laugardagur, 5. september 2009

Fjölmiðlafrumvarpið

Við höfum verið að lesa og heyra í viðtölum þingmanna sjálfstæðismanna endursögn þeirra á því hvernig umræðan um fjölmiðlafrumvarpið var á sínum tíma. Endursögn þeirra er sögufölsun og réttlæting á eigin gjörðum, eins og svo oft áður.

Allir sem fjölluðu um fjölmiðlafrumvarpið á sínum tíma, utan sjálfstæðismanna, lýstu því ítrekað yfir að þeir væru fylgjandi víðtækri og vandaðri umræðu um endurskoðun á löggjöf um stöðu og starfsemi fjölmiðla hér á landi.

Það ætti að meta með yfirveguðum hætti þörf fyrir fjölmiðlalöggjöf og markmiðið á að treysta og efla vandaðan og sjálfstæðan fréttaflutning fjölmiðla, tjáningarfrelsið, fjölbreytni, gagnrýna umræðu og frjáls skoðanaskipti í landinu. Mikilvægi fjölmiðla hefði aldrei verið mikilvægari fyrir lýðræðið.

Umræða stjórnarþingmanna um fjölmiðlafrumvarpið einkenndist af orðhengilshætti og útúrsnúningum. Væru þeir spurðir um rök voru lögð fram gögn með fáfengilegum atriðum. Dregin voru fram gömul bréf, sem áttu að sýna fram á að þeir sem séu á móti frumvarpinu væru á mála hjá Baugi. Í sjálfu sér lýsti það kannski best eigin háttum um skoðanamyndun.

Fjölmargir þættir koma til álita við endurskoðun löggjafar um fjölmiðla. Það gildir um eignarhald og yfirráð yfir fjölmiðlum. En það gildir ekki síður um frelsi og sjálfstæði fréttastofa og ritstjórna og þær aðstæður sem starfsmönnum á fjölmiðlum eru almennt búnar.

Um framangreind sjónarmið var víðtæk samstaða í samfélaginu þegar fjallað var um fjölmiðlafrumvarpið, þvert á stjórnmálaflokka, viðhorf og hagsmuni í íslensku samfélagi. Í þessu sambandi er sérstaklega ástæða að benda á álit þeirra lögmanna sem tóku þátt í umræðúnni og nutu virðingar í þjóðfélaginu og höfðu trúverðugleika sakir þess að þeir létu pólitískt ofstæki ekki blinda sér sýn.

Fjölmiðlafrumvarpið var mjög umdeilanlegt og ekki síst fyrir hroðvirknisleg vinnubrögð, en ekki síður var það meðferð Alþingis sem olli róti meðal almennings. Valdblinda, dramb og þóttakennd framkoma forsvarsmanna valdhafa gekk fullkomlega fram af almenningi. Í sjálfu sér endurspeglast framkoma sömu aðila gagnvart almenning þegar þróun efnahagsstjórnunar er rædd. Það var samdóma álit mikils meirighluta þjóðarinnar að frumvarpið yrði ekki til þess að efla starfsemi fjölmiðla hér á landi, auka fjölbreytni og lýðræðislega umræðu.

Þvert á móti komu fram sterk rök um að frumvarpið leiddi til þveröfugrar niðurstöðu. Virtir lögmenn bentu á að efni frumvarpsins gengi gegn ákvæðum og markmiðum stjórnarskrá lýðveldisins um tjáningar- og atvinnufrelsi.

Síðasta útspil ríkisstjórnarinnar var ríkisstjórninni til ævarandi minnkunar, þar komu ekki fram neinar efnislegar breytingar á lögunum, það var engin lausn að hækka hámarkseign markaðsráðandi fyrirtækis í fjölmiðlafyrirtæki úr fimm í tíu prósent. Eftir stóðu hömlurnar um að fyrirtæki mættu ekki eiga meira en fimmtung í fjölmiðlafyrirtækjum og bannað var að fyrirtæki í blaðaútgáfu megi taka þátt í rekstri sjónvarps- og útvarpsstöðva.

Umræðan holli miklu uppnámi í þjóðfélaginu. 70% þjóðarinnar ofbauð og vildi staldra við og skoða málið frekar. Hjá þessum mikla meirihluta kom fram mikill vilji til þess að settar væru leikreglur um fjölmiðlamarkaðinn, en jafnframt krafa um að þau væru unnin af yfirvegun og vandvirkni.

