laugardagur, 26. september 2009

Hvar á að skera niður?


Er þetta fólk ekki búið að skila sínu?

Íslenska heilbrigðiskerfið er á krossgötum, fyrir liggur umtalsverður niðurskurður. Verkalýðshreyfingin hefur á undanförnum árum krafist þess að stjórnvöld skili tilbaka því sem hún hafði af fólki á lægri launastigum með því að láta skerðingarmörk bótakerfisins ekki fylgja verðlagsþróun.

Stjórnvöld hafa undanfarna tvo áratugi markvist dregið úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins með því að lækka persónuafsláttinn. Fella hátekjuskatt niður og lækka tekjuskatt með flatri lækkun í stað þess að þrepaskipta skattkerfinu eins og gert er í öllum nágrannalöndum okkar, sem þýddi að þeir tekjuhæstu fengu umtalsvert meiri skattalækkanir en hinir tekjulægri. Skattur af fjármagnstekjum er hafður lægri en af öðrum tekjum og vaxandi hópur vel efnaðs fólks er boðið upp á þau sérréttindi að taka ekki þátt í rekstri samfélagsins.

Verkalýðshreyfingin benti á það á sínum tíma, sjá m.a. (hér) og (hér) og (hér), að stjórnvöld stæðu í þessum niðurskurði á ofboðslegu þennslutímabili og á sama tíma væri verið að selja eignir ríkisins. Nær hefði verið að nýta svigrúmið til þess að byggja upp sjóði og styrkja öryggisnet samfélagsins frekar. Það lægi augljóslega fyrir að þegar hin óhjákvæmileg niðursveifla bresti á seinni hluta 2008 eins og allir spáðu, þá myndu skatttekjur ríkisins alls ekki duga til þess að standa undir því samfélagsformi sem við gerum kröfur um.

Meðan skattar hinna tekjuhæstu lækkuðu umtalsvert voru hinir lægst launuðu sem áður voru skattlausir farnir að greiða skatt. Á meðan nær öll vestræn ríki juku jöfnunaráhrif skatt- og velferðarkerfa sinna, héldu íslensk stjórnvöld markvisst í öfuga átt. Jöfnun með sköttum og bótakerfi velferðarkerfisins hér á landi minnkaði. Skattleysismörkin eru sá þáttur skattkerfisins sem helst jafnar tekjuskiptinguna þegar aðeins er eitt skattþrep. Ef skattleysismörk fylgja ekki launavísitölu er gengið í átt til aukins ójafnaðar í tekjuskiptingunni á Íslandi.

Stjórnvöld breyttu vaxtabótakerfinu þannig að umtalsverður hópur ungs fólks á höfuðborgarsvæðinu fær ekki þær vaxtabætur sem það gerði ráð fyrir þegar það keypti sína fyrstu íbúð. Barnabætur hafa auk þess lækkað. Allt þetta jók ennfrekar á ójöfnuð.

Ekki hefur verið staðið að uppbyggingu hjúkrunarheimila í samræmi við fjölgun aldraðra og talið að það vanti 800 íbúðir. Deildum hefur verið lokað á spítölum vegna hagræðingar og þannig mætti lengi telja. Stjórnvöld staðið að umfangsmikilli hagræðingu með því að velta stórfelldum kostnaði yfir á heimilin.

Stjórnvöld brugðust við að jafna kostnaðarbyrðar milli þjóðfélagshópa. Það hallar á hópa sem síst skyldi, eins og öryrkja og aldraða og þá sem lægstar tekjur hafa. Góðæristíminn var ekki notaður til að styrkja burði velferðarkerfisins. Á umsvifamesta tímabili Íslandssögunnar var ekki farið að lögum og kosningaloforðum um að reisa sérbúin heimili fyrir þá sem minnst mega sín í samfélaginu.

Hvar á nú að beita niðurskurðarhnífnum?

14 ummæli:

Ingunn Guðnadóttir sagði...

Sæll Guðmundur.

Í dag eru greiddar 300 milljónir á ári til stjórnmálaflokanna.

120 þúsund á mánuði til hvers einasta þingmanns...ofan á laun...

Nú spyr ég...væri ekki nær að byrja á þessum enda??

kv..Ingunn

Nafnlaus sagði...

Það er þetta með skatt af fjármagnstekjum. Hann er nefnilega bæði af vöxtum og verðbótum. Skattur á verðbætur er ekkert annað en eignaupptaka.

Það er í góðu lagi að skattleggja vaxtatekjur eins og launatekjur sé verðbótunum sleppt. Þá fá líkasveitarféögin sinn hlut af skattinum eins og vera ber.

Nafnlaus sagði...

Góður staður til að skera niður væri t.d. kirkjumál og utanríkisþjónusta

Nafnlaus sagði...

Hvernig er það? Eru samtök bænda og útvegsmanna að fá hundruð milljóna króna úr ríkissjóð?

Nafnlaus sagði...

rúmlega 1000 Bændur fá yfir milljón á mánuði frá skattgreiðendum bara fyrir mjólkursamninginn, og skattgreiðendur borga mótframlag í lífeyrissjóð þeirra sem atvinnurekendur greiða annarstaðar, fá auk þess að greiða minni skatta og hafa sérkjör varðandi VSK

Nafnlaus sagði...

Sparnaðarþörfin myndi minnka eitthvað ef lagður væri á 50% tekjuskattur á laun yfir 500 þúsund og 100% á laun yfir milljón.

En ætli það yrðu ekki "verkalýðseigendurnir" í ASÍ sem fyrstir kvörtuðu?

Guðmundur sagði...

