þriðjudagur, 2. september 2008

Spá um stefnuræðuna

Ég ætla að spá því svona í morgunsárið að hin þýðingarmikla stefnuræða forsætisráðherra í dag snúist um ekkert og fullyrðingar um að hann hafi mikið samráð við alla. Fyrir liggur að aðilar vinnumarkaðs hafa margítrekað lýst því yfir að ekkert samráð hafi verið. Einungis tilgangslitlir fundir þar sem ráðherrar hafi horft ráðleysilega upp í loftið á meðan þeir sötruðu kaffisopann. Í þessu sambandi má benda á að formenn stjórnmálaflokkanna héldu því fram í viðtölum í gærkvöldi að engir nefndarfundir hafi verið haldnir í hinu geysilanga sumarleyfi Alþingis.

Skýrsla forsætisráðherra í dag muni snúast um upptalningu á því hvað ríkisstjórnin hafi nú verið gasalega dugleg og gert margt. Hann mun telja upp allt mögulegt og ómögulegt og leggja það allt út sem mikla sigra. T.d. hversu mikla sigrar það hafi nú verið að gera ekki neitt. Þar hafi sparast miklir fjármunir fyrir ríkissjóð. Ekki verður fjallað um hvað það hafi kostað almenning og fyrirtækin. Það mun ekki verða fjallað um þau mistök sem gerð hafa verið í peningamálastjórninni. Hann mun jafnvel ganga svo langt að halda því fram að það sé nú engin kreppa, þrátt fyrir að krónan hafi fallið um 30% og stærsta útflutningsvara okkar sé atvinnuleysi, það er að senda út erlenda starfsmenn og lífeyrissjóðirnir hafi flutt inn í sumar liðlega 200 milljarða af erlendum fjárfestingum sínum til þess að styrkja krónuna.

Hann mun telja upp, eins og fjármálaráðherra gerði nýverið, ýmis verkefni sem reyndar hafa verið í bígerð flest hver árum saman en dregist vegna skorts á framtaki stjórnvalda. Ekki munu koma fram yfirlýsingar um að tekinn verði lán og lagt út mannfrek verkefni. Einnig talið til sigurverka ríkisstjórnarinnar það sem verkalýðshreyfingin þvingaði fram í kjarasamningunum í febrúar síðastliðnum. Ástæða er að minnast þess að sumt af því kemur ekki til framkvæmda fyrr en í lok kjörtímabilsins og mun ekki virka núna.

Með öðrum orðum það mun ekkert koma fram um hvernig ríkisstjórnin ætli að taka á vandanum og í raun mun forsætisráðherra vera að viðurkenna ráðaleysi sitt.

Set þetta á blað núna vegna umræðna sem ég hef lent í, en mun glaður draga þetta allt tilbaka ef forsætisráðherra sýnir nú rögg og tekur af skarið og telur upp eitthvað markvert.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ólikt munu þeir að Gordon Brown og Geir H. samk. þinni spá. gær viðurkenndi Brown að Bretar stæðu frami fyrir kreppu, vegna lánsfjárkrísunar og hækkunar hrávöruverð, og nú væri tími til aðgerða. Hann nefndi ekkert á hversu sterkur breskur efnahagur væri til að standast þetta, heldur nefndi að erfiðir tímar væri framundan og allir yrðu að fórna einhverju. Ég er vissum að Geir segir að efnahagurinn sé traustur og við séum vel í stakk búinn til að klást við erfiðleika. Þetta er klysa sem búið er að hamra á sl. 6 mánuði. Fyrirtækjum, bönkum og heimilum er að blæða út.