miðvikudagur, 23. apríl 2008

Ráðherrar rústa viðræðum kjarasamninga

Á undanförnum vikum höfum við ítrekað heyrt ummæli menntamálaráðherra í fjölmiðlum um að laun kennara verði að hækka verulega. Samskonar yfirlýsingar höfum við heyrt hjá ráðherrum og borgarstjórnarmönnum um umönnunarstörf.

Hver er staðan í kjarasamningum opinberra starfsmanna? Allt stopp. Hvers vegna?

Þegar ráðherra fer í fjölmiðla með svona ummæli vekur hann væntingar. Hvað eiga kennarar og umönnunarstéttir að gera annað en að reikna með að ráðherrar standi við þessar yfirlýsingar. Þeir bíða í samningaherbergjum eftir að fá umtalsverðar launahækkanir. Samningamenn fjármálaráðuneytis og sveitarstjórna hafa ekki fengið fjárveitingar frá framangreindum ráðherrum til þess að hækka launaliði um nokkra tugi prósenta.

Enda horfum við upp á að sömu ráðherrar standa fyrir aftökum á stjórnendum opinberra fyrirtækja fari þeir fram úr fjárhagsáætlunum byggðum á óskhyggju stjórnarþingamanna.

Datt einhverjum í hug að aðrar stéttir opinberra starfsmanna myndu sætta sig við að ákveðnum hóp yrði skutlað upp á meðan aðrir ættu að sitja kyrrir?

Hvenær fáum við þingmenn og ráðherra sem hafa til að bera þá yfirsýn að geta séð samhengi málsgreina heillar A4 síðu?

Engin ummæli: