þriðjudagur, 1. apríl 2008

1. apríl allt kjörtímabilið

Það er erfitt verkefni að vinna að gerð kjarasamninga í því umhverfi sem nú ríkir. Yfir standa viðræður samninganefnda þúsunda opinberra starfsmanna. Krónan er í frjálsu falli og verðlag á leið upp. Við hvað á að miða?

Ætlar ríkisstjórnin að gera eitthvað? Ha, nei eða kannski já – eða hvað? Forsætisráðherra hélt blaðamannafund og lýsti þar yfir að ekki væri ástæða til þess að gera nokkuð og pantaði sér einkaþotu til þess að skjótast niður til Evrópu. Aðstoðarmaður ráðherra segir það kosti ekkert. En Vísir reiknaði út 6 millj. kr. eða nákvæmlega jafnmikið og eftirlaunafrumvarpið átti að kosta.

Allir landsmenn hafa vitað undanfarin 4 ár að þessi niðursveifla yrði að loknum framkvæmdum austur á fjörðum. En ríkisstjórnin hefur ekki gert neinar ráðstafanir og með aðgerðaleysi sínu gert íslensku krónuna að fjárfestingartækifæri fjárhættuspilara.

Og svo segir forsætisráðherra fréttum í kvöld nokkrum dögum eftir blaðamannafundinn, að það gæti kannski þurft að auka gjaldeyrisforðann. Jú kannski hefði verið betra að gera það í fyrra.

Og stjórnarflokkarnir setja af stað nefnd um Evrópusambandið og Evruna, en formaður hennar gefur út þá yfirlýsingu á fyrsta fundi að það sé búið að tryggja að hún eigi ekki að komast að neinni niðurstöðu. Bara að funda og reyna að slá á offramboð af skoðunum um hvernig leysa megi efnahagsvandann og fá ábyrga efnahagsstjórn.

Og svo ákveða ráðherrar að nú eigi að byggja flugstöð við flugvöll sem borgarstjórnarmen ætla kannski að flytja. Flugvöll sem hálf milljón manna fara um á hverju ári, en þar hefur aldrei verið flugstöð.

En borgarstjórnarmenn eru byrjaðir að byggja einn stærsta skóla landsins nokkra metra frá aðalflugbautinni og ráðherrar nýjan spítala hinum megin. Og borgarstjórnarmenn nýbúnir að kaupa dýra samkeppni þar sem ákveðið er að byggja á íbúðarhús um allt flugvallarsvæðið.

En borgarstjórnarmenn ákváðu fyrir 30 árum að það þyrfti að leggja Sundabraut til þess að leysa umferðarhnúta vegna vaxandi byggðar í miðbænum og borgarfulltrúar hafa rifist um þá framkvæmd í hléum milli umræðna um hvort flytja ætti flugvöllinn eða ekki. Og ekkert verið framkvæmt.

En í stað þess hafa ráðherrar notað peningana til þess að bora jarðgöng frá Ólafsfirði til Siglufjarðar og tilbaka og síðan jarðgöng yfir í Vaglaskóg. Um þessar vegaframkvæmdir munu fara jafnmargir bílar á ári og færu um Sundabrautina á hverjum 5 mín.

Og borgarfulltrúar hafa verið svo uppteknir við að rífast um þessa hluti að þeir höfðu ekki tíma til þess að ákveða hvað þeir ætluðu að gera við miðbæinn. Með því hafa þeir tryggt að hann verði eftirsótt myndefni tugþúsunda ferðamanna í sumar og stjórnmálamenn hafa með því gulltryggt það álit sem Ísland hefur aflað sér sem sóðalegt slöm og lakasti fjárfestingarkostur í Evrópu.

Og forsvarsmenn launamanna reyna að átta sig á því hvort semja eigi um 3.5% launahækkun eða hvort það eigi að vera 35%. Það er er jú launamanna að bera ábyrgð á stöðugleikanum.

Stjórnmálamenn eru svo uppteknir við önnur verkefni. Það þarf að koma í veg fyrir að pólitískir andstæðingar nái fram sínum málum, skiptir engu hvort þar far þjóðþrifamál og allt er stopp og engar framkvæmdir að viti. En ákvarðanir um ráðningu aðstoðarmanna og skrifstofubyggingar yfir þá renna í gegn á einum eftirmiðdegi. Kostar ekki nema 30 millj. kr. var sagt við upphaf þessarar umræðu en fyrir lá að það væri nær 300 millj. kr.

Ætli það verði meiri stöðugleiki í Grímsey þegar ferjan fer í gang. Ferjan á eitt sameiginlegt með eftirlaunalögunum. Hún fór nákvæmlega jafnmikið fram úr áætlun ráðherra.

Hvenær verða næstu kosningar? Þá vinna sömu einstaklingarnir með aðstoð íþróttaklúbba og sérstaks aðgengis að félagsskrám flokkanna öll prófkjörin. Svo ekki einkennilegt að það eru engir aðrir sem vilja taka þátt í þessum leik. En samt kjósum við þá.

Engin ummæli: