fimmtudagur, 1. október 2009

Prinsipp eða markmið

Umræða stjórnmálamanna í gær var sú ómerkilegasta sem ég hef heyrt um langt skeið. Ómerkilegt yfirboð fyrrverandi ráðherra og einn af hönnuðum hrunsins. Tilboð um 2000 MIA kr. sem dottið hafði út úr einhverjum norskum þingmanni í barferð í Osló með þingmanni Framsóknar (er svo sem ekki í fyrsta sinn sem þessi þingmaður er með eitthvert geip sem stenst svo ekki) varð að stórmáli í sárgrætilegasta Kastljósþætti fyrr og síðar og er þá langt til jafnað.

Ásamt því að annar þingmaður og fráfarandi ráðherra neitaði að horfast í augu við staðreyndir. Hann viðurkenndi að íslendingar stæðu frammi fyrir nánast óyfirstíganlegum erfiðleikar en hann ætlaði ekki að viðurkenna þá. Hann hefði sín prinsipp og þessir erfiðleikar pössuðu ekki við þau. Hann krafðist þess að aðrir þingmenn tækust á við erfiðleikana. hann ætlaði að vera stikkfrí.

Ég er ásamt öllum íslendingum algjörlega á móti Icesave, einnig hinu æðisgengna gengishruni krónunnar og hrikalegrar skuldaaukningar heimila og fyrirtækja í kjölfar hrunsins. Ég líka á móti hárri verðbólgu, háum vöxtum vegna hennar og verðtryggingu. Ég er algjörlega mótfallinn því að hér á landi séu fulltrúar Alþjóðabankans sem eru að gefa tilskipanir um hvernig íslendingar eigi að haga sínum málum.

Ég er í forsvari fyrir öflug hagsmunasamtök rafiðnaðarmanna. Þau hafa það á stefnuskrá sinni að leita leiða til þess að verja og bæta stöðu félagsmanna og heimila þeirra. Þessi samtök setja sér markmið og vinna að leiðum til þess að ná þeim markmiðum og stundum þurfa prinsipp að víkja, enda eru það markmið heildarinnar sem stefnt er að og prinsipp skipta þá litlu.

Til þess að finna þær leiðir er leitað til hæfustu sérfræðinga og allir möguleikar í stöðunni hverju sinni skoðaðir. Okkur hefur tekist að hækka lægstu laun tvöfalt meir en umsamdar launahækkanir á undanförnum árum, stytta vinnutíma á sama tíma um 10 klst. á viku. Jafnframt hefur kaupmáttur rafiðnaðarmanna vaxið um 3 – 4.5% að jafnaði á ári undanfarinn áratug og langt umfram hækkanir á viðmiðum m.a. verðtryggingar.

Ég hef lýst í allnokkrum pistlum hér á síðunni þeirri afstöðu, sem ég hef mætt á þeim norrænu fundum sem ég hef setið undanfarið ár. Er þar stjórnarmðaur í tveim mjög stórum samtökum. Þessi sjónarmið koma glögglega fram í ummælum norskra þingmanna í dag þar sem þeri gera lítið úr barflugunni og framsóknarmanninum og segja að það sé ekki á dagskrá að stytta sér leið í að hjálpa Íslendingum. Öll lán til Íslands eigi að fara í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Íslendingar verði sama hvort þeim líki það verr eða ekki að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Annað væri að ýta vandamálinu á undan sér. Þessu var fulltrúum þáverandi ríkisstjórnar sjálfstæðismanna og samfylkingar, gerð glögglega grein fyrir síðastliðið haust. Öll umræðan í sumar var því ekkert annað en innihaldslaust fleipur og flótti undan veruleikanum og hefur valdið íslenskum heimilum og fyrirtækjum óbætanlegum skaða.

Stefnuleysi stjórnvalda og getuleysi stjórnmálamanna til þess að horfast í augu við afleiðingar rangrar efnahagsstefnu undanfarinna tveggja áratuga er að steypa þessari þjóð í mun dýpri dal en Icesave samningurinn. Stöðugleikasáttmálinn stefnir í að falla 1. nóv. og nánast allir kjarasamningar og þær launahækkanir sem þá eiga koma, þar á meðal 8.750 kr. hækkun lágmarkstaxta.

Til marks um vanhæfi stjórnmálamanna Íslands ræða þeir hiklaust í sömu andránni um 360 þús. tonna álver í Helguvík og það sama á Bakka. Ásamt stækkun álversins í Straumsvík og uppbyggingu a.m.k. 3ja gagnavera ásamt koltrefjaverksmiðju og kísilmálmverksmiðju. Hvað skyldi nú þurfa í raunveruleikanum til þess að slökkva orkuþorsta þessara framkvæmda? Þetta kallar líklega á um 1.000 MW. orku hér á Suðvesturhorninu og um á 700 MW í Þingeyjarsýslu. Til samanburðar þá er uppsett afl þriggja virkjana í neðri hluta Þjórsár áætlað 255 MW.

