fimmtudagur, 10. apríl 2008

Afnám stimpilgjalds

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er ákvæði um að fella eigi niður stimpilgjald á kjörtímabilinu, margir sögðu loksins og kusu í samræmi við það. Flokkurinn samþykkti fyrir allmörgum árum mjög ákveðnar yfirlýsingar um það óréttlæti sem falið væri í stimpilgjaldi og það bæri að afnema ekki seinna en strax.

Hvers vegna Flokkurinn stendur í núna vegi fyrir áhuga Félagsmálaráðherra um að ganga hreint til verks og afnema allt stimipilgjaldið er torskilið. Embættismenn Flokksins hafa sest niður og búið til ótrúlega flóknar reglur um hvernig megi fella niður stimpilgjald af fyrstu íbúð.

Einhverra hluta vegna er ekki óalgengt á Íslandi, að par sem er að kaupa sína fyrstu íbúð sé í þeirri stöðu að annað hvor aðilinn hafi áður átt hluta í íbúð. Við búum ekki lengur á púrítönskum tímum hreinlífis og siðbóta. Forfeður okkar tóku sig til og hálshuggu þann sið árið 1550, alla vega stendur það í sögubókum. Sú aftaka var svo endurtekin í útvarpi Matthildi með þvílíkri hylli kjósenda, að einn höfunda var umsvifalaust settur í helsta forystuhlutverk í síðara tíma stjórnmála.

Það eru ótrúlega flókin lög sem embættismenn Flokksins eru búnir að sjóða saman um afnám stimpilgjaldsins. Óframkvæmanleg fyrirmæli starfsfólks þinglýsingarskrifstofa um hvernig eigi að standa að því að fella niður gjaldið.

Flokkur frelsisins vill að starfsfólkið spyrji almenning spjörunum úr hvort það hafi nú einhverntíma átt í einhverjum samskiptum við hitt kynið. Sem hafi nú kannski gengið svo langt að keypt hafi verið íbúð. Hvort sambúðin hafi nú ekki gengið upp. Hvers vegna og hverjum sé þar um að kenna og hvor aðilinn eigi nú rétt á að fá niðurfellingu hluta stimpilgjalds.

Þú lesandi góður getur allt eins og ég velt því fyrir þér hvers vegna Flokkurinn getur ekki einfaldlega gengið hreint til verks eins og Félagsmálaráðherra vill og fellt niður þennan ósanngjarna skatt strax og í heilu lagi.

Frekar en að setja opinbera starfsmenn hið Sovéska hlutverk að skríða upp í hjá fólki og spyrjast fyrir um bólvenjur og ákveða svo hvort það hátterni sé nú Flokknum þóknanlegt.

Einu sinni var ég virkur félagsmaður í flokk og sat m.a. í borgarstjórn fyrir hann. Sá flokkur hafði þá formann sem hafði verið einn af forsprökkum vinsæls útvarpsþátts sem hét Matthildur og ég hafði heillast af sjónarmiðum hans. Sá flokkur einsetti sér að velta ekki fyrir sér hvernig samlíf fólks hefði gengið fyrir sig. Fólk átti að geta notið eignamyndunar sinnar án þess að þurfa ítrekað að greiða skatt af sömu tekjum.

Einu sinni var gaman að fara niður í miðbæ og horfa á bárujárnshúsin og maður gat verið ástfangin eitt kvöld án þess að það hefði áhrif á skattlagningu síðar á ævinni.

1 ummæli:

Þráinn sagði...

Loforðið hljóðaði upp á "afnám stimpilgjalds" vegna húsakaupalána.
Aðgerðir eins og að afnema stimpilgjald af lánum vegna fyrstu íbúðakaupa eru lýtaðgerð á ófrýnilegra ásýnd þessa gjalds.

Því skal til haga halda að til stóð að útrýma stimilgjaldi, ekki gera á því andlitslyftingu og breyta því í "simpilgjald" í stað "stimpilgjalds".

Af hverju standa samfylkingarráðherrar að Jóhönnu undanskilinni í einhverju svona ímyndarkjaftæði, braski og smásvindli með stefnumál?