mánudagur, 8. september 2008

Órökstuddar klisjur

Hef allnokkrum sinnum komið inn á hinar fáfengilegu klisjur sem setjast að í íslenskri umræðu. Klisjur sem engin rök eru fyrir en verða að áberandi rökum. Ein þeirra rifjaðist upp á rölti mínu um Kaupmannahöfn í morgun þegar ég sá nokkra dýra bíla eins og Maserati og Bugatti og svo dýrar týpur af þýskum og enskum bílum, sem sjást ekki heima.

Margir hafa notað það sem nothæft innlegg í umræðuna að við höfum flutt inn fleiri Range Rovera en gervöll norðurlöndin samanlagt. Ég fullyrði að það eru að minnsta kosti jafnmargir (hlutfallslega) dýrir og jafnvel dýrari bílar á hinum norðurlöndunum.

Norrænir efnamenn hafa takmarkaðan áhuga á 4x4 bílum, þeir kaupa hraðskreiða bíla sem hægt er að nota á hraðbrautunum. Ég hef farið með nokkra af norrænum vinum mínum upp á jökla og hálendið og inn í Þórsmörk. Þeir súpa hveljur þegar ekið er út í jökulárnar og beint af augum yfir aura og jökla. „Nú skil ég hvers vegna þið eigið svona bíla“ sagði einn danskur vinur minn. „Heima á Jótlandi höfum við ekkert að gera við svona bíla. Það eina sem við gerum er að grafa nokkrar holur út á engi og fylla þær af vatni og spóla þar svo á laugardagseftirmiðdögum.“

Hann var búinn að greina íslenska jeppamenn þegar við komumst inn í Bása í Þórsmörk. „Þeir sem eru á stærstu jeppunum, ganga um á sandölum. Það er til þess að sýna og sanna fyrir öðrum að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af ánum og vöðunum“, sagði hann. Við lentum í þeim ævintýrum að vera á leið inn eftir í beljandi rigningu og það var mikið í ánum, upp á glugga. Hann var stundum fölur og fár á leiðinni inneftir, en tók kæti sína þegar við vorum búin að tjalda inn á Goðalandi og fá okkur bjór og hafði gaman af því að sjá hluta hópsins standa við jeppana og metast á um hverjir þeirra væru nú í lagi.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jeppar eru "reðurtákn" hér á landi, einskonar "Viagra on 4 wheels" fyrir marga menn, og reyndar margar konur líka.

Nafnlaus sagði...

fyndnast er þó að "fínustu jepparnir" fara ekki þar sem venjulegir jeppar fara, t.d. í Þórsmörk eða Landmannalaugar.

Ég hef a.m.k. ekki séð Range Rover á þessum stöðum, hvað þá á stöðum sem er erfiðara að komast að á landinu.

Því er soldið fyndið að "ultimate" skaufatáknið - Range Rover Vogue, er ekki notaður í fjallaferðir.

Það er nefnilega það ógrænasta sem manni dettur í hug að menn séu akandi um á bensínþyrstum jeppum - sem aldrei fara af malbiki...

Eins og með önnur reðurtákn, passar jeppafíkn okkar dýru drengja ( og stúlkna ) ekki við raunveruleikann.