Umræðan um lífeyrissjóðina hefur oft verið einkennileg og í mörgu einkennst af þekkingarskorti og skilningsleysi á því hvernig kerfið starfar. Og síðast en ekki síst hvað sjóðsfélagar hafa samþykkt á sjóðsfélagafundum. Einkennilegt því það er búið skrifa einhver ósköp um lífeyriskerfið á undanförnum árum og eins liggja fyrir á netinu ákaflega greinargóðar útskýringar.
Vart hægt að varast þá hugsun að umræðan undanfarið um lífeyrissjóðina sé rekin áfram til þess eins að draga umræðuna frá þeim alvarlegu málum sem hafa verið að koma upp á yfirborðið um athafnir innan bankakerfisins og í stjórnkerfinu. Þetta virðist blasa við þegar skoðað er hverjir það eru sem reka umræðuna áfram og hvar hún fer fram. Margt er fjarri öllu sanni, t.d. að lífeyrissjóðirnir hafi fjármagnað þensluna sem leiddi til Hrunsins. Það hefur margoft komið fram að tap erlendra banka hér á landi í Hruninu hafi verið u.þ.b. 7 sinnum meira en allar innistæður sem eru í lífeyrissjóðunum.
Auk þess er það fjármagn sem tapaðist hjá innistæðueigendum í bönkunum og fjármagnseigendum meira en lífeyrissjóðirnir töpuðu. En samt er því haldið fram að þetta sé allt stjórnendum lífeyrissjóðanna að kenna. Þetta er í besta falli barnalegt. En sumir láta nota sig til þess að draga umræðuna frá því sem raunverulega gerðist. Þetta er í samræmi við aðvaranir sem hingað hafa borist frá þeim einstaklingum sem fjalla um samskonar vandamál, þ.e. að fyrrv. valdamenn og fjárglæframenn muni leggja allt í sölurnar til þess að trufla eðlilega umræðu með því að þyrla upp moldvirði og henda reyksprengjum inn í umræðuna.
Sumir spyrja hver sé tilgangur lífeyrissjóða. Sáralítið sé greitt út til lífeyrisþega af inngreiðslum til sjóðsfélaga og lífeyrissjóðir séu reknir með ofboðslegum hagnaði sem notaður sé til þess að fjárfesta í viðskiptalífinu. Hrein eign lífeyrissjóðanna sé mikil.
Lífeyrissjóður er uppsafnað sparifé þeirra sjóðsfélaga sem greitt hafa í viðkomandi sjóð, íslenska lífeyriskerfið er uppsöfnunarkerfi ekki gegnumstreymiskerfi og það er nákvæmlega þess vegna sem aðrar þjóðir eru að taka upp samskonar kerfi. Hluti inngreiðslu kemur beint frá sjóðsfélaga og hluti frá vinnuveitanda hans, en öll upphæðin er eign starfsmannsins, sjóðsfélagans. Hún er hluti lögbundinna launa hans. Lífeyrissjóður á engar eignir utan skrifstofuáhalda og þess húsnæðis sem starfsemi hans fer fram í.
Hlutverk lífeyrissjóðs er að taka á móti iðgjöldum sjóðsfélaga og ávaxta þau með besta hætti sem til boða stendur hverju sinni og greiða lífeyri til sjóðsfélaga. Kerfið er stillt þannig af að sjóðsfélagi sem greiðir allan sinn starfsaldur, það er frá 25 ára til 67 ára, á þá í sínum sjóð innistæðu fyrir lífeyri sem svarar til um 60% af meðallaunum frá 67 ára aldri til dauðadags. Ef viðkomandi hefur greitt í styttri tíma verður lífeyririnn minni í réttu hlutfalli við það sem upp á vantar.
Flestir lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir árið 1970, en það er ekki fyrr en 1989 sem farið er að greiða til sjóðanna af fullum launum. Það þýðir að það er ekki fyrr en um 2031 sem til verða sjóðsfélagar með full réttindi og skýrir hvers vegna sjóðsfélagar eru að fá ákaflega mismundi mikinn lífeyri í dag. Auk þess hvers vegna mun meira kemur inn í sjóðina en fer út, en þetta mun snúast við eftir 2020 þegar meir fer að streyma út úr kerfinu en kemur inn í það.
En almennu lífeyrissjóðirnir eru eins margoft hefur komið fram í umræðu um þá að glíma við tvö feikilega erfið vandamál. Meðalaldur er sífellt að lengjast og örorka hefur vaxið langt umfram það sem gert var ráð fyrir þegar menn settust niður árið 1970 og reiknuðu út hversu mikið þurfti að greiða í lífeyrissjóð, þá var meðalaldur um 9 árum minni en hann er í dag og gert ráð fyrir að um 15% af útgreiðslum sjóðanna færi til örorku, en er komið upp í 40% í sumum sjóðanna í dag.
Auk þess blasir við að fjárfestingarmöguleikar lífeyrissjóðanna eru mjög takmarkaður hér á landi og mikil áhætta fyrir þá að vera með svona hátt hlutfall í fjárfestingum hér á landi.
4 ummæli:
Að lesa þessa pistla eftir Þig nafni er eins og að horfa á mann ausa sökkvandi olíuskip með kaffibolla. Þú verður að reyna að sjá af hverju eignir sjóðanna eru í svona mikilli hættu. Og af hverju húsnæðisslánasjóður getur ekki keypt verðtryggð bréf af sjóðunum án þess að vera á framfærslu ríkisjóðs.
Fyrst þarftu að átta þig á hvað peningar eru og hvernig þeir verða til. Svo getur þú farið að velta vöngum yfir hvað raunhæft sé að sparnaður getir verið stór hluti af hagkerfinu án þess að það verðfelli peninga verulega, yfir 100% af þjóðarframleiðslu er klárlega af þeirri stærðargráðu að það skipti verulegur máli.
