Ég er að mestu hættur að hlusta á síðdegisútvarp RÚV, ég einfaldlega nenni því ekki. Það er svo lítið varið í það. Ég hlusta frekar á Rás 1 Víðsjá og Spegilinn það eru toppþættir. En ég var að ganga á Esjuna seinni partinn í dag líklega í 230. skiptið ef bókhaldið mitt er rétt og var að hlusta á fréttirnar þá var kynnt að þáttargerðarmenn Síðdegisútvarps ætluðu að fjalla um getuleysi ASÍ og ég hélt áfram að hlusta aldrei þessi vant á Rás 2.
Er ekki dáldið langt til seilst þegar dregin er fram doktorsritgerð frá seinni hluta síðustu aldar og hún tekinn af Síðdegisútvarpi RÚV og túlkuð sem hinu einu fullkomnu sannyndi? Var ritgerðinni tekið gagnrýnislaust á sínum tíma? Á hún við í dag?
Maður verður reglulega vitni af því hversu dagskrágerðarmenn síðdegisútvarpsins eru snöggir til ef einhver kemur fram með neikvæðar fullyrðingar um verkalýðshreyfinguna og eins hve Kastljósið er tilbúið að birta það gagnrýnislaust.
Það liggur fyrir að stéttarfélögin hafa beitt sér á undanförnum misserum gagnvart stjórnvöldum í að taka á vanda heimilanna. Maður myndi ætla að dagskrárgerðarmenn síðdegisútvarpsins hefðu kannað það sem þar hafi komið fram og birt hefur verið áður en þeir báru þær dellur sem þeir fóru með sem sannar fullyrðingu og gerðu hróp að forseta ASÍ þegar hann mótmælti fullyrðingum þeirra og reyndu ítrekað að grípa fram í fyrir honum.
"Forysta verkalýðsfélaganna eru orðnir of tengdir fjármálamarkaðnum vegna stjórnarsetu sinnar í fyrirtækjum." Fullyrtu þáttargerðarmenn. Nú spyr ég hvaða forystumenn í verkalýðshreyfingunni og í hvaða stjórnum sitja þeir. Ef þáttargerðarmennirnir hafa unnið þá vinnu sem við hljótum að gera kröfu til þá eiga þeir að vita það. Ég segi hiklaust að það er engin fótur fyrir þessari fullyrðingu, þetta er rógburður af hálfu þáttargerðamanna.
"Forysta verkalýðsfélaganna eru of tengdir fjármálamarkaði vegna setu sinnar í stjórnum lífeyrissjóða." Ég spyr hverjir eru það og í hvaða sjóðum? Hvernig stóðu þeir sjóðir sig í smanaburði við aðrar sjóði? Í landinu eru um 80 stéttarfélög með þá 80 formönnum og um 5 stjórnarmönnum að auki í hverju. Úr forystu verkalýðsfélaganna sitja í stjórnum lífeyrissjóða líklega um einn tugur manna. Þeir sitja líklega í stjórnum um helming lífeyrissjóða landsins og eru ekki í meirihluta í þeim stjórnum.
"Verkalýðsforystan er ekki að vernda hagsmuni félagsmanna, hún hefur gleymt sér í þessu stjórnar og fjármálastússi." - "Á ekki bara að afskrifa lánin?" - "Á ekki að láta lánveitendur bera byrðarnar?" Þannig rak hver rakalausa fullyrðingin aðra hjá þáttargerðamönnunum.
Nú spyr ég hverjir eru núverandi lánveitendur?
Ríkið á bankana ef ekki verða til eigur til þess að greiða upp skuldir þeirra lendir það á skattgreiðendum.
Ríkið stendur að Íbúðarlánasjóði, ef hann á ekki fyrir sínum rekstri lendir það á skattgreiðendum.
Sjóðsfélagar lífeyrissjóða eiga sjóðina og ef sjóðiurnir eiga ekki fyrir skuldbindingum sínum verður að lækka ellilífeyri og örorkubætur. (Það á reyndar ekki við lífeyrissjóð þáttargerðarmanna og alþingismanna sá reikningur er sendur skattgreiðendum)
Ég hef áður komið að því að sjóðsfélagar í því stéttarfélagi sem ég er í forsvari fyrir hafa krafist þess að við stöndum vörð um lífeyrissjóðinn og hann verði ekki nýttur til þess að greiða upp skuldir annarra.
Félagsmenn í því stéttarfélagi sem ég er í forsvari fyrir hafa krafist þess að félagið sjái til þess að skattar hækki ekki óhóflega nóg sé komið af kjaraskerðingum.
Síðan mætir einhver hópur sem ekki er tengdur stéttarfélögum og gerir hróp að því að stéttarfélögin fari ekki að samþykktum hópsins og vill gera stéttarfélögin ábyrg fyrir því að samþykktir hópsins nái fram að ganga. Þetta sendir Kastljósið út athugasemdalaust og Síðdegisútvarpið gerir það að hinum fullkomna sannleika.
Bíddu aðeins við eru það ekki félagsmenn stéttarfélaganna sem samþykkja á félagsfundum hvað viðkomandi félag á að gera? Í því stéttarfélagi sem ég er í forsvari fyrir hefur verið lögð mikil vinna ásamt öðrum stéttarfélögum að setja fram úrlausnir í atvinnulífi og vandamálum heimilanna. Þetta hefur verið ítrekað birt, en ég minnist þess ekki að Kastljósið eða Síðdegisútvarp RÚV hafi nokkurn tíma haft nokkurn áhuga á að birta það.
Þar er nefnilega ekki það drullubað sem þeir vilja.
"Af hverju beitir ASÍ ekki verkföllum?" spyrja fávísir þáttargerðamennirnir. ASÍ getur ekki beitt verkfallsvopninu, það hefur engan rétt til þess, það geta stéttarfélögin ein gert. Og það geta þau ein gert ef á undan er gengin árangurslaus sáttatilraun sáttasemjara í kjaradeilu.
"Af hverju er ASÍ búið að gleyma sér í stjórnum lífeyrissjóða? ASÍ kemur ekki að kosningu eins einasta stjórnarmanns í lífeyrissjóðum, það gera sjóðsfélagar viðkomandi stéttarfélags sem stendur að viðkomandi lífeyrissjóð.
Er til of mikils mælt að starfsmenn RÚV kynni sér einföldustu reglur á vinnumarkaði áður en þeir fara að geipa í þáttum sínum á fullu launum hjá skattgreiðendum?
Lágkúran gangvart launamönnum og samtökum þeirra ríður ekki við einteyming hjá sumum þáttargerðarmanna Kastljóssins og Síðdegisútvarpsins og ef maður gerir athugasemdir við það fær maður, ja á ég að segja „einkennilega“ pósta neðan úr Efstaleitinu.
8 ummæli:
Já, það er nú ekki alveg eins og þú sért hlutlaus í þessu máli heldur. Það getur þá bara vel verið að þú sjáir hlutina svona, en almenningur sér þessa hluti bara alls ekki með sömu gleraugum og þú. Verkafólki finnst bara þið verkalýðsforkólfar vera á allt of háum launum, Keyrandi um á allt of dýrum jeppum, að vasast allt of mikið í hlutum sem þið eigið ekkert með að vera að vasast í, og sinna því starfi sem til er af ykkur ætlast, af allt of litlum krafti. Það er enginn kraftur í verkalýðshreyfingunni lengur, því forkálfar hennar eru allt of vel alin naut af feitri mjólk, sem verkalýðurinn borgar. Okkur finnst bara eins og ykkur sé alveg sama.
Getum við ekki ætlast til að þessarri ágætis úttekt þinni sé svarað af Rásar 2 liðinu, á málefnalegan hátt????
Gagnrýnin væri beittari ef þú nafngreindir þessa þáttagerðarmenn.
Við erum fjölmörg sem viljum róttækar breytingar á RÚV og umræða sem benti á gloppurnar í rekstrinum myndi senda skýr skilaboð til hinnar nýju stjórnar. Þessi þöggun er óþægileg.
Aldeilis ljómandi grein, Guðmundur, og full þörf á þessu. Það er aldeilis morgunljóst, að einhverjir, sem telja sér hag í að eyðileggja stéttarfélögin og það sem þau standa fyrir, hafa hrundið af stað gríðarlega umfangsmikilli áróðursherferð. Rægja þá einstaklinga, sem félög verkafólks hafa valið til forystu, rægja eftirlaunasjóðina, eða það sem útrásarvíkingarnir eru ekki búnir að stela, rægja kjarasamninga og kjarasamningagerð, eins og þeir séu einleikur "verkalýðsrekendanna" svo ég vitni nú í uppáhaldsorðfæri þessa liðs. Þetta og margt fleira er of intensívt til að geta verið tilviljun. Tilgangurinn? Jú, ýmiskonar, bæði að draga athyglina frá þeim sem hafa eyðilegt efnahagslíf þessarar þjóðar og stolið fyrir hönd erlendra glæpafélaga gegn umboðslaunum þeim fátæklegu fjármunum, sem alþýða landsins hefur náð að nurla saman þrátt fyrir eyðileggingarstarfsemi framsóknar- og sjálfstæðisflokks. Nei, nú verð ég að hætta áður en ég verð enn reiðari.
Þetta er frábær greining. Það er alveg ótrúlegt hlusta á hægra liðið í síðdegisútvarpinu endalaust vera að gera aðsúg að samtökum launamanna og réttindum þeirra
Vil nú bara benda a að það er nú ekki bara í þessum málum sem þettað lið á RÚV veit ekkert um hvað það er að fjalla. Það er þeirra líf og yndi að þýða fréttir af Bandarískum miðlum og segj aþað sem stór fréttir og svo þegar mikið liggur við þá eru sendir pislar þaðan og nú í vikuni var pistill um um elliært gamalmeni sem hafði skotið vörð á safni gyðinga, hvurn djöfulinn varðar okkur um það. Á samatíma eru stór rigningar og flóð í Noregi og ekkert talað um það. Svo var nú spaugi legt í daginn viðtalið við konuna sem sagði að atvinnuleysbætur væri of háar, hún var ekki spurð neinnar spurningar bara látin bulla. Hvernig greiddi hún gæsluna fyrir barnið, húsaleigun og framfærluna ? Aldrei spurt. Enn menn ættu að athuga eitt að svona frétta menska er búinn að veranokkuð lengi alla vega alla þessa öld.Og við höfum la´tið bjóða okkur þettað einsog svo margt annað. Kveðja Simmi
Tek undir það sem fyrsti nafnlaus sagði. Þú ert ekki hlutlaus í málinu Guðmundur. En auðvitað er eðlilegt að þú takir til varna fyrir þína "stétt". Hvað er það svo sem verkalýðs forystan hefur verið að gera fyrir skjólstæðinga sína síðustu misseri? Ég hef bara alveg misst af því og er nokkuð víst ekki sá eini. Hvað eruð þið að gera fyrir félagsmenn sem hafa verið hlunnfarnir af fjármálakerfinu? Þú hefur sjálfur helst talað um að þeir geti sjálfum sér um kennt. Þeir voru ekki nógu hófsamir fyrir þinn smekk er það? Þetta tuð um hægri öfl gegn verkalýðsforystunni er fráleitt. Þau eru fyrir löngu búin að eignast hana með húð og hári. Það þarf að skipta um forystu í verkalýðshreyfingunni, núverandi forysta fær mann bara til að geispa.
Það er greinilegt Ólafur að þú ert ekki virkur þátttandi í stéttarféalgi og fylgist ekki mikið með.
Hún er orðin ansi þreytt þessi klisja og fullkomlega marklaus
Skrifa ummæli