Undanfarna daga hefur verið umfangsmikil umræða um nafnleysi og athugasemdadálka. Ég hef fjallað um þetta nokkrum sinnum áður. Þegar birtust dag eftir dag athugasemdir á því bloggi sem ég held úti, sem einkenndust að persónulegum og rakalausum dylgjum með upphrópunum. Oftast um eitthvað allt annað en viðkomandi pistill fjallaði um, þá lokaði ég á beina birtingu athugasemda. Stillti kerfið þannig að þær birtast ekki fyrr en samþykki liggur fyrir.
Það leiddi til þess að innsendum aths. snarfækkaði og þeir sem sendu inn aths. héldu sig í langflestum tilfellum við málefnið og það eru mjög fáar sem ekki hafa fengið birtingu. Vitanlega er ég ekki alltaf sammála öllum aths. sem koma, en það er ekki málið.
Stærsti gallinn við aths., fyrir utan persónulegt skítkast og útúrsnúninga, eru rakalausar upphrópanir endurteknar í síbylju. Jafnvel þó búið sé að sýna fram að þær standist ekki. Þær eru auk þess hrútleiðinlegar og ekkert innlegg í umræðuna. Bera þess merki að tilgangurinn sé sá einn að reyna að eyðileggja umræðu um viðkomandi mál.
En upp úr stendur sé litið til fjölda lesenda, allavega á þessari síðu í samanburði við fjölda aths. og svo maður tali nú ekki um sé einungis litið til aths. sem eru út í hött, þá eru þær svo sára-, sárafáar miðað fjölda heimsókna. Eða með öðrum orðum pistillinn nær til mikils fjölda, sem vegur hann og metur án þess að velta mikið fyrir sér aths. dálkunum. Stór hluti þeirra sem koma að máli við mig og ræða innihald pistla minna, segjast aldrei lesa aths. dálkana.
Mér er fullkomlega óskiljanleg harkaleg viðbrögð margra þegar rætt er um hvort setja eigi einhverjar hömlur á nafnlausar aths. Þá er fullyrt að það sé aðför að málfrelsi og fleira í þeim dúr. Ætlast menn sem senda inn nafnlausar aths. virkilega að tekið sé mark á þeim, ef þær byggjast á rakalausum dylgjum og skítkasti? Sumir halda því fram að það sé hægt að rekja allt til IP tölu þess sem skirfar. Það er ekki rétt, þeir sem eru með þær upplýsingar geta ekki látið þær af höndum vegna persónuverndar.
Nokkrar af nafnlausum aths. eru snjallar og eiga fullan rétt á sér, en af hverju vilja menn ekki standa uppréttir bak við þær? Er sú skoðun sem viðkomandi vill koma á framfæri ekki þess virði að viðkomandi vilji standa á bak við hana? Sá nafnlausi setur fyrirfram skoðun sína í þriðju deild.
Í þessu sambandi hlýtur maður að velta fyrir sér eigin stöðu sem umsjónarmaður t.d. þessarar síðu. Sumir áhrifamenn í þessari umræðu halda því fram að það sé umsjónarmaður viðkomandi síðu, sem beri ábyrgð aths.dálkum. Sumt af því sem sett er fram í ath.s.dálkum er eitthvað sem ég myndi aldrei sætta mig að tengdist mér á nokkurn hátt.
Eðlilegt er að gera þá kröfu til þeir sem senda inn aths. að það sé gert með sama orðavali og málfari og í orðræðu í almennum samskiptum þar sem menn standa augliti til auglitis og skiptast á skoðunum.
Það sama ætti við hér um hertar reglur um tjáskipti á netinu og kom fram í umræðum um fjölmiðlalögin, menn myndu eftir sem áður koma skoðunum sínum á framfæri. Það væri tilgangslaust að reyna að banna eitthvað sem Davíð og Halldóri þættu óþægilegt. Menn myndi eftir sem áður koma því á framfæri. Þannig að hertar reglur geta orðið að andhverfu sinni eins og þau drög að fjölmiðlalögum sem voru lögð fram á sínum tíma.
