Alveg er hann dæmigerður málflutningurinn vegna greina Svans um Hannes Hólmstein. Þar rekur Svanur um hvernig Hannes var ráðinn til Háskólans og sýnir fram á að það hafi verið pólitískar skoðanir Hannesar réðu ráðningu hans ekki hæfileikar. Einnig kemur Svanur að þeim staðreyndum sem hafa verið staðfestar fyrir dómi að Hannes hafi ekki farið að settum akademískum reglum hvað varðar ritun texta og eignað sér texta sem hann átti ekki.
Samkvæmt akademískum reglum átti Hannes að segja af sér eða Háskólaráð að víkja honum. En það hafi ekki verið gert og er ekki í lagi eins og Svanur bendir réttilega á. Ástæða greina Svans er mjög líklega ótti hans, eins og svo margra annarra, að lagabreytingar sem Flokkurinn hefur rutt í gegn sé undanfari fleiri sambærilegra “ráðninga“. Þar höfum við nokkur dæmi eins og ráðningu héraðsdómara og tveggja hæstaréttardómara. Flokkurinn sé að tryggja völd sín á þjóðfélaginu.
Hannes hefur einnig, eins og margoft hefur komið fram, verið harkalega gagnrýndur fyrir að hafa farið rangt með í sjónvarpsþáttum sem hann gerði. Þar hafi hann sniðgengið samtök launamanna og eins kvennabaráttu, en eigni Flokknum í stað þess allt sem þessi samtök náðu fram á síðustu öld stundum með langvinnum verkföllum í andstöðu Flokksins. Það hefur verið gagnrýnt að Flokkurinn hefði séð til þess að þessi sjónvarpsséría var keypt fyrir miklar fjárhæðir og sýnd á besta tíma í ríkissjónvarpinu. Til þess að bæta enn frekar fyrir skömmina var serían líka keypt og send í alla barnaskóla landsins!!
Hannes hefur á undanförnum árum ausið óhróðri í blaðagreinum yfir aðra háskólaprófessora og m.a. uppnefnt þá sem einhver Dyrhólagympi eða hvað það nú var, því þeir voguðu sér að benda á að sú efnahagsstefna sem Flokkurinn stæði fyrir hefði aukið misskiptingu og valdið aukinni skattbyrði á þeim sem minna mega sín og eignatilfærslum til þeirra sem meira hefðu milli handanna. Í því sambandi hefur verið gagnrýnt að Flokkurinn hafi skipað Hannes í stjórn Seðlabankans. Þessi gagnrýni hefur fengið staðfestingu í vetur og sé þáttur í þeim efnahagsmistökum sem valda þeim óförum sem við erum að ganga í gegnum.
En sumum finnst nægilegt að svara þessum ábendingum með því einu að Svanur sé einhver Kommi, hrútleiðinlegur og fleira í þeim dúr. Hvað kemur það málinu við? Mér hefur reyndar skilist að það Svanur sé ekki Kommi. Hann sé á svipuðum slóðum og ég, það er að segja hafa verið stuðningsmaður Flokksins. En það þýðir reyndar ekki að það sé hægt að styðja framangreint.
Eins einkennilegt og það nú er þá kemur fram í vörnum viðkomandi á Hannesi og athöfnum hans, að verið sé að ráðast Hannesi af þeim ástæðum einum hann sé frjálshyggjumaður og engin önnur rök hafi komið fram. En í næstu setningu afgreiða þeir hinir sömu málflutning Svans og skoðanbræðra hans út af borðinu með þeim „rökum“ einum að hann sé bara Kommi eða einhver úr vinstra liðinu og telja sig þar með hafa sett fram nægileg „gagnrök“.
Af framantöldu sést glögglega að málið snýst ekki um hvort Hannes sé frjálshyggjumaður eða ekki, það eru athafnir hans og tiltekinna ráðamanna Flokksins sem verið er að gagnrýna. Það gera jafnt menn sem eru Kommar, í einhverju vinstra liði, Sjálfstæðisflokki eða fyrrverandi stuðningsmenn þess flokks og standa utanflokka.
Greinar Svans eru skyldulesning og ætti að lesa þær upp á sama sýningartíma í Sjónvarpinu og sería Hannesar var sýnd á og eins ætti menntamálaráðherra að kaupa þær og senda í alla barnaskóla landsins.
10 ummæli:
Skeleggur að vanda. Sammála. Takk fyrir.
Á þessum slóðum má sjá umræddar greinar Svans.
http://visir.is/article/20080619/SKODANIR03/463606013/-1/SKODANIR
http://visir.is/article/20080620/SKODANIR03/340085769/-1/SKODANIR
Lýðræði á Íslandi stafar mest hætta af Flokknum.
Rómverji
Það er eðlilegt að kommúnista líki það sem annar kommúnisti skrifar. Og auðvitað eru þeir sama sinnis um þann mann sem er eins langt frá þeim í skoðunum og hægt er. En allir eru þið, Svanur, Hannes og þú það sem margir kalla harðlínumenn. Ekki menn sanngjarna viðhorfa heldur bardagamenn sem vilja bara ykkar skoðanir og vei þeim sem hafa aðra skoðun og styðja aðra hagsmuni. Hannes er ekki vandaður fræðimaður. Bækurnar hans um Halldór voru ekki góðar. Ég keypti þær samt. Ekki af því að mér langaði til þess að eiga þær heldur vegna þess að hann má tjá sig eins og aðrir og með engu móti var hægt að fella sig við það að vinstra fólk stoppaði hann. Þar er það sama prinsip eins og að þó mér finnist flest sem þú skrifar og seigir ekki rétt og er næstum aldrei á sömu skoðun og þú þá mundi ég kaup bók sem þú vildir koma út ef einhver hægri klíka vildi stoppa það. Það að fólk hafi frelsi til að tjá sig og leyfi til að vera með einkennilegar skoðanir er nú eitt það mikilvægasta við frjálst samfélag. Háskólinn væri verri ef einungis kommar eins og Svanur væru þar á launaskrá með jafn mannvonskulegar kenningar og hann hampar. En hann á að hafa rétt til þess að hafa þessar hugmyndir og fjalla um þær.
Það að rektor HÍ segist ætla að gera skólann að einum virtasta háskóla Evrópu en þorir ekki að vísa prófessori við skólann frá þrátt fyrir hæstaréttardóm sem komst að þeirri niðurstöðu að prófessorinn hefði ítrekað verið uppvís að ritstuldi segir okkur svolítið um ítök Flokksins í íslensku samfélagi. Mitt álit er að rektor sé ekki hæf til að sinna sínu starfi, hvað þá að auka veg og virðingu skólans með þetta á bakinu. Einnig er óskiljanlegt að prófessorinn hafi það í sér að sitja enn á stóli sínum þrátt fyrir dóm Hæstaréttar, það sýnist mér vera siðblinda og hroki gagnvart nemendum skólans.
Ég var nemandi Hannesar Hólmsteins í námskeiði í stjórnmálafræði við HÍ fyrir all mörgum árum. Hef ég hvorki fyrr né síðar lent á jafn ófaglegum og óakademískum kennara,titluðum prófessor, og honum. Hann lét okkur nemendurna m.a safna gögnum fyrir bók sem hann var þá að vinna við, fyrir viðvikið fengum við tiltekinn hluta af vægi námskeiðsins metið. Ég, ásamt öðrum nemendum, gerðum þetta þegjandi og hljóðalaust enda átti prófessorinn að heita "virtur" aðili innan háskólans. Ég sá eftir því þá og sé enn eftir að hafa ekki kvartað til deildarinnar enda var mér stórlega misboðið. Hannes hefur of lengi komist upp með of mikið. Er ekki kominn tími til að HÍ taki til í sínum ranni og staðfesti með því að hann eigi skilið að verða einn af 100 bestu háskólum í heimi.
Að rægja menn eins og Svanur gerir, er með ólíkindum. Hvað gengur honum til? Ég tel að Svanur telji að einungis vinstri sinnaðir álitsgjafar hafa einkarétt á griðarstað í Háskólu Íslands. Svanur er langt því frá góður fræðimaður sjálfur og lítið af viti hefur komið frá honum.
Það getur tæplega kallast rógur að benda á staðreyndir. Þetta eru ekki skoðanir eða almannarómur, heldur staðreyndir: Umsagnir matsnefndar og ráðherra um Hannes síðan hann var ráðinn til HÍ annarsvegar og dóm Hæstaréttar hinsvegar. Allt saman opinber skjöl. Það getur aldrei talist rógur.
Það að segja Svan hampa mannvonskulegum kenningum, að hann sé lélegur fræðimaður og að ekkert af viti hafi komið frá honum er rógur, einfaldlega vegna þess að þetta eru alltsaman órökstuddar dylgjur settar fram til þess eins að sverta hann.
Afskaplega er nú fyndið að sjá menn rjúka til og níða niður þessi skrif einmitt með þeim rökum að þarna sé bara vinstrimaður að verja vinstrimann.
Jafnframt er fyndið að sjá menn halda því fram að Svanur Kristjánsson sé lélegur og hlutdrægur fræðimaður, án þess að færa fyrir því nein rök yfir höfuð.
Einnig er fyndið að sjá menn halda því fram að bráðnauðsynlegt sé að hafa mann með skoðanir Hannesar í háskólanum, þegar vandinn snýst ekki um skoðanir hans, heldur hæfni hans sem fræðimanns og kennara. Af skrifum fyrrum nemenda sem hafa birst í kjölfar þessarar umræðu sýnist mér einna helst sem að fleira en hæstaréttardómur setji alvarlegar spurningar við téða hæfni.
En nei, það er auðvitað ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er vitaskuld að hér eru bara vondir kommar að ráðast á grey Hannes að ósekju ...
Ég spyr nú samt bara í lokin - hvað í fjáranum er það sem myndi banna Hannesi og hans líkum að tjá sig um sínar skoðanir, þó maðurinn væri ekki háskólaprófessor? Af hverju er bráðnauðsynlegt að hafa lélegan fræðimann sem prófessor, eingöngu vegna þess að hann er duglegur við að boða ákveðnar skoðanir?
Þetta mál varpar enn og aftur mjög merkilegu ljósi á ákveðna mjög ógeðfellda klíku í íslensku samfélagi - klíku sem vílar ekki fyrir sér að níða menn sem ekki eru henni þóknanlegir niður í svaðið, en kveinkar sér um leið og málefnaleg gagnrýni á einhvern í þeirra röðum fer fram.
Það er aðeins til eitt orð yfir þetta: Aumingjaskapur.
Guðmundur, hvernig skildi standa á því að ég vissi nákvæmlega fyrirfram hvernig grein þín myndi hljóma um leið og ég sá fyrirsögnina?
Kv.
S.Jónsson.
Ég vissi fyrirfram hvernig dómsmálaráðherra og hans kónar myndu svara þessum greinum.
Hvað segir það?
Skrifa ummæli