sunnudagur, 13. september 2009

ESB - langtímalausn

Þrátt fyrir að fyrrverandi ráðherrar og stjórnarþingmenn haldi því ákaft fram að Hrunið hafi ekki orsakast af innlendum áhrifum, þá virðast margir vera annarrar skoðunar. OECD kemst að þeirri niðurstöðu að kreppan á Íslandi eigi meira og minna rætur í heimatilbúnum orsökum. Bankarnir hafi vaxið alltof hratt eftir að þeir voru einkavæddir og uppbygging þeirra verið alltof flókin fyrir íslenska eftirlitsaðila, meðal annars vegna krosseignatengsla. Það verði að byggja upp smærra og einfaldara bankakerfi á Íslandi undir strangara eftirliti.

Megintillögur OECD til framtíðar fyrir Ísland er að landið aðlagist evrusvæðinu og nái Maastricht-skilyrðunum fyrir inngöngu í Evrópusambandið og gangi síðan í sambandið. Að öðrum kosti verði Íslendingar að halda áfram þeirri peningamálastefnu sem rekin hefur verið undanfarin ár og byggi á verðbólgumarkmiðum en sú stefna hafi reynst Íslendingum bæði dýr og erfið. Þetta er sama og hagdeildir samtaka í atvinnulífinu hafa haldið fram undanfarin ár.

Það er afskaplega erfitt að fóta sig á málflutningi andstæðinga ESB, sem einkennist af upphrópunum og órökstuddum fullyrðingum. Þar má t.d. benda á fullyrðingar þeirra um að við ESB-aðild myndu fiskimiðin fyllast at erlendum fiskiskipum og að við missum yfirráð yfir orkulindum landsins. Það liggur fyrir að lagaumhverfi varðandi orkulindir yrði nánast óbreytt frá því sem nú er. Evrópusambandið á ekki neinar auðlindir. Svíþjóð selur sína umframleiðslu á raforku til annarra Evrópuríkja. Olíulindir Breta og Dana hafa ekki verið framseldar og verða aldrei. Allt eru þetta fullvalda ríki í samstarfi við önnur lönd. Rétt eins og Ísland er í samvinnu við önnur lönd.

Fiskveiðistefna ESB byggir á sögulegum veiðirétt. Öll vitum við, eða ættum allavega að vita; að önnur ESB ríki eiga ekki þann rétt hér. Sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins er eins og fiskveiðistefna Íslands, það er ef um er að ræða sameiginlega stofna, sem margar þjóðir nýta þá á fiskveiðistjórnun þeirra að vera sameiginleg meðal viðkomandi þjóða. Hér má benda á þá stofna sem við veiðum úr og eru sameiginlegir með öðrum þjóðum þ.e. kolmunna, síld og loðnu og karfann hér suður af landinu. Við erum þessa dagana að gera kröfu nákvæmlega um þetta grundvallaratriði hvað varðar veiðirétt í flökkustofnum makríls.

Á það má benda að hið fullvalda ríki Danmörk á litlar auðlindir, en þeir eru duglegir í viðskiptum og stunda gríðarlega útflutning á landbúnaðarvörum. Aðild að ESB er eina tækifæri íslendinga til þess að komast á stóran erlendan markað með fullunnar vörur, án núgildandi takmarkana. Það gefur okkur möguleika sem við höfum ekki um hagræðingu og vöxt í landbúnaði og sjávarútvegi með aðgengi að markaðinum sem opnast við aðild að ESB.

Allir forsvarsmenn íslenskra sprota- og tæknifyrirtækja hafa margítrekað komið fram á þessu ári og bent á að það sé engin framtíð hér á landi fyrir þessi fyrirtæki nema með að aðild að ESB og nýjum gjaldmiðli. Þessi fyrirtæki eru nú þegar flest að taka út allan sinn vöxt í Evrópu inn á ESB-svæðinu og sum þeirra þegar alfarið flutt þangað.

Ef við stöndum utan ESB blasir við fækkun starfa, eða réttara sagt stöðnum. Hvorki landbúnaður eða sjávarútvegur geta búist við vexti vegna eftirspurnar á innlendum markaði. Frekari hagræðing og framlegð mun þannig fyrst og fremst byggja á fækkun starfa. Þau 15 þúsund sem þarf að skapa hér á næstu 3 árum verða ekki til í óbreyttu ástandi og sannarlega ekki í landbúnaði og sjávarútvegi.

Ef við ætlum að komast upp úr dalbotninum þurfum við að skapa á okkur traust og sýna fram á að það standi til að breyta frá fyrri háttum. Með því er atvinnulífinu skapað svigrúm til þess að hefja uppbyggingarstarf. Það þarf að gera með langtímaáætlunum, ekki þessum venjubundnu íslensku „þetta reddast“ skyndilausnum eins og t.d. reisa nokkur álver og virkja allt sem hönd á festir. Forsvarsmenn íslenskra sprotafyrirtækja hafa sýnt fram á að ef þeim er sköpuð eðlileg aðstaða geta þeir byggt upp öflug fyrirtæki með hálaunastörfum fyrir okkar menntaða tæknifólk. Þau störf er ekki að sjá í óbreyttum landbúnaði og sjávarútvegi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er röng fullyrðing:

"Aðild að ESB er eina tækifæri íslendinga til þess að komast á stóran erlendan markað með fullunnar vörur, án núgildandi takmarkana"

Þórður Pálsson
bradraedi@gmail.com