sunnudagur, 13. september 2009

Frida


Mynd af heimasíðu Þjóðleikhússins

Frida er nýtt íslenskt verk eftir hina frábæru listakonu Brynhildi Guðjónsdóttir. Sýningin er ferðalag um einstæðan hugarheim Fridu Kahlo mexíkóskar listakonu sem er ein forvitnilegasta listakona 20. aldar. Brynhildur er í hlutverki Fridu Kahlo og með hlutverk Diegos Rivera fer Ólafur Darri Ólafsson og tekst þeim vel ásamt öðrum leikurum. Leikstjórn er í höndum Atla Rafns Sigurðarsonar. Leikmynd eftir Vytautas Narbutas. Tónlist eftir Egill Ólafsson Lýsing hönnuð af Jóhanni Bjarna Pálmasyni.

Sýningin er ferðalag um einstæða veröld þessarar tilfinningaríku konu, sem hneykslaði heiminn með taumlausu líferni. Stormasamt hjónaband með Diego Rivera, einum þekktasta myndlistarmanni síns tíma var vinsælt umfjöllunarefni. Þó að margir yrðu til að heillast af list hennar meðan hún lifði var það ekki fyrr en eftir dauða hennar sem hún hlaut heimsfrægð.

Ást hennar er okkur framandi og stundum erfitt að skilja hana. En það elska engar tvær manneskjur eins. Frida var sérlunduð, eigingjörn en gædd óvenjulegum hæfileikum og tókst þrátt fyrir veikindi að afla sér heimsfrægðar með sjálfsmyndum sínum, táknmyndum um hennar eigið líf. Verkið er ögrandi. Uppsetningin ákaflega litrík, leikmynd og búningar frábærlega gert, með því besta sem ég hef séð. Sama á við um lýsingu. Tónlistin er góð og flutningur frábær.

Þrátt fyrir allt þetta jákvæða þá vantaði eitthvað í flæðið, manni leiddist næstum því stundum.

Engin ummæli: