mánudagur, 29. september 2008

Ofurseld þjóð

Eins og ég hef margítrekað komið að í pistlum þessarar síðu þá hefur græðgi og veruleikafirring einkennt svo kallaða útrásarvíkinga. Þeir spilað með lánsfé frá lífeyrissjóðum og áður en arði er skilað til hinna raunverulegu eigenda fjármagnsins hafa þeir hrifsað til sín ofurbónusa og margföld árslaun venjulegra launamanna. Nú er bætt í með því að skattgreiðendur þurfa að axla ábyrgð.

Undanfarna viku hefur okkur verið gert að hlusta á yfirlýsingar 800 millj.kr. mætingabónusmannsins um ágæti aðgerða hans. Ítrekaðar yfirlýsingar forsætisráðherra og viðskiptaráðherra um gríðarlegan styrk og sveigjanleika íslenska kerfisins. Í Silfrinu í gær fóru tveir stjórnarþingmenn mikinn í að gera lítið úr aðvörunarorðum aðila vinnumarkaðs. Sé litið til ummæla þessara stjórnarþingmanna og eins viðskiptaráðherra undanfarna daga þá er ljóst að þeir hafa ekki hugmynd um hvað er í gangi. Sama má segja um viðtal við forsætisráðherra í Mannamáli í gær. Það er Seðlabankastjóri sem ræður og þeir sem gagnrýna stefnuna og stöðuna eru með lýðskrum.

Hluti lausna fjármálasnillinganna er að fá lífeyrissjóðina til þess að taka stöðu með krónunni og flytja heim þá miklu fjámuni sem voru erlendis til þess að setja inn í íslenska hagkerfið. Þetta hefur verið gert að nokkru. En nú blasir við að þeir fjármunir eru að hverfa. Hvert félagið á fætur öðru er að fara á hausin. FL group, Baugur og fleiri eins og t.d. Eimskip í gríðarlegum vandræðum og í dag eru reiddir fram hundruð milljarða af almannafé til að bjarga banka. Hvað með ofurlaunin, premíurunar og bónusana?

Er ekki nóg komið fyrir löngu? Hef reyndar tekið svona til orða allmörgum sinnum áður. Við almenningur í landinu, skattgreiðendur og eigendur lífeyrissjóðanna, ætlum ekki að axla endalaust afglöp óagarðra ákvarðana stjórnmálamanna og græðgi fjárglæframanna. Við viljum losna við þessa ríkisstjórn og þann sem henni stjórnar og fá lýðræðislega og faglega stjórn og ákvarðanatöku.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ekki gleyma því Guðmundur að ég og þú kusum þessa menn. Ætli við eigum nokkuð betra skilið. Kv Simmi

Oddur Ólafsson sagði...

Já nú fer að líða að því að Geir biðji þjóðina afsökunar og biðjist síðan lausnar.

Síðan verður Steingrímur frændi forsætisráðherra í þjóðstjórn, nú eða þá að það verður kosið á ný.

Við þurfum forsætisráðherra sem er bæði jarð- og raunveruleikatengdur, einhver sem lét ekki glepjast af nýjasta glópagullinu.

Nafnlaus sagði...

Það væri fróðlegt að sjá ef einhver tæki saman laun, bónusgreiðslur, starfslokasamninga og "eignarréttar" bónusa 10 eða 15 æðstu starfsmanna bankans seinustu 10 árin.
Eins mætti bæta við arðgreiðslum til 10 stærstu hluthafanna seinustu 5 árin.

Kæmi mér ekki á óvart þó þar sé búið að mjólka út milljarðatugi.

En, óó, það gengur illa og þá er ég og þú rukkaður. Ekki mennirnir sem komu bankanum í þessa stöðu og blóðmjólkuðu hann.

Kv. Gunnar B.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur !

Þú ert í stjórn lífeyrissjóðs og þessi lífeyrissjóður er með eignartengsl inn í banka.
Getum við ekki búist við því að þú, og aðrir verkalýðsleiðtogar sem sitja í stjórnum lífeyrissjóða, gætið okkar réttar í þessum bönkum ?
Þú skrifar nefnilega : ,,Nú er bætt í með því að skattgreiðendur þurfa að axla ábyrgð."

Er það ekki sama hvort misvitrir stjórnmálamenn eða misvitrir verkalýðsleiðtogar, í stjórnum banka, eiga hlut að máli ?

Það er alltaf farið í vasan hjá okkur !

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur
Upplýstu okkur nú um hvaða félög tengd þessu hruni hefur sá lífeyrissjóður sem þú situr í stjórn hjá fjárfest í á s.l. ári. Og líka hversu miklu ÞIÐ hafið tapað fyrir ykkar sjóðsfélaga að undanförnu.
Kv.
Sveinbjörn