miðvikudagur, 22. desember 2010

Krónan banamein kaupmáttaraukningar

Seðlabankinn kynnti skýrslu í vikunni þar sem kemur fram að Íslenska krónan hefur rýrnað um 99,99 prósent frá seinna stríði vegna verðbólgu. Bankinn segir sögu peningastefnu og gjaldmiðlamála á Íslandi vera þyrnum stráða. Verðbólga hefur valdið því að kaupmáttur hefur rýrnað afar mikið síðustu áratugi.

Sem dæmi er nefnt að í ágúst síðastliðnum hefði þurft meira en 7100 krónur til að kaupa þá vöru og þjónustu sem ein króna hefði keypt undir lok heimsstyrjaldarinnar árið 1944 ef ekki hefði komið til þess að tvö núll voru slegin af krónunni árið 1981. Það er rýrnun upp á 99,99% á rúmlega 65 ára tímabili.

Íslenska krónan hafi verið skráð á pari við dönsku krónuna fram til ársins 1920, en á því ári var ákveðið að skrá gengi hennar sérstaklega. Gengi dönsku krónunnar er nú um 20 íslenskar krónur, en sé tekið tillit til myntbreytingarinnar 81 má segja að gengi dönsku krónunnar sé 2000 gamlar krónur. Verðgildi íslensku krónunnar gagnvart hinni dönsku hefur því rýrnað um 99,95 prósent á 90 ára tímabili.

Alþjóðavinnumálastofnunin í Genf birti einnig í vikunni skýrslu þar sem borinn er saman áhrifum fjármálakreppunnar á kaupmátt launafólks um víða veröld. Í henni er staðfest það sem margoft hefur verið bent á þessari síðu. Krónan er mesti óvinur íslenskra launamana og heimila. Kaupmáttaraukningin sem verkalýðshreyfingunni tókst með kjarasamningum að byggja upp á þessari öld þurrkaðist út í Hruninu.

Ég hef oft í pistlum bent á hversu miklu hærri launahækkanir við höfum orðið að semja um en launþegasamtök í öðrum löndum, en samt hefur ekki tekist að viðhalda kaupmættinum, auk þess sitja íslensk heimili í skuldasúpu og sum eru þegar sokkinn. Innganga Íslands í ESB og upptaka evru er stærsta hagsmunamál launþega og heimila í þessu landi, og eina færa leiðin út úr kollsteypu hagkerfinu.

Elvar Örn Arason er menntaður í alþjóðasamskiptum og evrópskum stjórnsýslufræðum, hefur tekið saman áhugaverða skýrslu um þetta.

Þar kemur fram að íslenskum launamönnum hafði tekist það sem af var þessari öld, að ná um 13% kaupmáttaraukningu fram að Hruni og töpuðu henni nær allri við Hrunið,auk þess að fjöldi heimila tapaði öllum sínum eignum.

Danir féllu ekkert um við efnahagshrunið og hafa bætt við sig 1% eftir 2008 og tæp 6% það sem af er þessari öld. Auk þess að halda þeir sínum eignum.

Svíar hafa gert betur, þeir hafa bætt við sig 2.3% eftir efnahagshrunið og 7,3% það sem af er þessari öld, og líka halda sínum eignum.

Finnland hefur bætt við sig 4,5% í kaupmætti frá efnahagshruninu og bætt við sig 10,8% það sem af er þessari öld.

Noregur er með mestu kaupmáttaraukninguna af Norðurlöndunum eða 10,8% það sem af er þessari öld, þar af 4,5% frá árinu 2007.

Meðaltal kaupmáttaraukningar í Evrópu það sem af er þessari öld er 12,7%, þar af 2,7% eftir efnahagshrunið. Heimild: Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) árið 2010.

Alþjóðavinnumálastofnunin byggði niðurstöðu sína á launatölum frá Hagstofu Íslands og verðþróun hér á landi.

15 ummæli:

Einar sagði...

Getur það hugsast, að sú staðreynd að cirka 85% af fjármálakerfinu féll hér, meðan bankakerfin stóðu á hinum norðurlandanna - geti skýrt hinn mikla mun á milli lífskjararýrnunar í kreppunni hér og þar?

Eða ertu virkilega að ímynda þér, að hægt hefði verið að verja kaupmátt almennings hér, inni í einhverju öðru gjaldmiðils samhengi, miðað við hagkerfisáfall af þeirri stærðargráðu?

Og þú ert náttúrulega að halda fram eða hvað, að kaupmáttur launa hér sé einungis 0,01% af kaupmætti launa í Danmörku :)

Á að taka svona málflutning alvarlega?

Kv.

Nafnlaus sagði...