Steininn tók svo úr í baráttu þáverandi forsætisráðherra og ráðgjafa hans gegn þjóðaratkvæðagreiðslu auk margra undarlegra yfirlýsinga, styrkti þessi 70% þjóðarinnar enn frekar í þeirri trú að tilgangur frumvarpsins efði verið sá einn að koma í veg fyrir að út séu gefnir á Íslandi fjölmiðlar sem séu stjórnvöldum ekki þóknanlegir.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

það getur verið að einhverjir málsmetandi og óháðir lögfræðingar hafi lagst gegn fjölmiðlafrumvarpinu á sínum tíma, en ég man ekki betur en það hafi líka verið lögmenn sem studdu það. Allavega væri æskilegt að þú myndir nefna þá lögmenn sem þú vísar til. En í raun hittir þú naglann á höfuðið þegar þú segir "ekki síður var það meðferð Alþingis sem olli róti meðal almennings. Valdblinda, dramb og þóttakennd framkoma forsvarsmanna valdhafa gekk fullkomlega fram af almenningi." Það voru nefninlega sameinaðir vinstrimenn og Baugsmiðlar (sem allir tala nú um en áður mátti vart nefna) sem hömuðust gegn frumvarpinu til að slá pólitískar keilur. Og mega skammast sín nú. Og til að halda sem flestu til haga: Ekki voru allir sjálfstæðismenn fylgjandi frumvarpinu heldur mæltu móti því af prinsippástæðum.

inginn sagði...

Helstu rök andstæðing fjölmiðlafrumvarpsins voru að þau bitnuðu aðaleg á einum aðila (þ.e. þeim eina sem átti meira ein einn fjölmiðill)

Með sömu rökum verðum við ávallt að búa við núverandi einokun á mjólkurvörum því það er einsýnt að öll lög sem sett verða um að tryggja aukna samkeppni á mjólkurvörumarkaði bitna eingöngu á MS ef löginn gerðu það ekki væru þau væntalega verulega vansniðinn.
(lög sem er reyndar löngu orðið tímabært að setja svo mjólkuriðnaðurinn verð ekki lengur undaþegin samkeppnislögum)

Lifið heill í ykkar blekkingu, sjálfur er ég að yfirgefa þetta sker og kem ekki til með að skipta mér af því hvernig stjórnvöld koma til með að tryggja sýnu fólki áframhaldandi einokun.

Nafnlaus sagði...

Það var líka svo einkennilegt hvernig stuðningsmenn fjölmiðlafrumvarpsins töluðu alltaf eins og Morgunblaðið væri óháður fjölmiðill og það væri svo mikið í lagi að hann væri einn á blaðamarkaði.

Öll umræða þessara aðila var gegnsýrð óendanlegri hræsni og í raun eyðilagt alla umræðu hér á landi, enda hafa hægri menn aldrei þolað gagnrýna umræðu. Sbr fréttamennsku Fox í USA
Úlfur

inginn sagði...

ég man ekki eftir því að Mogginn hafi verið einn á blaðamarkaði, Fjölmiðlalöginn hefðu aftur á móti hindrað að mogginn gæti stofnað 24 stundir og síðan dílað með 365 um markaðinn síðar.
Löginn náðu nefnilega líka til Árvakurs en þar sem árvakur var á þeim tíma ekki með neitt annað en moggan þá hfaði það ekki eins mikill áhrif, öðru máli hefðði gegnt ef mogginn hefði reynt að sameinast Skjá einumm það hefði ekki verið hægt.

(last þú einhvertíma þessi lög?)

Guðmundur sagði...

Já ég gerði það nú reyndar og skrifaði umsögn að beiðni Alþingis um frumvarp til laga um breytingar á útvarpslögum, nr. 53/2000, og samkeppnislögum, nr. 8/1993, 974. mál.
Skrifaði einnig allnokkrar greinar m.a. í Morgunblaðið og tók virkan þátt í þessari umræðu.

Það sem ég er að vitna til að Morgunblaðið var eitt á markaði um langt skeið áður en Fréttablaðið kom inn. Önnur blöð höfðu orðið undir.

Allir sem fylgdust með daglegri umræðu vissi að fréttamat Morgunblaðsins var oft harkalega gagnrýnt og ekki síður hin æpandi þögn blaðsins um ákveðin mál.