fimmtudagur, 14. ágúst 2008

Klækjapólitík

Í umræðu undanfarinna daga virðist það gleymast að það voru sjálfstæðismenn sem skrifuðu upp á kosningaloforð Ólafs og kölluðu það málefnaskrá nýrrar borgarstjórnar og settu hann í borgarstjórnarstólinn. Þetta átti að vera svar við þeirra eigin gagrýni á að Tjarnarkvartettinn hefði enga málefnaskrá sem þeir höfðu klifað á í tíma og ótíma.

Því þarf engan að undra að Ólafur hafi litið svo á að sjálfstæðismenn hefðu samþykkt þau atriði sem þar standa og hann er einfaldlega að framfylgja henni. Sjálfstæðinsmenn samþykktu að kaupa 3 ónýt hús fyrir nokkur hundruð milljóna til þess að búa til einhvern nítjándu alda stíl á Laugaveg, nokkuð sem mjög fáir skilja hvað er. Enda er Magnús núna að reyna að bakka út úr fyrri yfirlýsingum.

Hanna Birna hefur haldið fram verndum þessa stíls í fjölmiðlaviðtölum. Sjálfstæðismenn hafa komið fram og varið gerðir Ólafs. Hvort sem sjálfstæðismönnum líkar það eða ekki, þá bera þeir einir ábyrgð á þeirri stöðu sem þeir hafa komið sér í og alla ábyrgð á málefnaskrá Ólafs.

Hver var afstaða Óskars gagnvart þessu og hver hefur verið afstaða hans gagnvart kosningalista Ólafs? Það kom fram á sínum tíma. Sú klækjapólitík sem sjálfstæðismenn vinna eftir ber það með sér að þeim er slétt sama um málefnaskrá, stefnur og að vinna að málefnum fyrir borgarbúa, bara að halda völdum. Ætlar Óskar að skella sér í sama farið?. Hann hefur reyndar verið gagnrýndur harkalega fyrir að skara eld að eigin köku. Hann hefur möguleika á að snúa sér út úr því, en einnig möguleika að sökkva endanlega með núverandi borgarstjórnarmönnum Sjálfstæðisflokksins.

Tæp 80% borgarbúa hafa lýst vanþóknun sinni á þessum vinnubrögðum. Vilhjálmur og Kjartan hafa lokið sínum pólitíska ferli með röð afleikja. Gísli Marteinn stekkur af hinni sökkvandi (sokknu) skútu á nákvæmlega réttum tíma og bjargar sínu pólitíska lífi. Líklegt verður að telja að hinir muni eiga mjög erfitt í ná kjöri í komandi kosningum.

Mér finnst það í raun staðfesta veruleikafyrringu sjálfstæðismanna að þeim detti í hug að menn sitji við símann og bíði eftir símtölum frá þeim, eins og Staksteinar halda fram í dag. Ég hef ásamt nokkrum öðrum bloggurum bent á að það leiki töluverður vafi á að prófkjör og klækir stjórnmálamanna séu rétt aðferði til þess að velja fólk til þess að stjórna sveitarfélögu. Þar þarf fólk með praktískan skilning ekki kunnáttu í pólitískum klækjum og bræðravígum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sammála hverju orði.

hvernig er það, ert þú ekkert á leíðinni í pólitík?