miðvikudagur, 9. september 2009

Vitlausasta tillagan - enn sem komið er


Á þessari mynd er launavísitalan sýnd með bláu línunni, hún hækkan úr 100 í 324. Neysluverðvísitalan er sýnd í brúnu línunni, en hún hækkar úr 100 í 243.
Tímabilið er 1989 til 2008.

Ég verð að segja að ég er undrandi á því hvers vegna engin fjölmiðill hefur skoðað betur það sem Stiglitz sagði um að tengja lán fremur við launavísitölu en neysluverðvísitölu. Þetta er líklega langvitlausasta hugmynd sem sett hefur verið fram undanfarnar vikur, er þó af nægu að taka. Hér er vitnað í forsíðuviðtal í Fréttablaðinu í dag.

En sumir og þ.á.m. sumir blaðamenn og sumir þingmenn virðast vera algjörlega vera búnir að kokgleypa athugasemdalaust allar neikvæðar fullyrðingarnar um verðtrygginguna.

Átta menn sig virkilega ekki á því hversu mikið kaupmáttur hafa hækkað umfram neysluvísitöluna síðustu tvo áratugi og í raun hvernig hlutfall afborgana af lánum hafa í raun lækkað? Kaupmáttur var að vaxa að jafnaði um 3 - 4% á ári, sem þýðir í raun að ef þetta kerfi hefði verið þá það dregið afborganir upp um þá tölu umfram það sem þær gerðu

Ef þetta fyrirkomulag Stiglitz hefði verið þá hefði verkalýðshreyfingin mætt í Karphúsið, ekki með kröfur um hækkun launa heldur lækkun launa. Sú launalækkun hefði bætt kaupmátt heimilanna mun meir en kauphækkun.

Er útilokað að hér geti farið fram vitræn og yfirveguð umræða? Við erum búinn að standa í kyrrstöðu og atvinnulífið að verzlast upp og við blasir mun erfiðari vetur en var í fyrra.


Í útreikningum er notast við launavísitala frá 1989. Það er viðurkennt meðal hagfræðinga að sú vísitala sem var gefinn uppfyrir þann tíma gefi ekki góða mynd af því sem var að gerast á mestu verðbólguárunum þegar verðlag æddi áfram og laun fylgdu í kjölfarið.

Hér er ég að tala um hin alræmdu ár 1983 – 1986. Á þessum tíma var ítrekað gripið inn í aðferðir við vísitöluútreikning og uppgefnar tölur vafasamar og óáreiðanlegar. Með sameiginlegu átaki þvinguðu aðilar vinnumarkaðs stjórnvöld og stjórnmálamenn að taka upp alvöru vinnubrögð með gerð Þjóðarsáttar. Ef staðan frá 1989 er skoðuð, en frá þeim tíma höfum við launavísitölu þá blasir við önnur mynd og í fullkomnu samræmi við pistilinn.

Meðalársgildi launavísitölu var 106.3 árið 1989 og hefur hækkað í 345 árið 2008.

Meðalársgildi neysluverðsvísitölu var 126.7 árið 1989 og hefur hækkað í 307.7.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hér er t.d. nokkuð vitræn umræða:
http://blog.eyjan.is/tthh/2009/09/09/ekki-god-hugmynd/#comments

Nafnlaus sagði...

"Raunlaun" er nú eitt fyndnasta hugtak sem sést hefur. Laun hverra hafa hækkað svona rosalega? Ég er búinn að vera með sömu laun í þrjú ár. Verðlag hefur nú hækkað talsvert á þeim tíma.

Nafnlaus sagði...

VERÐtrygging eða verðTRYGGING hver er munurinn? í útvarpinu um helgina var sagt frá því að það hafi kostað 50,000 að byggja hús 1930 í Reykjavík nú myndi það kosta 50,000,000 (+ 00 1980 eða 5 miljarða) ég fávíst fórnarlamb verðtryggingar spyr er einhver til í að reikna dæmið ef húsbyggjandinn 1930 fékk 50,000 lánuð verðtryggt til 80 ára en borgaði alltaf vextina hvað er höfuðstóllinn kominn í ?? ég held ca 13milljarða
kveðja Tryggvi

Nafnlaus sagði...

Ég var á fyrirlestri Stiglitz og man ekki til þess að hann hafi lagt þetta fram sem tillögu til lausnar vanda. Ég hef grun um að hér sé fólk að apa vitleysuna hvert eftir öðru. Hvernig væri að fara á vef HÍ og skoða fyrirlesturinn og staðfesta hvað karlinn sagðiÐ

Barton sagði...

Í Fréttablaðinu í dag er drottningarviðtal við Stiglitz þar sem þessi hugmynd hans er útlistuð í smáatriðum. Vefútgáfu blaðsins má sjá á visir.is.

Ég er sammála Guðmundi að þessi hugmynd er arfavitlaus, og margt í þessu viðtali hljómar eins og Stiglitz þekki ekki vel til lánamarkaðar á Íslandi. Hann talar t.d. eins og verðtryggð lán séu smíðisgripur bankanna en þau eru vitaskuld skilgetið afkvæmi íbúðalánastofnana ríkisins.

kv. Barton

Nafnlaus sagði...

Verðtrygging var fyrst og fremst hugsuð sem samningur stjórnvalda við almenning um að sama á hverju gengi þá héldust sparifé, lán og laun í hendur. Þetta var í raun samningur um að löggilda eina stjórntæki íslenskra stjórnvalda síðan sögur hófust; verðbólguna. Amríkanar segja "it´s not the heat, it´s the humidity, stupid" Á íslensku útleggst það:"það er ekki verðtryggingin heldur verðbólgan", sem er meinið. Þetta er afar einfalt. Kjósið þá sem lofa ykkur verðbólgulausu lífi og þá er verðtryggingin farin.
Stefán Benediktsson

Nafnlaus sagði...

Í ljósi þess að ég hef hækkað í launum um ca. 3% á ári mörg undanfarin ár, en verðbólga hefur verið á bilinu 4-12%, þá myndi ég þakka pent fyrir að fá að borga af ,,launavísitölu" frekar en hefðbundinni vísitölu.

Guðmundur sagði...

Þessi tillaga gengur upp í hruni eins var í fyrra og er á þessu ári og líklega 2011, en á eðlilegum tímum eins voru t.d. 1994 - 2007 þegar laun voru að hækka að meðaltali um 3 - 4% umfram verðbólgu þá er þessi tillaga aðför að skuldurum.

SIJ sagði...

Ef litið er til þróunar VL og VNV frá 1979 til 2009 þá hefur VL hækkað um 7.059% á þessu tímabili en VNV um 7.068%.
Þessi pistill Guðmundar gengur því ekki upp.
Sjá nánar á http://sij.blog.is/blog/sij/entry/948078/

Guðmundur sagði...

Ég stend við útreikninga mína. Þetta er að vísu rétt reiknað hjá SIJ, en hann notar „Launavísitölu til greiðslujöfnunar“ þar sem ekki er til önnur launavísitala sem nær þetta langt aftur.

Það er viðurkennt meðal hagfræðinga að þessi vísitala gefur ekki góða mynd af því sem var að gerast á mestu verðbólguárunum þegar verðlag æddi áfram og laun fylgdu í kjölfarið.

Hér er ég að tala um hin alræmdu ár 1983 – 1986. Á þessum tíma var ítrekað gripið inn í aðferðir við vísitöluútreikning og uppgefnar tölur vafasamar og óáreiðanlegar.

Með sameiginlegu átaki þvinguðu aðilar vinnumarkaðs stjórnvöld og stjórnmálamenn að taka upp alvöru vinnubrögð með gerð Þjóðarsáttar. Ef staðan frá 1989 er skoðuð, en frá þeim tíma höfum við launavísitölu þá blasir við önnur mynd og í fullkomnu samræmi við pistilinn.

Meðalársgildi launavísitölu var 106.3 árið 1989 og hefur hækkað í 345 árið 2008 eða 4.4 faldast.

Meðalársgildi neysluverðsvísitölu var 126.7 árið 1989 og hefur hækkað í 307.7 eða 1.4 faldast.