miðvikudagur, 30. september 2009

Skattlagning inngreiðslna í lífeyrissjóði

Þeir sem hafa stutt að skattleggja eigi inngreiðslur í lífeyrissjóði fremur en að skattleggja lífeyrisgreiðslur hafa sett upp einfalt reikningsdæmi og fengið út úr því að það skipti lífeyrisþega engu hvort þeir greiði skatt strax eða þegar lífeyri sé tekinn út og miða þar við að 3.5% ávöxtun náist í 40 ár allan tímann.

Þetta dæmi er einfaldað, hvort það sé gert vísvitandi eða hvort viðkomandi þekki ekki skattkerfið skal ósagt látið. Það blasir þó við þeim sem þekkja til í skattamálum að inn í málið blandast persónuafsláttur og fjölmörg önnur flókin mál. Þetta ættu þingmenn að þekkja út og inn vegna þess að það eru þeir sem sjá um að setja leikreglur skattamálanna.

Hið rétta er að ef skattfrelsismörk miðast við sömu laun og skattfrelsismörk eins og þau eru nú, gætu greiðslur til lífeyrisþegar (eftir skatt) lækkað um allt að 15%. Til að halda greiðslum til lífeyrisþega óbreyttum þyrftu skattfrelsismörk iðgjalda að miðast við töluvert hærri laun, þar sem lífeyrisgreiðslur eru yfirleitt um 50-60% af þeim launagreiðslum sem iðgjöld hafa verið greidd af, miðað við 40 ára inngreiðslutíma. Stór hluti lífeyrisþega er undir skattfrelsismörkum í núverandi kerfi. Þetta þýðir í framkvæmd að ríkið þarf að greiða sjóðfélaga út þann ónýtta persónuaflsátt sem hann hefði annars nýtt hefði skattur verið dreginn af lífeyrisgreiðslum við útgreiðslu.

Einnig blasir við að ef fara á þessa leið verður að loka núverandi kerfi. Það gæti leitt til þess að skerða þyrfti réttindi sjóðsfélaga um allt að 25% í sumum sjóðum, sem er ekkert smámál þar sem það fellur ekki jafnt á alla hópa. Með þessu vex mismunum milli þeirra sem eru í ríkistryggðu sjóðunum sem flutningsmenn tillögunnar eru í, og svo þeim sem eru í almennu sjóðunum, er þó sú mismunum ærinn fyrir.

Það blasir líka við að ráðstöfunartekjur lífeyrissjóða munu minnka. Þeir verða því ekki jafnvel í stakk búnir að fjármagna nýsköpun í atvinnulífinu, mæta fjárþörf ríkis og sveitarfélaga sem og að taka þátt í endurreisn fjármálamarkaða þegar fram líða stundir.

Meginreglan um skattlagningu til lífeyrisþega innan ESB er að engin skattur er lagður á iðgjöld og fjármagnstekjur en lífeyrir er skattskyldur. Framkvæmdastjórn ESB hefur mælt eindregið með að sú leið verði almennt viðhöfð í aðildarríkjunum og hefur sett fram þá skoðun með ítarlegum rökstuðning í svokölluðum „Communication paper“ (COM-2001-214). Meginkostur varðandi samræmingu beitingu er sú að hún auðveldar flutning launamanna milli landa innan EES-svæðisins, þar sem hún kemur í veg fyrir tvískattlagningu lífeyrisgreiðslna eða að lífeyrir sé greiddur úr óskattaður.

Megineinkenni og styrkur núverandi lífeyrissjóðakerfis er að hver kynslóð stendur undir sínum lífeyri með sparnaði en veltir ekki kostnaðinum yfir á næstu kynslóðir eins og flestar þjóðir gera.

Lífeyriskerfi sem byggir á sjóðssöfnun mun ef það fær að búa við viðunandi starfsskilyrði leiða til samkeppnishæfara atvinnulífs í framtíðinni og þar með betri lífskjara. Það byggir m.a. á því að íslensk fyrirtæki muni ekki þurfa að afla verðmæta til að standa undir tröllvöxnum kostnaði vegna stóraukinnar lífeyrisbyrði sem mun óhjákvæmilega fylgja öldrun þjóða á Vesturlöndum.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bestu þakkir fyrir þessa skýru greiningu.

Þrætupólitíkusar keppast við að draga kanínur upp úr hattinum og rugla fólk í ríminu.

Þá er gott að hafa penna sem kippir fólki niður á jörðina.

Sverrir

Nafnlaus sagði...

Talað á mannamáli að venju - góð greining
Takk Úlfur

Héðinn Björnsson sagði...

Mesti ókosturinn við þetta skipulag er að það stóreykur vaxtarkostnað íslenska ríkisins með því að þvinga landið til að leggja fyrir og taka lán á sama tíma og auka á sama tíma fé í fjárspekúleringum á Íslandi. Hefði þetta verið kerfið okkar hefðu útrásarvíkingarnir ekki haft svona mikið að spila úr svo maður tali ekki um ef kerfið hefði verið gegnumstreymiskerfi.

Nafnlaus sagði...

Gegnumstreymiskerfi er í raun kerfi þar sem skattlagt er jafnharðan. Það kerfi virkar ínt ef um er að ræða jafna fjölgun ungs fólks. Ástæða þess að uppsöfnunarkerfið var valið og er vegna þess að eftir nokkur ár verður fólk á lífeyri orðið fleira en þeir sem borga skatt eða iðgjöld til lífeyrissjóða.

Það endar með því að til þess að eiga fyrir ellilífeyri þá þarf eftir um 20 ár að fara skera niður eitthvað annað í ríkisrekstri til þess að eiga fyrir ellilífeyrinum.

Það sem hefði getað bjargað okkur er ef tillögur hefðu verið samþykktar um að heimila lífeyrissjóðum að fjárfesta meira erlendis.

Fjárfestingarkostir hér heima hafa verið svo takmarkaðir og eins að Útrásaglæpagengið var að éta fyrirtækin innan frá undir leyndarhjúp, á meðan fjárfestar voru í sakleysi sínu að fjárfesta í hlutabréfum. Eins og t.d. Flugleiðum, Símanum, Eimskip og fl.

Guðmundur sagði...

Þetta síðasta innlegg er eftir mig gleymdi að merkja það
GG

Nafnlaus sagði...

Þetta getur orðið svolítið flókið. En það er ekkert flókið við það að taka strax skatt af séreignarsparnaði. Bara semja um það. 256 milljarðar til 33 milljarðar á ári. það gera c.a. 90 milljarða skatt sem er til og c.a. 12 milljarða á ári. Léttir til með okkur.
Af hverju ekki?
kv.
Hreinn Hreinsson

Nafnlaus sagði...

Þetta getur orðið svolítið flókið. En það er ekkert flókið við það að taka strax skatt af séreignarsparnaði. Bara semja um það. 256 milljarðar til 33 milljarðar á ári. það gera c.a. 90 milljarða skatt sem er til og c.a. 12 milljarða á ári. Léttir til með okkur.
Af hverju ekki?
kv.
Hreinn Hreinsson

Guðmundur sagði...

Það kemur fram í textanum að það munar miklu fyrir lífeyrisþega að miðað við núnverandi kerfi fá þeir fulla persónuafslátt af öllum lífeyri.
Ef taka á skattinn fyrir fram þá er það ekki vegna þeirra tekna sem menn hafa. Þar liggur mikil mismunum