Stjórnvöldum hefur ítrekað verið bent á það blasi við mikil niðursveifla á árinu 2008 og það verði að undirbúa efnahagslífið undir það. Fram hefur komið hjá færustu efnahagsráðgjöfum að stjórnvöld hefðu átt að koma inn á markaðinn t.d. með ríkisskuldabréf til þess að minnka framboð á peningum þegar bankarnir mokuðu fjármagni inn í landið og rýmkuðu heimildir til skuldsetningar. Freistuðu heimilin til þess að skuldsetja sig upp í ris og byrja að græða með því að taka yfirdráttarlán til viðbótar. Svo ég vitni til mótsagnarkenndra auglýsinga bankanna.
Allan þennan tíma gerðu stjórnvöld ekkert. Jú reyndar þau gleymdu sér í sjálfumgleði og hrósuðu sér fyrir vaxandi kaupmátt og gott efnahagslíf. Flestir vissu að það var byggt á of hátt skráðri krónu og heimsmeti í skuldsetningu. Nú blasa við afleiðingarnar í of djúpri dýfu og að venju byrðunum velt yfir á almenning.
Ríkisstjórnin heldur blaðamannafundi með yfirlýsingu um að hún sjá ekki ástæðu til þess að gera nokkuð, en það megi athuga það í haust. Þessi hægagangur leiðir augljóslega til þess að allar hækkanir renna út í verðlagið, og margar forsendulaust.
IKEA forstjóranum var ofboðið hvernig félagar hans í viðskiptalífinu höguðu sér. Engir voru jafnábyrgðarlausir og Hagastjórinn og framkv.stj. Félags ísl. stórkaupmanna, sem hvöttu kaupmenn og fyrirtæki til þess að hækka allt um að minnstkosti 20 – 30%.
Það ætti að senda forstjóra IKEA tvær til þrjár Fálkaorður, hann hefur gert meira fyrir íslensk heimili en ríkisstjórnin.
Hvað með bankana? Lífeyrissjóðir geyma sparifé landsmanna og eiga vegna ráðdeildar sinnar 500 milljarða í erlendum hlutabréfum. Nú vilja bankarnir fá þessi bréf lánuð til þess að geta fengið ennþá meiri erlend lán. Og ríkisstjórnin rennir þessa dagana í gegn nýjum lögum til þess að gera það mögulegt.
Hafa ráðherrar velt því fyrir sér að ef þetta verður gert þá verða bankarnir að greiða a.m.k. 20 milljarða í vexti á ári. Til þess að tryggja stöðu lífeyrissjóðina verða væntanlega gefin út ríkistryggð skuldabréf í íslenskum krónum sem lífeyrissjóðirnir fengju sem pant.
Ráðherrar og alþingismenn vita að þeir eru taka enga áhættu, vegna þess að greiðslur úr þeirra lífeyris- og eftirlaunsjóðum miðast við laun ráðherra og þingmanna á hverjum tíma og skiptir þar engu hvort sjóðir þeirra eigi fyrir skuldbindingum. Þeir settu lög um að það sem upp á vantar skuldbindingar í þeirra lífeyris- og eftirlaunasjóð er tekið milliliðalaust úr ríkissjóð.
En hjá okkur hinum með breiðu bökin miðast lífeyrisgreiðslur okkar við hvaða fjármuni lífeyrissjóður okkar eiga og þeir fá engar uppbætur úr ríkissjóði. Ráðherrar og þingmenn settu nefnilega lög um að örorkubætur og lífeyrisgreiðslur í lífeyrissjóðum fólksins með breiða bakið eru einfaldlega lækkaðar ef þeir eiga ekki fyrir skuldbindingum.
Þetta gæti leitt til þeirrar stöðu að fólkið með breiðu bökin fái afhent verðlaus skuldabréf í ellinni til framfærslu, á meðan þáverandi fjármálaráðherra skrifar ávísanir úr ríkissjóð fyrir lífeyris- og eftirlaunum fyrrverandi ráðherra og þingmanna. Þeirra einstaklinga sem áttu hvað stærstan þátt í að skapa þá stöðu sem við erum í, og baktryggðu sig með framangreindum hætti.
Miklir menn erum við og reisum sjálfum okkur minnisvarða. Mér verður það ítrekað umhugsunarefni þegar ég geng yfir torg víðsvegar um veröldina, þar sem eru stór og mikil minnismerki um áfanga þar sem almenningur svínbeygði stjórnvöld. En á Íslandi eru engin slík torg og engir slíkir minnisvarðar. Bara einhverjar styttur, innan um tóftalaus og grafíttiskreytt hús, af sjálfhverfum stjórnmálamönnum og kóngum, sem kalla mótmæli skrílsæti og ekki svaraverð og svona pistla offramboð af óþægilegum skoðunum.
1 ummæli:
Mæl þú manna heilastur!
Og fylgstu með formanni Samfylkingarinnar í eftirlaunamálinu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segist ætla að ganga lengra en útpælt frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur og félaga gerir ráð fyrir, en í greinargerð þess segir:
"Áhöld hafa verið um hvort eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar verndi þau réttindi sem fólk hefur áunnið sér eða fengið samkvæmt hinum umdeildu lögum. Til að forðast að málið lendi í sjálfheldu málalenginga á grundvelli formsatriða, svo sem tengsla eignarréttarákvæða við löggjöfina frá 2003, er gert ráð fyrir að áunnin réttindi samkvæmt hinum umdeildu lögum skuli í engu skert."
Er undirhyggja formanns Samfylkingarinnar sú að koma í veg fyrir að nokkuð verði gert í alvöru? Að eyðileggja málið, einmitt með því að ganga gegn þessari leikaðferð Valgerðar Bjarnadóttur og félaga?
Ingibjörg sýnist gera meiri kröfur - en gæti um leið hindrað að málið komist gegnum þingið.
http://www.visir.is/article/20080330/FRETTIR01/80330046&sp=1
Hvort ætlun formanns Samfylkingarinnar nær fram að ganga eða ekki, mun skera úr um það hvort Samfylkingin sé "bara framsóknarhækja" Sjálfstæðisflokksins eða jafnrétthá í stjórnarsamstarfinu.
Skrifa ummæli