Mikið ofboðslega er hún orðin þreytt þessi klisja um verkalýðseigendur.
Hverjir eru það?
Þeir formenn verkalýðsfélaga sem ég þekki eru kosnir og ef þeir standa sig ekki þá eru aðrir kosnir.

Í því sambandi sem ég stjórna er það svo. Mönnum miðar ekkert með þessar endalausu og rakalausu fullyrðingar og alhæfingar spjallþáttastjórnendanna.

Ætli það sé eins og svo oft áður að hér skrifi einhver sem ekki er virkur félagi í verkalýðsfélagi?

Arnþór sagði...

Það breytir ekki því að hugmyndin um 50% skatt á laun yfir 500 þús og 100% skatt á laun yfir milljón minnkar sparnaðarþörfina. Hvað finnst þér um hugmyndina Guðmundur?

Baldur Bjarnason sagði...

Misstir þú af því, að þeir eru nú þegar byrjaðir, þeir eru hættir að kaupa Moggan

Guðmundur sagði...

Sæll Arnþór
Það stendur í textanum og hefur reyndar komið fram í allmörgum fyrri pistlum mínum að verkalýðshreyfingin hefur lagt til að tekinn verði upp fleiri skattþrep, eins er víðast í nágrannalöndum okkar.

Það er réttlátara skattkerfi. Hægri menn sem hafa stjórnað landinu undanfarna áratugi hafa ætíð alfarið hafnað þessum hugmyndum.

Ekki er ólíklegt að þetta þýddi hærri þrep á laun yfir 500 þús., og svo enn hærri á 750 þús. og svo enn meir yfir milljón. Það ætti einnig að setja skatta á þá greiða fjármagnstekjuskatt, í það minnsta útsvar.

Þetta myndi þýða að ég lenti í fyrsta þrepinu og geri ég engar aths. um það, enda væri ég þá augljóslega í mótsögn við sjálfan mig.
En svo ég svari líka annarri algengri fullyrðingu, laun mín eru samkvæmt kjarasamning RSÍ og 25% félagsmanna eru með hærri laun en ég.

Þetta myndi, eins við höfum bent á, skapa svigrúm til þess að tvöfalda vaxtabætur hjá fólki sem er að koma þaki yfir heimili sín.

Sama gilti um umtalsverða hækkun barnabóta til fólks sem er á sama tíma að ganga í gegnum hið kostnaðarsama skeið við að koma upp fjölskyldu.

En það er einnig annað sem gerir það óhjákvæmilegt að hækka skatta, það er að bjarga heimilum undan þeim hamförum sem af mannavöldum ganga nú yfir landið.

Hamfarir sem eru afleiðing þeirrar peninga- og efnahagsstefnu sem stjórnvöld undanfarinna áratuga hafa hannað og skapaði svigrúm fyrir fjármálglæpamenn að setja af stað stærstu svikamyllu sem sett hefur verið upp.

Við settum á sínum tíma á sérskatt til að mynda hamfarasjóð þegar Eyjagosið var og snjóflóðin fyrir vestan og einnig vegna jarðskjálftanna.

Ef íslensk þjóð ætlar að vera samkvæm sjálfri sér þá ríkja nákvæmlega sömu aðstæður núna og það þarf Hamfarasjóð til þess að bjarga nokkur þúsund heimilumog til þess þarf peninga og þeir rigna ekki af himnum ofan.

Nafnlaus sagði...

Það er ótrúlegt hvernig smuir láta ofstækið fram með sig. Ens sumir sem skrifa í athugasemdadálkana.
Menn sem vilja láta kalla sig þokkalega vitiborna geta varla verið að tala um 100% skatt á laun, jafnvel þó þeir haldi að með því séu þeir einungis að koma höggi á einhverja verkalýðsleiðtoga eins og þessi Arnþór er svo upptekinn af að hann hefur alveg blindast.
Ég hélt nú reyndar að það væri búið að fella þennan eina sem var með meira en milljón
Úlfur

Arnþór sagði...

Hamfarir sem eru afleiðing þeirrar peninga- og efnahagsstefnu sem stjórnvöld undanfarinna áratuga hafa hannað og skapaði svigrúm fyrir fjármálglæpamenn að setja af stað stærstu svikamyllu sem sett hefur verið upp.

Það sem einkennir pólitíkina í dag eru menn að þvo hendur sínar. Ekki einn einasti pólitíkus, verkalýðsforingi eða nokkur önnur manneska sem sjálfviljug hefur tekið að sér forystuhlutverk í okkar samfélagi viðurkennir hlut sinn í hruninu. Allir þvo hendur sínar. Benda hver á annan. Allir vilja halda sínu en láta aðra borga. Það er vandinn sem við þurfum að leysa. Eldri kynslóðin verður að stíga fram og höggva á hnútinn. Þegar skip sekkur er það háttur siðaðra manna að stilla sig og hemja og leyfa konum og börnum að fara fyrst í björgunarbátana.

Nafnlaus sagði...

Alveg er hann ótrúlegur þessi Arnþór, gengur áframm á órökstuddum klisjum sem hann dreifir í kringum sig.

Allir vita að allir helstu forystumenn verkalýðshreyfingarinnar börðust með kjafti og klóm gegn efnahagsstefnu stjórnvalda. Sendu frá sér hverja athugasemdina á fætur annarri um í hvað stefndi.
KÞG

Arnþór sagði...

"Allir vita að allir helstu forystumenn verkalýðshreyfingarinnar börðust með kjafti og klóm gegn efnahagsstefnu stjórnvalda."

Það verður ekki annað sagt en að sú barátta hafi misheppnast fullkomlega.