miðvikudagur, 2. apríl 2008

Hallarekstur ríkistofnana

Í starfi verkalýðsforingja hittir maður margt fólk og þar á meðal marga stjórnendur og eigendur fyrirtækja. Stórt hlutfall félagsmanna Rafiðnaðarsambandsins starfa hjá opinberum fyrirtækjum eða fyrirtækjum sem eru í eigu hins opinbera.

Rafiðnaðarmenn eru að störfum á öllum sviðum fyrirtækja og stofnana, þannig að maður kemst ekki hjá því þegar spjallað er við félagsmenn að öðlast þokkalega þekkingu í rekstri viðkomandi stofnunar.

Ég skildi mjög vel hvert fráfarandi forstjóri Landspítalans var að fara þegar hann leiðrétti ítrekað spyrjanda Kastljóssins, þegar hún tók sér í munn algengt orðfæri stjórnmálamanna þegar þeir halda því fram að einhver stofnun sé rekinn með halla.

Það er þekkt að stofnunum er oft áætlað of litlar tekjur og það er fyrirfram vitað að rekstur viðkomandi stofnunar muni ekki ganga upp. Þetta ættu stjórnmálamenn svo sem að skilja því mörg af þeim verkefnum sem standa þeim nærri koma út víðsfjarri því sem þeir sjálfir áætluðu.

Oft virðist áætlanagerð þingmanna mikið frekar einkennast af óskhyggju en raunveruleika. Óvönduð og óraunsæ plögg.

Það er einkennilegt að horfa á stjórnmálamenn hakka í sig vandaða stjórnendur eins og fráfarandi forstjóra Landspítlans, en á hinu horni borðs þeirra eru gögn um rekstur Alþingis, viðhald og uppbyggingu húsa þingsins víðsfjarri öllum áætlunum.

Þingmenn ættu að byrja á að gera vandaðri fjárhagsáætlanir áður en þeir hefja upp gagnrýnisraddir sýnar. Einnig er það nú þannig að það eru ekki margir þingmenn sem hafa verið virkir þátttakendur í rekstri eða almennu atvinnulífi.

Engin ummæli: