mánudagur, 22. september 2008

Einokun

Íslenskir bankar búa í vernduðu umhverfi sem stjórnvöld hafa búið þeim og vilja viðhalda með því hafna því að breyta peningastefnunni og ganga til viðræðna við aðila vinnumarkaðs um langtíma stefnumörkum um tiltekt á efnahagsstjórn og stefnu á meiri stöðugleika. Í stað þess er okkur boðið upp á endalausar upphrópanir og útúrsnúninga.

Íslenskum almenning er gert að greiða hæstu vexti í heimi og mikinn vaxtamun. Við búum við mikla verðbólgu og hátt verðlag. Þessar tekjur duga þeim ekki, auk þess dynja á okkur endalausar kröfur um allskonar þjónustugjöld. Þessar sértekjur íslensku bankanna duga fyrir öllum launakostnaði þeirra. Í gegnum kortakerfið hafa búið sér einstæða hlutdeild öllum fjármunahreyfingum. Í þessu sambandi má t.d. benda á að í mörgum löndum er manni gert að greiða sérstakt álag vilji maður greiða með korti, t.d. í Danmörk er það um 5%. Hér hafa þeir komið því fyrir að þetta renni til þeirra.

Til þess að bæta kolsvörtu ofan á þetta allt saman segja þingmenn frjálshyggjunnar að þeir vilji viðhalda sértækum íslenskum gjaldmiðli svo þeir geti séð til þess að íslenskir launamenn fái nú ekki of miklar launahækkanir. Hér er ég að vísa til endurtekinna ummæla forsætisráðherra og hins dáða efnahagsráðgjafa Péturs Blöndal.

Það er kostulegt að hlusta á þá stjórnmálamenn sem standa fremstir í því að viðhalda þessari einokunarstarfsemi skuli kalla sig frjálshyggjumenn. Þeir eru vitanlega sérhyggjumenn sem berjast fyrir því að gæta eigin hags og velta öllum kostnaði af því yfir á almenning. Forystumenn verklýðshreyfingarinnar eru meiri frjálshyggjumenn en þessir menn.

Hinir íslensku „frjálshyggjumenn??“ koma vísvitandi í veg fyrir að hér ríki venjuleg bankastarfsemi í samkeppnisumhverfi. Það gengur hreinlega fram af manni að vera gert að hlusta á forsætisráðherra og seðlabankastjóra hrósa sér af því að bankar fari á hausinn annarsstaðar í veröldinni, en ekki hér. Séríslensk kímni. Bankar sem búa við eðlilega samkeppni fara á hausinn. Það gera aftur á móti ekki bankar sem búa í þeirri einokunnarveröld sem íslenskir „frjálshyggjumenn“ hafa búið sér.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já, Pétri Blöndal varð ekki skotaskuld úr því að samþykkja eftirlaunalögin í desember 2003. Stakk lúkunni á kaf í sjóði almennings og síðan í eigin vasa. Deplaði ekki auga.

Þegar fjárhirðirinn Pétur Blöndal birtist, þá á almenningur að halda fast um budduna.

Þvílíkur hræsnari! Þvílíkur ræfill.

Rómverji

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir vel rökstudda og jarðtengda pistla, Guðmundur. Hvað er til ráða?

Nafnlaus sagði...

í dag var tilkynnt um stærstu einstöku fjárfestingu útlendings í íslenska bankakerfinu. fjárfestingin var upp á um EUR 200 milljónir. Þetta er að því að næst verði komist fyrsta stóra fjárfesting útlendinga í íslensku bankakerfi. Stór frétt, að loksins hafa erlendir kauphéðnar séð gróða von í íslensku bankakerfi. Það væri reyndar gaman að vita hvernig samningur arabans hafi verið ætli að það séu ákvæði um endursölurétt ef að illa fer?

Nafnlaus sagði...

Íslensku bankarnir hafa starfað á markaði sem hefur verið jafnverndaður og danski bjórmarkaðurinn. Þar þurfti úrskurð Evrópudómstólsins til að brjóta niður tæknilegar viðskiptahindranir sem dönsku stjórnvold höfðu komið upp til verndar dönsku bjórframleiðendurnir þ.e.a.s að það mátti einungis selja bjór í ákv. tegund af flöskum. Hér á íslandi hafa stjórnvöld haldið fast í tvennt til að fæla fra erlenda banka og fjárfest: verðtryggingu sem engin skilur og íslenska krónu sem enginn treystir. Þetta eru ekkert annað en tæknilegar viðskiptahindranir sem verður alla leggja niður.