Mikið óskaplega eru tilsvör samgönguráðherra vegna mótmæla bílstjóra ómerkileg. Að vísa í ASÍ og reglugerðarverk í Brussel í hverju einasta svari er á afskaplega lágu plani.
Samgönguráðherra vísar í hvíldartímareglur sem gilda um Evrópu, lög sem eru sambærileg Vökulögunum íslensku frá byrjun síðustu aldar og sett voru til verndar launamönnum.
Ef samgönguráðherra nær fram þessum vilja sínum er það aðför að öryggi allra landsmanna sem eru á ferð um þjóðvegi landsins.
Reglur vegna bílstjóra voru settar til þess að stemma stigu við slysum sem hafa orðið að þjóðvegum og eiga rætur sínar að rekja til þess að um var að ræða bílstjóra sem voru búnir að aka langtímum saman. Sé einhversstaðar ástæða til þess þá er það hér á landi, þar sem vegir eru mjóir og ósléttir.
Hvíldartímalögin gilda um alla launamenn og kveða á um vinnutíma og þýða að bílstjóri má aka í allt að 9 klst á hverjum degi, þar er bara átt við þann tíma þegar bifreiðin er á ferð. Þetta getur þýtt í raun mun lengri vinnudag. Þar að auki má hann tvisvar í viku lengja virkan aksturstíma upp í 10 tíma.
Eftir akstur í 4,5 klst þarf bílstjórinn að taka sér a.m.k 45 mínúta hvíld. Hann má skipta þessari hvíld upp að vild sinni á tímabilinu, eina skilyrði er að hver hvíld sé a.m.k. 15 mínútur hver. Þetta ákvæði er eins hjá öllum launamönnum.
Allir launamenn, líka bílstjórar, eiga rétt á 11 klst. hvíld á hverjum sólarhring.
Allir launamenn, líka bílstjórar, eiga rétt á einum hvíldardegi í viku hið minnsta.
Það sem samgönguráðherra ætti að snúa sér að og stendur honum næst, er að setja mannskap í að koma upp hvíldarstæðum við alla þjóðvegi landsins. Þessu getur hann lokið í sumar hafa hann vilja til. En hann kemst aldrei út fyrir sitt kjördæmi í nokkrum sköpuðum hlut.
Hvað varðar umferðartafir vörbílstjóra sem fara í taugarnar á samgönguráðherra og nokkrum öðrum frjálshyggjumönnum, sem láta koma fram á bloggum sínum að þeir þurfi að taka inn íbúfen til þess að þola vörubílstjóra og líklega mótmæli almennt.
Samgönguráðherra ætti að líta sér nær. Samgönguráðherrar undanfarinna ára hafa staðið fyrir reglulegum umferðartöfum með drætti á lagfæringum á umferðamannvirkjum eins og t.d. Sundabraut.
Vegna þessa þá þurfa landsmenn að sitja í röðum sem ná frá Mosfellsbæ langleiðina til Borgarnes á hverjum einasta sunnudagseftirmiðdegi frá maílokum til byrjun september. Ef það er ekki aðför að öryggi landsmanna, sjúkraflutningum og slökkviliðsflutningum, þá veit ég ekki hvað það er.
1 ummæli:
Guðmundur hvenær kemur að því að Rafiðnaðarsambandið stígur fram og styður kröfur fólksins í landinu um lækkun ríkissins á álögur á eldsneyti. Þessr hækkanir hafa nú þegar étið upp mína launahækkun sem rafvirki. Þú hefur nú hingað til ekki verið hræddur við yfirlýsingar.
Skrifa ummæli