11 ummæli:
Nafnlausir pistlar eiga rætur sínar að rekja til prentmiðlanna, Staksteinar er líklega þekktastur þeirra. Netið veitir almennan aðgang að þessum möguleika. Það geta verið margar ástæður fyrir því að einstaklingur velur að koma sínum athugasemdum á framfæri nafnlaust, t.d. argumentum ad hominem viðbrögð þeirra sem vilja verja það sem gagnrýnt er. Þá fer umræðan að snúast um hver sagði hvað og hvers vegna viðkomandi er ekki marktækur. Þannig skal hin upprunalega umræða kaffærð. Enn verri örlög geta beðið þeirra sem koma upplýsingum eða skoðunum á framfæri undir fullu nafni ef þær stangast á við hagsmuni vinnuveitanda, t.d. ef bankastarfsmenn með sómatilfinningu hefðu þorað að koma upplýsingum um krosseignatengsl og óeðlilega fyrirgreiðslu á framfæri án ótta við að vera afhjúpaðir og reknir. Það er mín skoðun að skoðanaskipti þar sem höfundur er hulinn lesendum séu nauðsynleg og aldrei mikilvægari en einmitt þegar fólk er tortryggið gagnvart yfirvöldum og uggandi um sinn hag. Á sama tíma þurfa vefstjórar að vega og meta með hvaða hætti þeir verja sig gagnvart því að ábyrgð á nafnlausum innleggjum falli á þá. Það er ekki best gert með því að banna nafnlausar athugasemdir, eða banna allar athugasemdir eins og þeir sem vilja tala til fólks en ekki við það gera.
Það væri nokkuð einfalt að leyfa athugasemdir undir nafni beint en láta þeim sem vilja koma fram undir nafnleynd að bíða eftir því hvort þær hljóta náð fyrir augum síðuhöfundar. Þannig lokar maður ekki á góð innlegg frá þeim sem af einhverjum ástæðum velja að koma fram án nafns, en hvetur samt til þess að fólk komi fram undir nafni.
Tek undir þau sjónarmið sem fram eru kominn. Það getur verið nauðsynlegt að einstaklingur geti sent inn nafnlaus komment
Nafnlausar skoðanir meta sig alfarið sjálfar.
100 aths. eins og eru t.d. hjá Agli þar sem eftir 10 - 15 er farið að staglast á sama hlutnum fram og tilbaka, þjóna engum tilgangi og verða til þess að maður verður sífellt latari við að lesa aths. dálkana
Úlfur
SIJ, nafnlausu pistlar prentmiðlanna eru annars eðlis en nafnlausar athugasemdir á bloggi. Í prentmiðlunum er það á hreinu að slíkir pistlar eru á vegum og á ábyrgð ritstjórnar viðkomandi miðils, en nöfn ritstjóranna vita vitaskuld allir. Í blogginu er þessu allt öðru vísi farið og reyndar veruleg réttaróvissa um það hver beri ábyrgð á innihaldi nafnlausra athugasemda, sem eru í mörgum tilvikum órekjanlegar til uppruna. Mér sýnist t.d. Eyjan vera að reyna að ýta þeirri ábyrgð yfir á einstaka bloggara (t.d. Egil Helgason), en ég er ekki viss um að þeir séu allir sammála því, eða að dómstólar myndu vera sama sinnis.
Enda enginn neyddur að tjá skoðanir sínar, ef það er hræðslan við nafnabirtingu. Umræðan nú er þörf og ansi málefnaleg. Skrif AK-72 hjá Láru Hönnu sýna það.
Ég er sammála því sem hér hefur komið fram. Það er ekki hægt að þurrka út aths. úr bloggheimum, en það verður þó að ritstýra því þannig að taka í persónulegar ávirðingar og rakalausar dylgjur
KÞG
Hugsanlegri betri lausn væri að fjarlægja öll sjálfkrafa innset nöfn í athugasemdadálkum. Það mun draga úr öllum argument ad hominem sem bætir engu við umræðuna og gerir öllum kleyft að viðra óvinsælar skoðanir.
Fínn pistill - Sorglegt þegar að fólk þorir ekki að gangast við sjálfu sér.
Árni Guðmundsson
Góð greining - og fínar og áhugaverðar athugasemdir
HG
Ég vinn á þannig vinnustað, að eigandi fyrirtækisins og allir yfirmenn þess eru harðir heilaþvegnir Sjálfstæðismenn. Orð FLokksins er orð Guðs. Þegar ég var ráðinn þar í vinnu höfðu þeir greinilega eftir einhverjum leiðum, flétt því upp að ég væri í FLokknum. Ég hafði nefnilega fyrir mörgum árum tekið þátt í prófkjöri til að koma ættingja að.
Ef þessir menn kæmust að því að ég sé ekki einn af sauðahjörðinni, væri það minn síðasti dagur í vinnunni.
Ég má ekki við því að missa starfið. Þess vegna skrifa ég nafnlausar athugasemdir.
Þræll númer 83
Já ég hef heyrt um svona vinnustaði, því miður.
Skrifa ummæli