þriðjudagur, 29. september 2009

Spjallþættirnir

Ég hef nokkrum sinnum komið að því að mér finnist umræðan, sem fram fer í spjallþáttum vera alleinkennileg, grunnhyggin og byggist að verulegu leiti að því virðist á keppni stjórnenda þáttanna sjálfra við að fá staðfestu á þeirri skoðun sem þeir hafa myndað með sjálfum sér, frekar en að leita eftir forsendum. Leiddir eru fram viðmælendur sem eru þekktir fyrir geip og fullyrðingar. Margir þeirra sem hafa verið leiddir fram hafa orðið uppvísir af hreinu lýðskrumi.

Staðfesting á þessu var t.d. í gærkvöldi. Þar sem gagnrýni er sett fram á væntanlegum tillögum ríkisstjórnar, en um leið tekið fram að þáttastjórnandi og viðmælandi þekki ekki tillögurnar??!!

Ætlast viðmælandi til þess að í framboði sé á lánsfé ef það á að bera neikvæða ávöxtun? Hvenær var verðtrygging sett á og hvers vegna? Viðmælandi vissi ekki svörin við þessu, í stað þess var hann með órökstuddar upphrópanir út og suður. Er þetta boðlegt í ríkisfjölmiðli?

Hver væri staða lántakenda ef þeir hefði valið að taka óverðtryggð lán fremur en verðtryggð lán? Hver væri staðan ef farið væri að tillögum Stiglitz og fleiri að tengja afborganir lána við launavísitölu? Það liggur fyrir að launavísitala hefur hækkað 29% umfram vísitölu neysluverðs síðan 1991. Því er hæpið að lántakendum sé greiði gerður með tengingu höfuðstóls við laun.

Verðbólga er mikið efnahagslegt böl. Sparifé almennings brennur upp. Mikil verðbólga á undanförnum árum og neikvæð ávöxtun leiddi til þess að það var ekkert framboð á lánsfé og það varð að viðteknum hefðum að eyða öllum fjármunum strax og helst fyrirfram enda varð það viðtekin venja á Íslandi að fjárfesta í steinsteypu í stað þess að leggja fjármuni í peningalegar eignir. Almennar sparisjóðsbækur landsmanna báru að meðaltali 14,5% neikvæða raunávöxtun á áttunda áratugnum og voru neikvæðar um 9% á þeim níunda.

Sparnaður hins almenna íslendings fer að langstærstum hluta fram í lífeyrissjóðunum. Áður en verðtryggingu var komið á hafði sjóðunum reitt svo illa af að umræða var um að leggja sjóðmyndunarkerfi og taka upp gegnumstreymiskerfi þegar glórulaus verðbólgutöp blöstu við. Eftir að verðtrygging og vextir voru gefin frjáls snérist dæmið hins vegar algjörlega við.

Nú má spyrja hvaða haldreipi er það sem grípa á til þess að komast upp úr táradalnum? Það eru lífeyrissjóðirinir. Væri það til ef farið væri að tillögum m.a. þáttastjórnenda RÚV og þeirra viðmælenda sem leiddir eru fram?.Væri það hægt ef lífeyrissjóðirnir væru galtómir vegna bruðls eins kemur svo fram í annarri hverri setningu í umfjöllun spjallþáttana um stöðu lífeyrissjóðanna.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"Rvk síðdegis" á bylgjunni leikur sama leik dag eftir dag. Stanslaust er hamrað á hlutum sem byggðir eru á sögusögnum og spuna. Og á hverjum degi ratar einhver þingmaður sjálfstæðisflokksins í þáttinn án þess að leiddur sé fram einhver sem heldur fram andstæðum sjónarmiðum (er af nógum mönnum og konum af taka þar).

Nafnlaus sagði...

Orð í tíma töluð
KÞG

Nafnlaus sagði...

Það er halra einkennilegt Guðmundur að maður sem er með umboð fyrir erlendan lífeyrissjóð og tekur umtalsvert hærri þóknun af lífeyrisgjöldum en íslensku sjóðirnir og eins fjármálrágjöf sem kostar fáránlegar uphæðir skuli fá að koma ítrekað í RÚV og auglýsa starfsemi sína með því að níða niður góða starfsemi hér á landi með allskonar dylgjum og órökstuddum fullyrðingum
Úlfur

Nafnlaus sagði...

Mikið svakalega er ég sammála þér þarna, en hélt einhvernvegin að ég væri einn þessarar skoðunar!

Mér finnst líka alltaf verið að tala við sama fólkið með sömu skoðanirnar.

Egill var hérna áður fyrr með meiri vídd í gestum, en núna eru þetta aðallega visthagfræðingar og einhverjir gamlir vinstrisinnaðir hagfræðiprófessorar, sem voru búnir að spá kreppu kapítalismans í 30-40 ár og varð loksins að ósk sinni!

Guðbjörn Guðbjörnsson