Brottrekstur Ólafs af Morgunblaðinu vakti óneitanlega undrun margra, þar á meðal ritara. Kannski ekki síst þar sem ritari stóð í þeirri trú að Ólafur væri í takt við nýja forystu Sjálfstæðisflokksins og nýja starfsmenn sem verið er að ráða inn í Valhöll. En ekki síður að honum tókst sannarlega að ná árangri með blaðið.
Auk þess var Ólafur í takt við hinn stóra hóp fólks í flokknum, sem vill skoða vel frekara samstarf við ESB annað hvort með inngöngu eða eins og Noregur hefur gert; innleiða nánast allar tilskipanir ESB. Helsta ástæða þess að bankagengið komst upp með hin svakalega vinnubrögð, er að ríkisstjórnir Davíðs klikkuðu á þessum grundvallaratriðum. Vildu frekar halda áfram á braut ameríkanseringarinnar.
Eins og sjá og heyra má á skrifum og umræðum harðlínuhóps Sjálfstæðismanna, þá er honum fullkomlega um megn að horfast í augu við afleiðingar þeirrar stjórnarstefnu sem hópurinn hefur lamið fram undanfarin 18 ár. Jafnvel í andstöðu við hluta flokksins, enda gengu allmargir úr flokknum.
Einnig blasir uppdráttarsýki í þeim valdataumum sem Sjálfstæðismenn voru búnir rækta í embættismannakerfinu og það er meir en harðlínuhópurinn getur afborið. Nú hafa hlutirnir gengið þannig upp að Morgunblaðið er komið í hendur þessa hóps. Sumir telja að þar hafi öfl að tjaldabaki haft hönd í bagga.
Viðbárur Óskars Magnússonar í Kastljósinu í gær voru með hreinum ólíkindum og lýsir vel hvar í veruleikanum hann er staddur. Nú á að hefja hreinsunartrúboð byggðu á stjórnarstefnu harðlínuhópsins. Ætla má að það muni valda nýrri forystu Sjálfstæðisflokksins enn meiri erfiðleikum voru þær þó ærnir fyrir.
En það mun örugglega seinka þeirri siðbót, sem fram þarf að fara hér á landi til þess að sátt náist í samfélaginu. Jafnvel eyðileggja hana. Það er kannski akkúrat það sem stefnt er að, auðvelda harðlínumönnum að komast hjá að horfast í augu við eigin gjörðir og auðvelda flóttann frá veruleikanum. En það góða við þetta er að Mogginn getur ekki lengur komist upp með að kynna sig sem óháð blað.
2 ummæli:
Vel skrifað og góð greining.
Að venju.
Flott hjá þér, Guðmundur. Takk fyrir.
Skrifa ummæli