sunnudagur, 27. september 2009

Heima er best


Af heimasíðu Borgarleikhússins

Tveir bræður leika sama leikritið aftur og aftur undir ógnarstjórn föður síns. Þar er raunveruleikinn endurskapaður og settur á svið með aðferðum farsans. Grófur ofleikur, eldsnögg búningaskipti og ógnvænlegur hraði. Formið er þekkt, leikritið í leikritinu. Annars vegar farsinn sem felur í sér ákveðna baráttu og svo verkið sjálft með undirliggjandi hinn jökulkalda veruleika. Á köflum skarast þessir heimar og renna saman, þannig að maður gerir sér ekki alltaf grein fyrir hvað er farsi og hvað veruleiki.

Það rennur upp fyrir manni þegar líður á verkið, að við okkur blasir sá veruleiki sem við búum við hér á landi í dag. Samfélag þar sem er ekki pláss fyrir neinar efasemdir. Enginn má efast um sannleiksgildi frásagnar valdhafans.

Veruleikinn er endursagður af valdhafanum, því hann vill ráða því hverju við trúum og hann kaupir sér stærsta fjölmiðil landsins til þess að halda að okkur sinni söguskýringu. Við höfðum lifað árum saman við blekkingu sem valdhafinn vildi að við trúðum svo við myndum endurkjósa hann. Haldið er á lofti ýmsum söguskýringum, sem sýna aðeins eina hlið á atburðarásinni. Sá sem kúgar og drottnar ræður söguskýringunni og innilokunin sonanna er vegna þess að fjölskyldufaðirinn framdi óhæfuverk. Ísland í dag.

Verkið er sterkt, en á stundum einum of langdregið, sérstaklega fyrir hlé. Búningar eru mög góðir sama á við um leikmyndina og lýsingu. Leikstjórinn Jón Páll hefur unnið gott verk. Þröstur Leó er í fantaformi og Guðjón g Jörundur fylgja honum vel. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé Guðjón í svona stóru hlutverki og hann lofar góðu. Dóra fer vel með sitt hlutverk.

Þrjár og hálfa stjörnu af fimm.

Engin ummæli: