppi með samanfallna loftbólu. Ég er hræddur um að stór hluti af "þögla meirihlutanum" sé í þessum hópi.

Nú sé ég kannski fram á að eiga fyrir þessum skuldum mínum og ég mun ekki hrökklast úr landi þeirra vegna. Mér hins vegar býður við að eiga að ala upp börn og búa sjálfur í þjóðfélagi þar sem samtryggingin er bara fyrir suma.

M. b. kv KH

Guðmundur sagði...

Þó svo ég sé að benda á að meðal félagsmanna minna heyri ég líka önnur sjónarmið en þau sem hafa verið nánast einráð í bloggheimum og hjá ýmsum lýðskrumurum sem eru vinsælir gestir spjallþáttastjórnenda.

Þá er ég sendiboðinn.

Svona svipað og þegar ég er að benda á að öll viljum við losna við verðtryggingu, þá er það efnahagstjórnin og verðbólgan sem er skaðvaldurinn.

Ég hef fulla samúð með þeim sem standa framan við ókleifan múr skulda og fallandi gengi fasteigna, ég gerði það einu sinni skil vel tilfinningarnar.

Ef við eigum að komast úr vandanum verðum við að ræða hann af raunsæi