miðvikudagur, 17. september 2008

Tryggvi Þór og hagvöxturinn

Hef haft tilhneigingu til þess að trúa því sem Tryggva Þór núverandi efnahagsráðgjafi Geirs hefur sagt. En mér fannst sumt af því sem hann sagði í Kastljósinu í gær ekki ganga upp, meir að segja fjarri því. Samlíking hans um mælistiku hita og svo gjaldmiðils stenst einfaldlega ekki. Ég er reyndar ekki lærður hagfræðingur en hef þó lokið 2ja ára háskólanámi sem lýtur að þessu, auk um tveggja áratuga hörðu starfsnámi í fundarsölum vinnumarkaðsins.

Það sem er að fara með allt hér til andsk... er hin ofsalega sveifla gengisins. Fyrir liggur að hluta þessarar sveiflu má finna í spákaupmennsku með þennan litla gjaldmiðil, sem í raun hefur minnkað mjög mikið vegna gríðarlegrar stækkunar íslensks efnhagsumhverfis. Hluta má finna í röngum ákvörðunum stjórnmálamanna þar sem kosningaloforð ráða meiru en raunsæ efnahagsstjórn. Þar má t.d. minna á loforð um einkavæðingu og 90% húnæðislán. Hluta má finna í rangri ákvarðanatöku í Bandaríkjunum.

Einnig má þar benda á umfjöllun Tryggva Þórs um hagvöxtinn. Hann hefur líklega komið að ummælum Geirs fyrir nokkrum dögum um ofboðslegan og óvæntan hagvöxt hér landi. Glitnir sagði í gær að enginn hagvöxtur verði í ár og á næsta ári en muni síðan taka vel við sér árið 2010 og verða 3,6% það ár. Semsagt engin hagvöxtur á þessu ári þrátt fyrir að Geir og Tryggvi Þór haldi því fram að hann sé 4%. Þessi ummæli Geirs og Tryggva Þórs eru mjög óábyrg eins og ég kom að í pistli fyrir nokkrum dögum. Til þess fallinn að vekja væntingar sem engin innistæða er fyrir. Það er hlutur sem menn eiga ekki að leika sér að, og er eitt af því fyrsta sem maður lærir við að hefja störf við gerð kjarasamninga.

Glitnir er á svipuðum slóðum og hagdeild ASÍ um að hagvöxtur ætti að taka við sér á árinu 2010. En í þessu sambandi má reyndar minna það sem Jónas sagði í eftirminnilegu viðtali sínu hjá Agli um síðustu helgi, það réðist af því hvort stjórnmálamenn ætluðu að láta undan freistingum og skreppa út í Ríki og slá fyrir einum kassa og vera búnir að koma á fót nýrri veizlu í næstu kosningum. Eins og gert var í síðustu kosningum. Það er að segja ef við eigum að búa áfram við samskonar efnahagsstjórn reista á kosningaloforðum og kjördæmaplotti, þá verðum við kominn á Vog og verðum að fara í löngu meðferðina innan nokkurra ára.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Maður hefur það á tilfinningunni að Tryggvi Þór tali um gjaldmiðilinn meira af hollustu við húsbóndann en eigin þekkingu.

Nafnlaus sagði...

Það var dálítið gott sem Tryggvi sagði í lokin. Hann talaði um meltingarveginn og sagði að við hefðum verið að reyna að kyngja fíl. Sem sagt íslenska fjámálakerfið hefði tekið dálítið stóra bita upp í sig.

ÞÚB

Nafnlaus sagði...

Þettað liggur nú ljóst fyrir þegar við erum búinn aðvera á lána og neyslu fillerýi í um þrjú ár þá eru eftirköstin þinka eða gengið hrinur. Hann nefndi nú að það væru ekki allsstaðar ánægja með Evruna og er það á þeim stöðum þar sem efnahagsstjórn hefur ekki verið góð eða eitthvað komið uppá í efnahagslífinu.Það gengur ekki neitt sérlega vel hjá þeim ríkjum sem eru að flytja vörur út af Evru svæðunu vegna þess að eran er það há. Við skulum nú ekki gleyma því að allt ál er flutt út í Dollurum og er orðið verðmætatsi útflutningur okkar. Þannig kanski væri réttast að breyta í Dollara. Kveðja Simmi