Ef orkuöflun fyrir álver á Bakka við Húsavík er skoðuð kemur í ljós að öll möguleg orkuver á háhitasvæðum norðanlands nægja ekki til að útvega 360 þús. tonna álveri nauðsynlegt rafafl. Meira rafafl frá gufuaflsvirkjunum er ekki að hafa og þá er Skjálfandafljót næst og færa Jökulsá á Fjöllum yfir í Arnardal og láta hana falla í farveginn í Jökulsárdal og Dettifoss yrði lítil miga.

Íslenskir stjórnmálamenn komast einfaldlega ekki upp úr sandkassaleik sínum til þess að horfa heildstætt á hvaða raunorkuþörf þeir eru að ræða um. T.d. munu álver í Helguvík og stækkun í Straumsvík soga til sín nær alla orkuna frá hagkvæmum orkulindum á Suður- og Suðvesturlandi, ekki bara frá jarðvarmavirkjunum heldur einnig frá vatnsaflsvirkjunum. Þar með er farin nánast öll hagkvæmasta orkan í landinu.

Vissulega eru virkjunarkostirnir fleiri, en þeir eru allir minni og hafa ekki verið taldir sérlega hagkvæmir, sem sést best í þeirri birtingarmynd að þeir hafa ekki verið virkjaðir fyrir stóriðju. Þá verður komið að því að virkja fyrir okkur landsmenn og rafvæða bílaflotann með óhagkvæmum virkjunarkostum.

Því miður er það svo að hinn stóri sannleikur stjórnmálamanna um hinar miklu/ (ja -við getum sagt óendanlegu ef notuð er sama nálgun og hjá íslenskum stjórnmálamönnum) orkulindir Íslands eru skýjaborgir eru byggðar á raupi óábyrgra manna, sem ógerlegt er að vita hvort eða hvað hugsa, eða hvort þeir séu yfirleitt eitthvað tengdir við veruleikann.

Það er klár fantaskapur gagnvart almenning að vekja einhverjar væntingar ef þær eru svo ekkert annað en einhverjar óraunsæjar skýjaborgir ætlaðar til þess að eins að varða framabraut lýðskrumaranna. Markmiðin og þörf þjóðarinnar skipta orðið stjórnmálamenn engu, það eru eigin prinsipp og vörður framabrautarinnar sem skipta þar öllu.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hjó eftir þessari setningu..."Ég er í forsvari fyrir öflug hagsmunasamtök rafiðnaðarmanna. Þau hafa það á stefnuskrá sinni að leita leiða til þess að verja og bæta stöðu félagsmanna og heimila þeirra."

Hvernig finnst þér ganga að bæta hag fólks þessa dagana?

Guðmundur sagði...

Svarið er að finna í texta þessa pistils. Alltof hægt vegna þess að stjórnmálamenn eru uppteknir í sandkassaleik um hluti sem ligga á borðinu og eru búnir að ligga á borðinu frá því í nóvember í fyrra.

Á meðan sekkur Ísland dýpra og dýpra. Þetta leiðir til þess að kakan á næsta ári verður minni og það þarf að skttleggja hærra þessa minni köku hærra.

Nafnlaus sagði...

Greinargott og skýrt yfirlit. Ég slökkti á Ögmundi í gær, ég fékk alveg nóg. Mikið meira en nóg.

Nafnlaus sagði...

Sammála hverju orði
Ég skora á þig Guðmundur að senda þennan pistil í Fréttablaðið
( Mogginn ) er orðin of lítill,
you know.
Heiður.

Nafnlaus sagði...

Þetta er langbesti og raunsæjasti pistill sem ég hef séð.
Anna

Torfi Stefán sagði...

ef þú hefðir hlustað á viðtalið við Ögmund í Kastljósinu þá er hann berlega að kalla eftir því að þingheimur taki höndum saman. Hann vill ekki sandkassaslaginn og skurðgrafarhernaðinn. Hann segir af sér því hann getur ekki verið sammála því að einungis ein rödd eigi að koma frá stjórnarráðinu. Þetta er kallað lýðræði á flestum stöðum, jafnvel málfresli. veit ekki betur en að Ögmundur sé búinn að standa í ströngu við að tilkynna komandi niðurskurð öllum í spítalanum. Það verður að reyna að ná því hvað hann er að segja og gera með þessari aðgerð að segja af sér.