Lítið dæmi :
3,5 % raunvextir af fjármagni í ástandi 2% hagvaxtar þýðir tæknilega að á hverju ári séu búnir til peningar sem nemur 1.5% af sjóðstærðinni sem ekki vísa á nein raunveruleg verðmæti. Penigasjóður sem verður til með þessum hætti er góður og gildur en hann getur aldrei verið nema lítill hluti heidar hagkefisins.
Ef við heimfærum þetta á lífeirsjóðina með um það 1000 miljarða í innlendum eignum jafngildir það því að eftir 10 ár héðan í frá verða þeir búnir að búa til afleiðupeninga sem nema um það bil 150 milljörðum án þess að nein verðmæti sé það á bakvið og eftir 100 ár eru þetta orðnir 3500 milljarðar.
Það sem skiptir hér máli að sjá er að sjóður sem stækkar umfram verðbólgu á þess að í hann sé greitt er tæknilega bara að prenta verðlausa peninga og til þess að leiðrétta það verður að einhverstaðar að afskrifa til að jafnvægi haldist. Eftir 20 ára 3.5% raunvexti hjá lífeyrisjóðunum er verið að færa meira og minna allar fasteignir í landinu í hendur þeirra (eignirnar lækka en lánin hækka)Þetta er nauðsinlegt til þess að Lífeyrissjóðirnir getir fengið sína 3,5% raunvexti.
Raunvextir eru verð á peningum. Verðlag vöru og þjónustu ræðst af framboði og eftirspurn.
Þegar verðlagsráð ákvað verð á landbúnaðrafurðum á íslandi urðu til fjöll, smjörfjöll og kjötfjöll sem ekkert var hægt að gera við, mest af þessu var urðað. Þetta var svo leyst illu heilla, með því að setja kvóta á bændur sem var ekki góð leið að mínu viti, réttara hefði verið láta markaðinn að ráða. þannig hefðum við fengið lægra verð á landbúnaðarvörur og betri bændur, eða alla veganna hagkvæmari bændur.
Fyrir 20 árum Þegar þáverandi félagsmálráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir kom á húsbréfakerfinu svokallaða var í raun keyrt í gegn um þingið frumvarp til laga sem setti lámarksverð á peninga við 3,5%.
þetta er mjög hátt verð á peninga enda hafa allir sem vettlingi geta valdið, aðalega lífeyrissjóðir keppst við síðan þá að framleiða svona peninga. Nú er svo komið að við okkur blasir peningafjall sem þarf að urða eins og gert var með kjötfjallið forðum.
Spurningin er bara hvort okkur ber gæfa til að láta markaðinn sía út skussana eða hvort næsta skref verður að setja kvóta á peningaframleiðslu. Ég á hinsvegar ekki gott með að sjá hvernig hægt væri að útfæra það.
Það sem Þú þarft að hafa áhyggjur af núna nafni, er hvort mögulegt verði í framtíðinni að nota peningana sem eru í sjóðunum.
Guðmundur Jónsson
1. Það eru lífeyrissjóðir sem kaupa bréf af húsnæðislánasjóð og fjármagna með með því langtímalánakerfið.
2. Pistillinn fjallar um þá endaleysu þar sem verið er að nýta tiltekna fjölmiðla til þess að beina athygli frá því sem raunverulega gerðist að starfsmönnum lífeyrissjóða og koma á þá sökum. Það hafi verið þeir sem leiddu okkur út í Hrunið.
3. Í öðrum pistlum hef ég fjallað hin atriðin sem þú kemur að. Þar eru hinir takmörkuðu fjárfestingarkostir sem þingmenn hafa sett lífeyrissjóðunum með því að krefjast þess að þeir fjárfesti svo miklum hluta eigna sinna hér á landi, það mun aldrei geta gengið upp.
Takk fyrir innlitið Gleðileg jól
1. Takk fyrri leiðréttinguna.
2. Þú ert ekki að skilja mig. Tapaðir peningar í bönkum eru af hinu góða. Kreppa er ástand sem skapast af því að það er of mikið af peningum og of lítið af veðum.
Kreppur er hægt að laga með því að eyða peningum. Til þess að eyða peningum eru þrjár þekktar leiðir:
A) Gjaldþrot er hefðbundin leið.
B) Afskriftir með samningum sem er minna hefðbundin leið en hún hefur verið mikið notuð fyrir útrásarvíkinga undanfarið.
C) Verðbólga sem er ekki nothæf leið á íslandi vegna þess að hún virkar ekki verðtryggðar krónur.
Það er búið að afskrifa mikið af peningum í bönkunum það er af hinu góða. Vandamálið snýst um að það á eftri að afskrifa meira af eignum lífeyissjóðanna. Það er ekki vegna þess að stjórnendur sjóðanna kunni að fara meða peninga heldur bara vegna þess að löginn um sjóðina eru með innbyggðir villu.
3. Ef sjóðirnir hefðu þurft að fjárfesta á markaði Í stað þess að fá að kaupa bréf hjá íbúðalánasjóði sem samkvæmt lögum verða að bera 3.5% raunvexti væri þetta ekki vandamáli því þá væri að líkindum búið að afskrifa miklu meira hjá þeim.
Það er ekki hluti af fjárfestingum lífeyrisjóða í verðtryggðum bréfum og ekki nóg framboð af þeim, eins go svo margir virðast halda. Ef það hefði verið þá hefði tapið verið minna en þeir urðu kaupa á markaði, þar sem takmarkað framboð var.
En það er ekki það sem ég er að tala um, ég er að benda á hvernig umræðan er og hvernig hún er spiluð áfram á kolröngum forsendum.
Skrifa ummæli