fimmtudagur, 4. september 2008

Erfiðir tímar framundan

Flóknasta verkefni hvað varðar kjaramál er að nokkrir hópar hafa fengið umtalsverðar launabreytingar á undangengnum misserum, á meðan aðrir hafa fengið lítið. Það verður að vera svigrúm til þess að að verja þá sem minnst hafa fengið. Það dugar ekki að allir fái það sama eins og stefnan hefur verið undanfarið. Í almennum kjarasamningum ASÍ/SA í febrúar var tekið á þessu. Þeir sem höfðu fengið mesta launaskriðið fengu lítið sumir ekkert, á meðan aðrir fengu 5.5%. Úr því varð til krónutala sem notuð hefur verið í samningum sem gerðir hafa verið síðan þá. 20.300 kr., sem er 5.5% af meðalheildarlaunum. Krónutalan leiðir til þess að þeir sem eru á lægri töxtum eru að fá hlutfallslega meira og það hefur verið stefnan.

Ljósmæður eiga skilning allra, en það eru líka margir sem eiga eftir að semja á næstu vikum. Það eru fyrirferðamiklir kjarasamningar sem ekki runnu út síðastliðinn vetur, en renna út í október og nóvember. Auk þess eru hópar sem ekki náðu saman í vor. Nú reynir á menn. Verðbólgan er farin að nærast á sjálfri sér. Vextir setja fyrirtækin í þá stöðu að verða að senda hækkandi rekstrarkostnað út verðlagið, sem aftur veldur enn meiri verðbólgu. Hvert ætla menn með launin? Munu stjórnmálamenn leggja lóð á vogarskálarnar og leggja sitt af mörkum? Afnema eftirlaunafrumvarpið og fella niður þá spillingu að þeir fái dagpeninga sem þeir stinga í eigin vasa en senda svo hótel- og uppihaldsreikninga til ríkissjóðs. Út í löndum er ráðherrum og þingmönnum gert að segja umsvifalaust af sér verði þeir uppvísir af svona háttalagi. Ekki á Íslandi.

Þær lausnir sem draga á upp verða að taka mið af þessu. Það verður að skapa trúverðugleika á krónunna og stöðugleika. Það er mikilvægt að aðilar vinnumarkaðs og móti í sameiningu áherslur sínar hvað varðar samskipti við og stjórnvöld. Stjórnvöld verða að reka af sér það spillingarorð sem af þeim fer.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

HEYR HEYR!!!

Nafnlaus sagði...

Í útvarpsfréttum í dag kom fram að opinberir starfsmenn hafa fengið minni launahækkanir en þeir sem starfa í einkageiranum. Af því leiðir að þeir hafa orðið fyrir meiri kaupmáttarskerðingu en fólk á almennum markaði.
Fyrir síðustu samninga var því ítrekað haldið fram að opinberir starfsmenn hefðu dregist aftur úr í launum og að munurinn væri nú langt umfram það sem eðlilegt gæti talist.
Eru þá líkur á því að samningar náist við samtök opinberra starfsmanna næsta haust? Ástandið er vissulega alvarlegt en eiga þessir hópar að sætta sig við að dragast enn meira aftur úr?

Nafnlaus sagði...

Það er ekki hægt að hafa bæði stöðugleika og lága verðbólgu á sama tíma og atvinnustígið er mjög lágt. Ef menn vilja ná verðbólgunni niður er aðeins tvennt í stöðunni:

1) Láta íbúðarverð hrynja að nafnvirði

2) Koma atvinnuleysinu til skamms tíma í 4-5%.

Nafnlaus sagði...

...smá leiðrétting úr fyrri pósti. Smávegis ruglingur en þar átti að standa "...atvinnustígið hátt" en ekki lágt þ.e. lítið atvinnuleysi getur aldrei orðið samtíga lítilli verðbólgu.