fimmtudagur, 24. apríl 2008

Innistæðulaus málflutningur

Manni hefur oft fundist sjálfumgleði í málflutning ráðherra og stjórnmálamanna glannaleg og óábyrg, þegar því er haldið fram að allt sé í lukkunar velstandi og ríkissjóð vel stjórnað og skilað afgangi.

Allir vita að svo er ekki. Verðbólga á Íslandi gæti verið svipuð og í nágrannalöndum ef efnahagslífi hefði verið rétt stjórnað, sama gildir um vexti.

Það blasir við að það vantar verulega upp á að opinber rekstur sé eins og við viljum. Því hefur farið fjarri að uppbygging í samgöngum sé með ásættanlegum hætti.

Sama gildir um uppbyggingu og rekstur hjúkrunarheimila. Þar er veruleg mannekla er í umönnun og hjúkrun vegna lágra launa, sama gildir um mörg önnur störf á vegum hins opinbera. Það vantar umtalsverðan fjölda af sérbýlum og hjúkrunarrýmum fyrir aldraða og öryrkja.

Stjórnendur opinberra stofnana fá yfir sig óraunhæfar rekstraráætlanir byggðar á lágmarkslaunum en geta vitanlega ekki fengið starfsfólk nema að greiða laun í samræmi við það sem gengur og gerist á vinnumarkaði.

Hún er ótrúlega ósvífin hin algenga afsökun stjórnmálamanna að þau vildu svo gjarnan greiða hærri laun, en verkalýðsfélögin banni það með kjarasamningum sínum. Öll vitum við að er samið um lágmörk í kjarasamningum ekki hámörk.

Einnig er hún ákaflega ómerkileg afsökunin að það sé við verkalýðsfélög að sakast að bætur í almannatryggingarkerfinu fylgi ekki verðlagsþróun. Öll vitum við að það eru stjórnmálamenn sem ákvarða þessar bætur ekki verkalýðsfélögin og það eru stjórnmálamenn sem hafa látið skerðingarmörk sitja eftir og lækkað með því bætur umtalsvert.

Öll munum við eftir því hversu andsnúnir stjórnmálamenn þá sérstaklega hinir hægri sinnuðu voru þegar verkalýðsfélögin voru að berjast í því á árunum fram að 1970 að koma á fót lífeyrissjóðunum. Þeir mótmæltu á sínum tíma hinum 10% skatt sem ætti að renna til verkalýðsfélaganna.

Nú hrósa þeir sér af lífeyriskerfinu hvar sem þeir koma. Þetta er svipað eins og að það virðist vera, sé litið til ummæla sem erlendir blaðamenn hafa eftir íslenskum stjórnmálamönnum, að það hafi verið núverandi forseti Íslands ásamt þeim sem hafi fundið upp hvernig nýta megi heita vatnið fyrir um 30 árum.

Í lokin allir sem hafa staðið að samningagerð vita að viljayfirlýsing undirrituð af íslenskum stjórnmálamanni um að hann vilji endilega ásamt heimamönnum nýta heitt vatn í Afríku eða annarsstaðar í veröldinni er lítils virði. Viljayfirlýsing er víðsfjarri því að vera samningur og gerir REI ekki að einhverju milljarða dæmi.

Engin ummæli: