föstudagur, 4. september 2009

Ögmundur fer með rangindi

Það reynir sannarlega á manndóm ráðherranna þessa dagana og þeir ekki í öfundsverðri stöðu. Fyrir liggja tveir valkostir, skera rösklega niður ríkisútgjöld og hækka skatta til þess að rífa samfélagið út úr þeirri stöðu sem fyrri ríkistjórnir hafa komið þjóðinni í og gera það á 2 -3 árum með 25 MIA niðurskurðarplani á þessu ári og 50 MIA plani 2010 og 2011.

Hinn kosturinn er að gera lítið, halda áfram og neita að horfast í augu við vandann. Þá mun vaxtabyrðin vaxa enn frekar og íslenskt samfélag í núverandi myndi sökkva með langvarandi atvinnuleysi, fólksflótta og tvöfaldri gengisfellingu. Ég hef nokkrum sinnum sett fram þá kenningu að nokkrir núverandi stjórnarþingmanna muni eiga erfitt með að komast í gegnum þann skelfilega vetur sem framundan er og spurning hvernig eigi að túlka orð Ögmundar Jónassonar í dag.

Það var skelfilegt fyrir okkur verkalýðsleiðtoga að sitja í vor og fram eftir sumri dögum saman í Karphúsinu undir endalausum útskýringum og útreikningum hagfræðinga, sem starfa hjá aðilum vinnumarkaðs, sveitarfélögum og stjórnvöldum, þegar þeir fóru yfir þjóðhagslegar stærðir hvað hin eða þessi aðgerð myndi spara mikið og hversu mikið hinn eða þessi skatturinn muni auka tekjur ríkisins. Þar var hnífnum mundað gagnvart mörgu af því sem verkalýðshreyfingin hefur lamið í gegn hvað varðar samfélagsgerðina og aðstoð við þá sem minnst mega sín.

En á hinn bóginn blasir það við að best væri að fara þá leið sem Göran Person sænski ráðherrann sagði við okkur í vetur þegar hann fór yfir það hvernig Svíar unnu sig út samsvarandi vanda á árunum 1992 – 1996. "Horfist í augu við vandann. Takið strax á honum og gerið það á eins stuttum tíma og hægt er."

Sé litið til ummæla ráðherra er greinilegt að sumir vilja taka strax á vandanum, en öðrum er það greinilega ofvaxið. Ljóst er að Ögmundur er í gríðarlegum vanda verandi leiðtogi opinberra starfsmanna og núverandi heilbrigðisráðherra. Hann heldur þessa dagana á mörgum „sjóðheitum kartöflum“ svo ég noti algengt orðlag stjórnmálamanna.

Í Karphúsinu bar oft á milli markmiða í málflutningi forsvarsmanna stéttarfélaganna af almenna markaðinum og forsvarsmanna stéttarfélaganna af opinbera markaðnum. Þar komu fram kröfur forsvarsmanna opinberu félaganna að varnargirðingum yrði stillt upp við störf opinberra starfsmanna. Til þess að þetta væri framkvæmanlegt komu fram sjónarmið m.a. frá Ögmundi Jónassyni um að allir lífeyrissjóðirnir ættu að beina þeim fjármunum sem lausir væri til þess að kaupa skuldabréf af sveitarfélögunum og hinu opinbera.

Forsvarsmenn stéttarfélaga af almennum markaði bentu á að nánast allir þeir 17.000 sem væru atvinnulausir kæmu af almennum vinnumarkaði og forsvarsmenn opinberu stéttarfélaganna væru í raun að krefjast viðvarandi og vaxandi atvinnuleysi á þann hóp en öllum björgunarhringjum beitt gagnvart hinu opinbera. Það gæti ekki leitt til annars, væri til lengri tíma litið, en enn meira hruns og það yrði langvarandi, 10 - 15 ár í stað 3 - 4.

Forsvarsmenn fyrirtækja gagnrýndu einnig þessi sjónarmið á þeim forsendum að það kallaði á umtalsverða hækkun skatta ekki bara einstaklinga heldur einnig á fyrirtækin. Auk þess að það takmarkaði verulega það fjármagn sem fyrirtækin hefðu aðgang að. Virðisauki og útflutningstekjur kæmu frá fyrirtækjum á almennum markaði og það væri í raun undirstaða þess að hægt væri að vinna sig út úr vandanum að koma almenna markaðnum í gang.

Málflutningur Ögmundar í dag er ákaflega ómaklegur í garð ASÍ félaganna og ekki til þess fallin að aðilar íslensks samfélags nái höndum saman til þess að takast sameiginlega á við þann gríðarlega vanda sem við blasir. Það er sú eina leið sem fær er, en þann vilja hefur skort í hinum pólitíska hráskinnaleik sem stjórnmálamenn hafa verið svo uppteknir við undanfarið ár.

16 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er nú sagt að Ögmundur sé í svipaðiri stöðu og hani sem sé settur í hæsnabú og hann sé nú að fatta að hann eigi ekki að gamna sér með hænunum heldur drepa þær. Það er ekki öfundsverð staða þeirra sem sjá um fjármál hjá ríki og sveitarfélögum , því þar þarf að skera niður á fullu. Þar er samam hjá öllum minkandi tekjur. Kv Simmi

Nafnlaus sagði...

Það er svo leiðinlegt ða þurfa horfa upp á hvernig Ögmundur veitist endurtekið aftan að launamönnum á almennum vinnumarkaði
KÞG

Arnþór sagði...

Ekki verður annað sagt en að samhljómur sé með þínum viðhorfum og viðhorfum atvinnurekenda.

Guðmundur sagði...

Sæll Arnþór
Ertu virkilega undrandi á því að stundum fari saman viðhorf launamanna og atvinnurekand, t.d. í baráttu gagnvart atvinnuleysi og uppbyggingu atvinnulífs og samfélagsins.

Ef svo er þá þekkir þú lítið til þeirra viðhorfa sem fram koma á félagsfundum í stéttarfélögum rafiðnaðarmanna

Arnþór sagði...

Ég er svo sannarlega ekki undrandi. Nema kannski þegar menn fella grímuna svona bersýnilega. Sjálfsdekur og eiginhagsmunir eru ekki rétta leiðarljósið út úr vanda okkar.

Nafnlaus sagði...

Það er rétt hjá þér Arnþór Ögmundur hefur fellt grímuna verður að feisa félagsmenn sína án þess að vera með þetta endalausa sjálfsdekur

Flott hjá þér Guðmundur

Rafvirki af almenna markaðnum

Nafnlaus sagði...

Var Ögmundur ekki í stjórn eins lífeyrissjóðsins sem tapaði milljörðum í hruninu vegna óábyrgar fjárfestingastefnu?

Ég skil ekki hvað maðurinn vill upp á dekk.

Hann ætti að skammast sín.

Nafnlaus sagði...

En hvað sagði Ögmundur?

Guðmundur sagði...

Það stendur í pistlinum hér ofar

Nafnlaus sagði...

Þá verð ég bara að vera treg - eftir að hafa lesið pistilinn nokkrum sinnum er ég enn engu nær um það hvað Ögmundur sagði.

Nafnlaus sagði...

Þegar sá dagur kemur að ríkisstarfsmenn komi að einhverri verðmætasköpun í þessu þjóðfélagi þá verð ég glaður, en þangað til mælist ég til að fjölda ríkisstarfsmanna verði haldið í algjöru lágmarki og í guðanna bænum ekki láta ríkisstarfsmenn sjálfa ákvarða mannaflsþörfina.
mbk
Ólafur

Nafnlaus sagði...

Þessi komment Ögmundar eru með öllu óskiljanleg. Mann er farið að gruna að hann sé ekki enn farinn að fatta að hann er ekki í stjórnarandstöðu.
Við höfum ekkert við kjarklausa stjórnmálamenn og populista á þessum tímum.

kveðja að austan

Guðmundur sagði...

Það sem Ögmundur sagði um félaga sína í alemmenu stéttarfélögunum var í fréttum víða í gær, m.a. á Eyjunni, Pressunni og á heimsíðu hans.
Hann bar þær sakir á félaga sína að það þeir krefðust meiri niðurskurðar en AGS teldi nauðsynlegan!!??

Arnþór sagði...

Það er sérstakt umhugsunarefni að horfa á forystu ASÍ taka höndum saman með atvinnurekendum og heimta niðurskurð í skólum og á sjúkrahúsum. Allt eru þetta karlpungar með milljón og yfir á mánuði sem hafa auk þess árum saman safnað lífeyri af ofrausnarlegum launum sínum og þykjast líka eiga hann skuldlaust. Skömm fólks á þessum körlum sést þegar ASÍ heldur opna fundi í tómum húsum.

Opinberir starfsmenn greiða sína skatta undanbragðalaust og halda auk þess uppi lunganu af neyslu samfélagsins. Fyrir utan náttúrulega að vinna þá vinnu sem mikilvægust er þegar á móti blæs. Samfélag sem ræðst að þessum undirstöðum sínum er að fremja harakírí. Eða til hvers ætla menn að hækka skatta á fólk sem greiðir ekki tekjuskatt á sama tíma og sannir skattgreiðendur missa vinnu sína og fara á bætur? Ekki ætla atvinnurekendur að greiða mikinn tekjuskatt á næstu árum með miljarða í yfirfæranlegu tapi næstu árin. Og blessaðir iðnaðarmennirnir. Varla fara þeir að gefa allt upp skyndilega svona þjóðhollir í kreppunni. Það er sko ekki tilviljun að Samtök iðnaðarins auglýsa skattsvik félaga sinna í sjónvarpinu á hverju kvöldi. 40 milljarðar á ári segja þeir. Er það ekki fjárlagagatið?

Ég held að forysta ASÍ ætti að vara sig á atvinnurekendum frekar en að láta þá teyma sig á asnaeyrum.

Guðmundur sagði...

Ég nenni ekki að eltast við aths. Arnþórs, enda er þar verið að slá fram einhverju sem ekki hefur verið sagt og stenst engan veginn.
En það er dáldið stórt upp í sgi tekið að fullyrða að allir stéttarfélagsformenn séu með milljón á mánuði, það var einn en hann féll í kosningum í fyrra.

Nafnlaus sagði...

Gæti verið að það vekti fyrir Ögmundi að benda lífeyrissjóðum á, að almennt séð eru peningarnir best geymdir/ávaxtaðir hjá opinberum fyrirtækjum á næstu árum?
Til eru fjárfestingarmöguleikar aðrir, en þeir eru þessa dagana áhættusamari en opinberir.

Með kveðju
Sigurður Þórðarson