fimmtudagur, 10. september 2009

Glæst framtíð að baki

Framtíðin er að sigla hjá. Strax við upphaf hrunsins blasti við ótrúlega veik stjórnsýsla haldinni mikilli ákvarðanafælni. Til Íslands hafa leitað fjöldi fyrirtæki með tillögur um uppbyggingu kísilmálverksmiðju, sólarselluvinnslu, koltrefjavinnslu, a.m.k. 3 gagnaver, álver í Helguvík, stækkun í Straumsvík og álver á Bakka.

Þessir aðilar hafa nú sumir hverjir þegar farið, aðrir eru að gefast upp. Ástæður hafa komið fram í ummælum nokkurra þeirra; Ekki hefur verið hægt að ná samkomulagi um afgreiðslu og svör á ásættanlegum tíma. Skipulagsnefndir geta ekki afgreitt mál og þannig mætti lengi telja.

Allt er í frosti hjá stjórnmálamönnum, sem hafa varið öllum sínum tíma undanfarið ár í tilgangslausar deilur um dægurflugur og lóðamörk milli flokkanna. Fram hefur farið hefðbundin keppni í sölum Alþingis og í spjallþáttum um að tala allt niður og ala á svartsýni. Með þessu halda stjórnmálamenn allri uppbyggingu atvinnulífs í fjötrum og draga úr framtaki þjóðarinnar.

Það hefur legið fyrir allt síðasta ár að fyrir lok þessa sumars yrði að taka ákvarðanir um uppbyggingu orkuvera. En ríkisstjórnin getur ekki náð niðurstöðu og er klofinn, þar með eru forsendur framkvæmda brostnar og fyrirtækin á leið annað. Enginn tekur lán á þeim kjörum sem í boði eru, hvorki einstaklingar eða fyrirtæki. Þannig að sá markaður er hruninn.

Við blasir hrikalegur vetur. Mörg fyrirtæki munu endanlega gefast upp og atvinnuleysi mun vaxa en frekar. Gríðarlegur niðurskurður hins opinbera mun hafa víðtækar afleiðingar ekki bara meðal opinberra starfsmanna ekki síður meðal fyrirtækja sem hafa unnið fyrir hið opinbera.

Þetta mun valda því að óvissan og samfara því ólgan í samfélaginu mun vaxa hratt. Það er svo sárt að horfa upp á þetta. Aðilar vinnumarkaðs lögðu á sig mikla vinnu fyrri hluta þessa árs til þess að skapa sátt á vinnumarkaði í tvö ár og leggja með því sitt af mörkum að hægt væri að ná niður verðbólgu og vöxtum og tryggja uppbyggingu. Launamenn og samtök þeirra hafa staðið við sitt. Lögð hefur mikil vinna ásamt starfsmönnum ráðuneyta í að fara yfir að skilgreina hvaða verkefni ætti að leggja áherslu á, ásamt því að stjórnir lífeyrissjóða hafa verið fengnar til þess að vera virkir þátttakendur í verkefninu.

ASÍ lagði upp síðasta vetur heildstætt og skuldaraviðmiðað úrræði, sem tæki jöfnum höndum á verðtryggðum og óverðtryggðum skuldum. Hægt yrði að skilmálabreyta veðskuldum og fella niður gengistryggingu. Kerfið átti að vera notendavænt og einfalt með endurgjaldslausri aðstoð. Það sem blasir við almenning í dag eftir meðhöndlun stjórnsýslunnar er ótrúlega flókið og frosið kerfi þar sem fólk fær ákaflega takmarkaða aðstoð.

Eftir á að hyggja virðist að við hefðum frekar átt að fylgja tillögum um starfsstjórn síðasta haust og senda stjórnmálamenn í hálfleikshlé til þess að endurskoða leikaðferðir sínar, á meðan við værum að vinna okkur úr vandanum. Það liggur í loftinu að það verði pólitísk upplausn þegar líður á veturinn.

Stjórnmálamenn okkar hvaða flokki sem þeir tilheyra hafa brugðist fullkomlega. Þeir verja sínum tíma í hinn hefðbundna sandkassaleik og stjórnsýslan gerir það sem henni hentar eins og hefur verið alin upp við undanfarna tvo áratugi.

Brátt á það við um Ísland að það á að baki sér glæsta framtíð.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ísköld greining, því miður svo sönn
Úlfur

Nafnlaus sagði...

Spurning hvort Almannatenglar hafi haft rétt fyrir sér þegar þeir hafa ítrekað stungið upp á að ráða PR-skrifstofu til ríkisstjórnarinnar.... Maður heyrir af mjög mörgum glötuðum tækifærum vegna þess að Skallagrímur og Jóka svara ekki!

Hvernig væri að hafa persónu/persónur í fullri vinnu við að svara fyrirspurnum og koma beiðnum og þess háttar í réttan farveg, sbr. japanina sem fréttist af í gær ?

Svo auðvitað læðist að manni sá grunur að sjallarnir hafi falið bitastæð tilboð áður en skipt var um stjórn, bara svona til að hafa átyllu til að stinga rýting í bakið á VG/S - það væri flott samsæri....

H.B.

Nafnlaus sagði...

Því miður þá verður maður að vera sammála þessum pistli þínum. Allt sem ég heyri er á sama veg, og atvinnurekendur óttast það að þurfa að segja upp sínum kjarna starfsmönnum og eru ekkert vissum að fá þá aftur. Það er bara þannig að meðan sumir sleppa við að borga skuldir sínar þá eru aðrir settir upp við vegg og krafiðir um greiðslu eða þeir missi allt sitt.Samanber EXISTA þar sem þeir virðist slepp mjög vel þeir bræður og að manni finnst í skjóli lífeyrissjóðana. Allt svona tekur mátt úr fólki og það fyllist vonleysi og sér ekki neina ástæðu til að halda áfram. Hef sagt það hér áður að búferlaflutningar eru okkar mesta hætta. Kv Simmi