föstudagur, 31. desember 2010

Ár glataðra tækifæra

Á þessum degi er venja að líta til baka og velta fyrir sér liðnu ári. Frá þeim sjónarhól sem ég stend á er ekki hægt að segja annað en að síðasta ár hafi verið ár glataðra tækifæra. Aðilar vinnumarkaðs, ríkisvalds og sveitarfélaga undirrituðu Stöðugleikasáttmálan í júní 2009. Þar átti að leggja grunn að hraðri endurreisn efnahags- og atvinnulífsins og koma í veg fyrir of mikinn samdrátt í hagkerfinu.

En vandræðagangur á stjórnarheimilinu hefur orðið til þess að ekki tókst að koma af stað verkefnum sem áttu að verða viðspyrnan upp á við. Þetta hefur leitt til þess atvinnuleysi hefur frekar vaxið en hitt ásamt fjölgun þeirra sem flytja af landi brott. Deilan um Icesave samninganna hefur verkað eins og lamandi hönd á bæði samskiptin á vettvangi stjórnmálanna og komið í veg fyrir að íslensk fyrirtæki, sveitarfélög og fjármálastofnanir fái greiðan aðgang að erlendum fjármálamörkuðum sem tafið hefur alla uppbyggingu.

Það sem í framtíðinni mun standa uppi sem eftirminnilegasti atburður ársins er skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis. Viðbrögð aðalleikenda voru fyrirsjáanleg, það sem er svo einkennandi fyrir íslensk stjórnmál. Á meðan stjórnmálamönnum er gert að segja af sér hafi þeir misnotað eignir samfélagsins, þá tíðkast það ekki hér á landi. Skýrsluhöfundar upplýstu okkur um að það sárasta við samantekt skýrslunnar hafi verið fullkomin afneitun allra sem þeir kölluðu til sín.

Það hefur verið mörgum umhugsunar og umtalsefni hverskonar kennsla hafi farið fram í Háskólum landsins. Þaðan komu allir aðalleikendur þeim leik sem leiddi samfélagið fram af hengifluginu með skelfilegum afleiðingum. Skýrslan hefur haft djúp áhrif á íslenskt samfélag. Hvert hefur menning okkar, siðfræði og sjálfsmynd leitt okkur?

Í skýrslunni blasir við mynd af því samfélagi sem við höfðum byggt okkur. Styrmir fyrrv. ritstjóri Moggans maður sem er búinn að vera á fremsta bekk við leiksvið hins íslenska samfélags, lýsti þessu svona, „ Ég er búinn að fylgjast með þessu í 50 ár. Þetta er ógeðslegt samfélag, engin prinsipp, engar hugsjónir. Það er ekki neitt, bara tækifærismennska og valdabarátta.“

Ég hef ritað allmarga pistla á þessu ári þar sem ég hef lýst hvaða áhrif krónan hefur á kjör launamanna. Ég verð oft sorgmæddur þegar ég les þá heiftarlegu haturspósta sem ég hef fengið í kjölfar hvers pistils. Það virðist ekki skipta suma neinu þó við blasi að endurteknar gengisfellingar þar verið er að flytja rekstrartap yfir á starfsmen og hefur leitt til mikils kaupmáttarhruns launamanna, ásamt stökkbreytingu skulda og vonlausrar stöðu um 30 þús. heimila.

Sé staða okkar launafólks borin saman við nágrannalöndin þá gerðist þetta ekki þar, þó sumir af fyrrverandi ráðherrum og stjórnarþingmönnum vilja afsaka sig með því að halda því fram að það hafi verið alþjóðleg efnahagskreppa sem gekk yfir Ísland. Það var annað og meira sem gerðist hér. Það ástand var skapað af íslendingum. Hið séríslenska ástand virðist ekki snerta suma, þeir vilja halda í óbreytt ástand og vilja viðhalda því samfélagi sem Rannsóknarskýrslan lýsir.

