miðvikudagur, 17. september 2008

Sviðin jörð

Undanfarnar vikur hefur hulan af hátterni nýfrjálshyggjunnar fallið og við blasir sviðin jörð þar sem hún hefur farið. Svo langt er komið að McCain frambjóðandi Repúblikana í BNA sem boðaði stefnu nýfrjálshyggju af miklum ákafa fyrir nokkru og kallaði eftir auknu frelsi, fækkun reglugerða og laga, hefur nú snúið við blaðinu og krefst þess í dag að bönd verði sett á Wall Street. Menn eru að verða hræddir um sparifé sitt, atvinnu og lífeyri. Allt er í rúst og það verður nánast óframkvæmanlegt fyrir Obama að rétta af þjóðarskútuna við nái hann kjöri. Ísland virðist stefna í sömu stöðu með gríðarlega skuldabyrði og of lága skatta. Þennslutekjurnar eru horfnar á braut og tekjur ríkissjóðs duga ekki lengur til þess að standa undir þeirri miklu þennslu sem hefur orðið á þjóðarbúinu á undanförnum árum. Enda hefur boðberum frelsis og einstaklingsframtaks verið raðað í ríkistryggða stóla prófessora, sendiherra, seðlabanka, hæstaréttar og héraðsdómara.

Áberandi er hvernig nýfrjálshyggjan hefur beitt sér í að losa sig við alla félagslega umgjörð og ekki boðið upp á nein úrræði í stað þeirra sem fjarlægð eru. Af nýfrjálshyggjumönnum er félagsleg umgjörð kölluð slævandi eða deifandi. Í stað þess hefur verið þrýst á aukin skil á milli efnahagslífsins og hins félagslega umhverfis. Vaxandi hnattvæðing hefur tryggt hreyfanleika auðs og nýtt til skammtímafjárfestinga og skammtímahagræðingu. Fyrirtækin hafa orðið að aðlaga sig, að öðrum kosti hafa þau glatað tiltrú markaðarins, eins og það er nefnt.

Markmið nýfrjálshyggjunar einkennast af hagræðingu í mannahaldi og launamálum. Allar ákvarðanir taka mið af skammtíma og ekki er um endurnýjun eða uppbyggingu að ræða. Farið er inn í fyrirtækin og þau standa svo eftir óvarin fyrir áföllum, eins og blasir við okkur þessa dagana í áður gömlum og grónum fyrirtækjum. Í þessu sambandi má benda á hvernig farið hefur fyrir járnbrautum, vatnsveitum og rafveitum sem hafa verið einkavæddar. Eftir nokkur ár er búið að hreinsa út öll verðmæti og ekki hægt að tryggja öryggi almennings og annað hvort að verður að verja skattfé til þess að kaupa hin fyrrverandi almenningsfyrirtæki aftur og byggja þau upp frá grunni eða afnotagjöld eru hækkuð ótæpilega.

Nýfrjálshyggjan heldur einstaklingnum utan sviga við efnahagslega formgerð og stefnir markvisst á að draga tennurnar úr fjöldasamtökum með því að varpað er rýrð á allar athafnir þeirra. Þetta hefur glögglega heyrst í málflutning hægri þingmanna og formælenda frjálshyggjunnar, má þar m.a. minna á ummæli eins helsta þeirra í Silfrinu um helgina. Þetta á sérstaklega við um vinnumarkaðinn. Þar ræður för hagræðingin og markaðsetningin. Nýfrjálshyggjan þiggur áhrifamátt sinn frá pólitísku og efnahagslegu valdi þeirra hagsmunaðila sem hún stendur vörð um; hluthafann, iðnjörfana og stjórnmálamenn af hægri kantinum. Með þeim má telja miðjumenn sem hafa komið sér notanlega fyrir í uppgjöf afskiptaleysisins. Í þessu sambandi má benda á viðhorf nokkurra þingmanna á síðasta kjörtímabili, þ.e.a.s. meðan þeir voru við stjórnvölinn.

Nýfrjálshyggjan leggur upp úr að ala á óvissu meðal launamanna, hættunni á uppsögn. Í sumum tilfellum hefur tekist að fjarlægja samtrygginguna sem samtök launamanna hafa komið upp. Með því verða áhrif óvissunnar áhrifameiri. Rekstrarhagfræðilíkön einstaklingshyggjunnar ganga út á tilvist hóps atvinnulausra. Samtrygging hverfur og ráðningar verða tímabundnar og hlutfall ótryggra starfa vex.

Nýjungadýrkunin ræður, einn dagur í einu. Æskudýrkun vex, viðhorf ungs fólks samsama sig betur nýfrjálshyggjunni. Þiggja smábónus gegn því að afsala sér áunnum réttindum. Eldri starfsmenn átta sig betur á mikilvægi samtryggingar og samstöðu. Fréttir fjalla um líðandi stund og minnisleysi fréttastofanna vex. Í skjóli þessa mæta ráðandi menn í spjallþætti og halda því hiklaust fram að stjórnarráðshúsið sé brúnt. Á morgun kemur fram önnur fullyrðing um að það sé rautt. En fréttamaðurinn fer ekki og athugar hver liturinn er í raun, það skiptir hann engu hvort það sé enn hvítt. Athafnaleysið við umfjöllun og könnun á margna af þeim tvíræða sannleik sem borin hefur verið á borð almennings blasir við.

Nýfrjálshyggjan hefur í vaxandi mæli samsamað sig við Sovétið hið gamla. Tilvist stjórnmálamanna og háttsettra embættismanna byggir á vaxandi mæli á mætti markaðarins og völdin snúast yfir í að tryggja stöðu sína og viðhalda stólunum. Hinir ungu frjálshyggjumenn sem komust að stjórnvölunum upp úr Þjóðarsáttinni, eru nú teknir að grána í vöngum og allt snýst um að viðhalda völdunum, þó svo það kosti almenning svimandi fjárhæðir. Samsömunin við gamla Sovétið er að fullkomnast. Í skjóli þeirra alast svo upp þægir og skoðanalausir ungir menn sem kátir þiggja kátir sem falla af borðunum. Hinir hafa glatað tiltrú valdahafanna og markaðarins og fara sömu leið og Þjóðhagsstofnun.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill hjá þér Guðmundur, verðum að hafa grunn net án þess þó að kæfa frumkvöðul einstaklingsins!!!

Nafnlaus sagði...

Ég er ekki sammála þér um Evrópumálin, en þetta er yfirborða góður texti hjá þér. Svona skrif eru mikilvægari en stjórnmálavafstur.
Þórður S.

Nafnlaus sagði...

þakka fyrir góða greiningu á hamförunum, leiðinlegt að hlusta á ráðamenn tala einsog okkur venjulegu fólki komi ekkert við og það komi ekkert við okkur að krónan sé hrunin, það er staglast á því að kaupmáttarrýrnun sé bara verðbólga, en auðvitað er fallið á krónunni ekkert annað en lífsgæða rýrnun,við ættum ekki að þurfa að vera á skerinu í átthagafjötrum vegna heimatilbúins vanda.

Nafnlaus sagði...

http://www.m5.is/?gluggi=frett&id=58229

takk snillingar