sunnudagur, 21. september 2008

Hver er ábyrgð bankanna?

Það verður sífellt dýrara að vera Íslendingur og spurning hvar sársaukamörkin eru. Hvað þarf mikið til þess að launamenn, sem skyndilega eru orðnir eignalausir og eru að kikna undan hratt vaxandi greiðslubyrði, segi hingað og ekki lengra og flytji af landi brott. Sjálfsagt er ekkert einhlítt svar við slíkum spurningum. En það er ljóst að ráðstafanir Seðlabankastjórnarinnar virka öfugt, verðabólgan er farinn að næra sjálfa sig.

Líking krónu við fljótandi korktappa á úthafi hefur aldrei átt jafn vel við og nú. En það er lýðskrum, segir Seðlabankastjórinn og vill að við hættum þessum mótmælum. Enn ein upphrópunin. Og svo er bætt við að Evra sé engin skyndilausn. Var einhver að tala um það. Það er eins og sumir séu að fara á taugum. Þeir ráða ekki lengur umræðunni, ekki frekar en efnahagslífinu. En þessir menn kunna lítið annað en þrætubókarlistina og eyðileggja uppbyggilega umræðu.

Það voru ungir áhættusamir karlmenn á prósentum við að koma út lánum sem stútuðu nýfrjálshyggjunni. Græðgin gleypti allt, nákvæmlega sama og gerðist í Sovétinu. Byltingin étur börnin sín. Spyrja má um ábyrgð bankanna, að siga svona illa upplýstu starfsfólki á saklausan almenning. Fólk leitar til bankanna um fjármálaráðleggingar. Afturgreiddir guttar háskólamenntaðir í Armanifötum eru til staðar á bónusgreiðslum frá bönkunum fái þeir fólk til þess að taka lán, bara nógu andskoti mikil lán. Guttar sem nýskriðnir úr háskóla uppfullir af réttmæti þess að hafa mikla aura handa á milli um það snýst lífið að þeirra mati. Hafandi aldrei lent í niðursveiflu, atvinnuleysi, hvað þá langvinnum veikindum berandi ábyrgð á framfærslu fjölskyldu.

Greiðsluáætlunum er hnikað til og miðast við endalausan uppgang, endalausar launahækkanir, ekki einn veikindadag og að fasteignaverð geti ekki gert annað en hækkað endalaust. Hvar stendur það fólk sem leitaði ráðlegginga frá bönkunum í dag og hverjir eru það sem halda bónusunum sínum? Frjálshyggjumenn segja að fólk beri sjálft ábyrgðina. Það hafi tekið lánin. Jú það er satt, en hvert leitaði það eftir ráðgjöf? Við eigum semsagt miðað við þetta að taka ekki mark á ráðleggingum bankanna og “fagfólki!!” þeirra.

Reyndar er til annað dæmi um ráðleggingar fjármálaguttanna á Bensunum og sveru Bimmunum sem fljúga um á þyrlum til þess að fá sér SSpylsu í hléum frá laxveiðunum. Hver var ráðgjöf þeirra þegar DeCode hlutabréfin voru seld. Hverjir fengu sölubónusa og hverjir voru það sem sátu eftir með tóma buddu og þurftu jafnvel að selja húsins sín. Og hverjir voru veiðifélagar þeirra?

En það er almenningur sem stendur straum af kostnaðinum. Þrjátíu prósenta gengisfall og hækkandi vextir leiða til hækkunar dagvöru, þjónustu og hvaðeina sem við þurfum í okkar daglega lífi. Það mun aftur skila sér í hækkandi verðbólgu, sem aftur hlýtur að leiða til vaxtahækkunar Seðlabankans, sé litið til fyrri ákvarðana stjórnenda.

Langt er komið þegar forsvarsmenn efnahagsstefnunnar kalla það lýðskrum og landráð að ræða hratt vaxandi vanda, er ekki komið nóg af þessum mönnum. Eru það ekki þeir sem eru með lýðskrum og landráð? Höfuðstóll lána hækkar og greiðslubyrði vex. Reglubundnar upphrópanir og reyksprengjur forsvarsmanna stjórnvalda duga ekki og þaðan af síður einhverjar samsæriskenningar. Svo taka sumir sig til að hrósa þáttargerðarmönnum að varpa þessum "sannleika!!" yfir landsmenn.

Hvers vegna tóku Danir Svíar og Finnar þá ákvörðun að ganga til samstarfs við önnur Evrópulönd og byggja upp öflugt viðskiptasamband og tengja saman gjaldmiðla sína? Af hverju vilja forsvarsmenn stærsta flokksins ekki ræða þessi mál? Hagsmuni hverja er verið að gæta?

Fórnarkostnaðurinn við núverandi ástand er orðin hrikalegur og hann vex. Fram kom í vor að gera ætti úttekt á peningastefnunni, auk þess að skoða Evrópumálin? Voru þær yfirlýsingar bara enn ein reyksprengjan? Skítt með kerfið og almenning, við Georgarnir þurfum okkar hlut til þess að halda stöðu og völdum. Hefur ekkert breyst. Hvar er Salka Valka, Baden Powel og Svavar Gests eins og hinn óendanlega grátlegi sannleikur Dagvaktarinnar benti okkur á í kvöld? En Georg Bjarnfreðarson er svo lítill kall, svo lítill kall grenjandi undan því fái hann ekki að vera aðalkallinn og afturgreiddu guttarnir segja; "JÁ við viljum meira."

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já, hvar er loddarinn og lýðskrumarinn, sjálftökuafætan, fjármáláóvitinn, ríkisstarfsmaður Íslands, smjörklípu- og reyksprengju meistarinn? Valdasjúklingurinn?

Rómverji

Nafnlaus sagði...

,,Evrulánum logið upp á fólk
Spákaupmenn geta haft innkomu í einni mynt og útgjöld í annarri. Það getur venjulegt launafólk ekki. Ef kaup þess er í krónum, getur það ekki haft útjöld í evrum. Þess vegna þýðir ekki að taka evrulán fyrir bíl eða húsi. Skuldirnar verða fljótlega hærri en söluverð eignanna. Þrátt fyrir þessi augljósu sannindi leyfðu bankarnir sér að tæla fólk í gjaldeyrislán. Ég benti þá á, að það væri svívirðilegt. Allir létu það sem vind um eyru þjóta. Og enn talar enginn um, að stinga beri stjórnendum evrulána í fangelsi. Ráðgjöf þeirra var glæpsamleg mótsögn við heilbrigða skynsemi."

http://www.jonas.is/leidarar/greininp.lasso?id=10298


Datt í hug að setja niðurstöðu Jónasar Krisjánssonar á hver ábyrgð bankanna er !

Nafnlaus sagði...

Það er náttúrulega fáránlegt að halda því fram að erlendum lánum hafi verið logið upp á fólk. Ef um er að ræða 40 ára erlent húsnæðislán t.d. þá er það langt um hagstæðara en verðtryggð og óverðtryggð lán í íslenskum krónum, menn mega ekki gleyma því að verðtryggðu lánin hækka alltaf í kjölfar gengislækkunar og það ræður enginn eðlilegur maður við greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum með 15% stýrivexti. Þó að greiðslubyrðin sé að hækka núna þá er það bara tímabundið. Þetta er ótrúleg heimska í Jónasi og sýnir vonandi ótrúlega vanþekkingu frekar en að hann sé með óheiðarlegan málflutning. Þó svo ég sé nú ekki bankastarfsmaður þá hef ég ráðlagt fólki að taka erlend lán en jafnframt útskýrt það að það verði að hafa sveigjanleika til að geta ráðið við miklar sveiflur greiðslubyrði.

Nafnlaus sagði...

Ég ráðlegg þér Guðmundur að hætta að væla eins og aumur krati. Reyndu frekar að dýpka hugmyndafræðilegan skilning þinn. Ef þú heldur að vandamálin liggi fyrst og fremst í framferði einhverja starfsmanna bankanna og í öðru lagi afstöðu Seðlabankastjóra, ertu meira en lítið grunnhygginn. Efnahagsmálunum er fyrst og fremst stýrt eftir ákveðinni hugmyndafræði sem lengi hefur ráðið ríkjum á Vesturlöndum og víðar. Þessari hugmyndafræði hefur verið klastrað saman af kaupsýslustéttinni til að tryggja yfirráð og hagsmuni hennar. EBE er stýrt af sömu hugmyndafræði.
Það er ekkert í þessari hugmyndafræði sem tryggir sanngirni og réttlæti. Til þess að byggja upp betra og réttlátara þjóðfélag þarf að heyja hugmyndafræðilega baráttu. Sú barátta þarf að grundvallast á nýrri andlegri hugmyndafræði, sem of langt mál er að skýra hér. En endilega láttu ekki eins og Ingibjörg Sólrún, sem rausar um útrásarfíkla en vill á sama tíma hnýta alla þjóðina við ægilegasta skrifveldi veraldar, EBE.

Guðmundur sagði...

Já það er stundum með "commentin" þau fjalla um eitthvað annað en innlegg pistils.

Hingað til hefur ríkt sú ráðdeild að fólk fær ekki lán umfram greiðslugetu. Bankarnir tóku fólk á hné sér og ráðlögðu því og allavega aðvöruðu fólk.

Undanfarin ár hefur þetta verið með öðrum hætti. Bankamenn hafa fengið bónusa og premíur komi þeir lánum út, bara nógu miklu.

Í hávaxtalandi eins og okkar með allt að 30% sveiflur á gengi og lækkandi kaupmætti er þetta glórulaus fantaskapur. Það er innlegg pistilsins.

Nafnlaus sagði...

Frábært Guðmundur. Þú ert eini bloggarinn sem talar mannamál varðandi fjármál venjulegs fólks.

Mín spurning er: Hvað ætla bankarnir að gera við íbúðirnar sem þeir munu hirða af greiðsluþrota einstaklingum næsta árið?