Umræðan hefur oft verið dregin inn á villigötur og það virðist vera auðveldara að gera það hér á landi en annarsstaðar, enda eru það hagsmunahópar sem stjórna fjölmiðlunum. Ítrekað er athyglinni beint frá því sem þarf að ræða. Þar má t.d. benda á hvernig tekist hefur að halda athyglinni á lífeyrissjóðunum, það hafi verið þeir og stjórnendur þeirra sem voru helstu bandittarnir í Hruninu.

Þetta hafa landsmenn gleypt athugasemdalaust og aðalleikurunum í Rannsóknarskýrslunni tókst að pumpa þessa umræðu áfram. Fengu til þess góða aðstoð frá mönnum eru verktakar, menn sem reyna allt til þess að greiða sem minnst til samfélagsins og í lífeyrissjóði. Þeir misstu gjörsamlega stjórn á sér þegar í ljós kom að sjóðsfélagar höfnuðu því alfarið að sparfé yrði tekið til þess greiða upp skuldir þeirra. Þar gengu reyndar yfirlýsingar nokkurra ráðherra út yfir allt, þvílík siðblinda.

Það blasir við að fjárhagslegt tap í Hruninu var liðlega 15 falt meira en samanlagðar innistæður í lífeyrissjóðunum og 30 sinnum meira en heildartap lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðirnir voru einu fjármálastofnanirnar sem komu standandi út úr Hruninu. Samt tókst spillingarmönnum að draga umræðuna út á það plan að starfsmenn lífeyrissjóða væri spilltastir allra. Hrunið væri þeirra sök, þar færu glæpamenn sem gengu um með logsuðutæki og handrukkuðu iðgjöld.

6 ummæli:

Reynir Sigurbjörnsson sagði...

Þetta er á margan hátt rétt greining hjá þér, en spillingin og kerfis hrunið er ekki bundið við einn ákveðinn hóp í þjóðfélaginu. Þetta gengur þvert á allt þjóðfélagið og hefur verið að byggjast upp á löngum tíma í formi meðvirkni og undirlægju háttar á öllum stigum samfélagsins.
Því er það frekar kaldhæðnislegt að menn skuli vitna í Styrmir Gunnarsson sem einhvern stóran sannleika, maður sem mótaði umræðuna að stórum hluta og sáði þessum fræi sem var kallað nýfrjálshyggja og átti að leysa þjóðfélagið undan öllu oki og sleppa út gull kálfinum.
En það voru aðeins hans reglu bræður að hans áliti sem máttu uppskera.
Því fór sem fór.
Reynir Sigurbjörnsson

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, þakka þér fyrir.

Þú skrifaðir svo góðan pistil, að ég ætla mér ekki að skrifa í dag, en kannski á morgun.

Gleðilegt nýtt ár og þökk fyrir það gamla!

Með góðri kveðju,

Guðbjörn Guðbjörnsson

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir árið og megi það nýja færi okkur meiri gleði.
Sorgin á þessu ári er fólk sem þarf að flytjast úr landi, 10 á dag.
Við verðum að snúa því við, allir mínir æsku félagar farnir úr landi.

mbk.

Vilhjálmur sagði...

ER þetta ekki ár lýðskrumaranna. Sigmundar Davíðs,Jóns Bjarnasonar, Lilju Mósesdóttur, Bjarna Benediktssonar, Þór Saari Hagsmunasamtök heimilanna, Vilhjálms Birgissonar o.fl o.fl. Fólkið með sleggjudómana, fúkyrðin og stóru slagorðin en engar lausnir. Þau kæra sig ekki um neina ábyrgð. Aðeins uppslátt í fjölmiðlum og baða sig í sviðsljósi óánægjunnar. Sagan mun ekki sýna þetta fólk sem merkilega gerendur í þjóðfélaginu.

Nafnlaus sagði...

Gleðilegt ár Guðmundur og fjölskylda þakka góð skrif á liðnum árum.

Kv. Sigurjón

Nafnlaus sagði...

Innilega sammála Vilhjálmi. Gleðilegt ár Guðmundur þakka fyrir góða pistla.
Kv. Kristinn