Þá hljóta Bandaríkjamenn að vera í slæmum málum enda hefur verðgildi Bandaríkjadollar rýrnað um 88% gagnvart Yeni frá lokum seinni heimsstyrjaldarinna.

Það er óneitanlega svolítið spennandi fyrir verkalýðsforkólfa að fara semja um beinar launalækkanir við atvinnurekendur eftir upptöku Evrunar enda eina leiðin til að auka samkeppnishæfni þjóðarinna þegar illa árar og vinna þarf bug á +20% atvinnuleysi.

Þetta krónutal er eins og að kenna mælinum um að öryggið mælist rofið og heimta nýjan mæli í stað þess að skifta bara út örygginu þ.e hagstjórnin og peningamálastefnan er vandamálið en ekki mælirinn(krónan).

Nafnlaus sagði...

krónan banamein kaupmáttaraukningar?????
það er glæpsamleg efnahagstjórnun
sem er banamein kaupmáttaraukningar
gengi krónunar er einungis mælikvarði

Guðmundur sagði...

Hvers lags málflutningur er þetta?

Öll vitum við hver hefur staðið í vegi fyrir því að skipt sé um gjaldmiðil. Það eru þeir valdhafar sem hafa farið með efnahags- og peningastjórn undanfarna áratugi.

Hvers vegna hafa þeir staðið í vegi fyrir því?

Hvaða rök hafa þeir sett fram? "Það er gott að hafa krónuna, því þá er blóðsúthellingalaust hægt að leiðrétta of góða kjarasamninga verkalýðsfélaganna" Þetta hafa helstu efnahagssérfræðingar þeirra margoft sagt.

Hvers vegna vilja þeir sem standa helst að baki þessarar stefnu gera sín fyrirtæki upp í Evrum en halda áfram að gera upp laun í krónunni?

Það að bera krónuna saman við dollar er í besta falli barnalegt. Getum/gátum við greitt okkar erlendu skuldir í krónum? Getur t.d. Landsvirkjun gert lánasamninga í krónum? Hvers vegna á Landsvirkjun í vandræðum með að koma af stað Búðarhálsvirkjun?

Hvers vegna eru öll helstu iðnfyritæki í vandræðum og farin að gera upp í Evrum og segjast verða að flytja til Evrusvæðis ef ekki verði skipt um gjaldmiðil hér á næstu árum og sum þegar búinn að gera það?

Værum við í þeirri stöðu sem við erum í dag ef við hefðum haft gjaldmiðil sem er ekki eins og korktappi út á rúmsjó hins alþjóðlega hagkerfisins?

Hefðu stjórnendur íslensks hagkerfis komist upp með þær ákvarðanir sem þeir tóku, ef við hefðum haft alvöru gjaldmiðil?

Málflutningur af því tagi sem fram kemur hér í þessum aths. endurspeglar nákvæmlega vanda okkar.

Innistæðulausir útúrsnúningar, til þess að verja stöðu þeirra sem hafa skapað sér þá sérstöðu að geta staðið að stórkostlegum eignatilfærslum fá hinum mörgu til fárra.

Þeir vilja geta haldið áfram að kenna árinni um hversu illa hefur gengið. Þeirra einkenni eru svona bullrök eins og fram koma hér að ofan þegar bent er á staðreyndir.

Nafnlaus sagði...

Svona svona Guðmundur ekki fara á taugum, íslenskur peningasérfræðingar hefðu fundið leið fram hjá hvaða kerfi sem hér hefði verið, trúðu mér, horfðu á Íra (þú taldir þá ekki með)við hefðum gert það sama, hér vantar eitthvað annað en nýjan gjaldmiðil, þó svo það væri sjálfsagt gott, gleymum aldrei að hér var framin glæpur en ekki eðlilegt "hrun"

Guðmundur sagði...

Hér er birtur pistill þar sem sýndar eru óhrekjanlegar staðreyndir um hvernig farið hafi verið með íslenska launamenn í gegnum árin, allt frá stríði og þar hafi krónan skapað tilteknum aðilum svigrúm til þeirra aðgerða. Á meðan launamönnum í öðrum löndum hafi verið búin allt önnur umgjörð. Því hefur verið haldið að fólki að krónan sé bjargvættur og það eigi að vera ánægt með hana. Þá fara stuðningsmenn krónunnar að tala um einhverja allt aðra hluti og reynt að tala niður til manna.

Hér mætti vitna til ummæla nóbelskáldsins um getuleysi íslendinga til málefnanlegrar umræðu

Einar sagði...

Ég tek eftir að þú kaust því að svara ekki þeim ábendingum sem þú fékkst.

"Hvaða rök hafa þeir sett fram?"

Hafr. 101, ef þú ert með hagkerfi með sveiflugjarna framleiðsluþætti, og/eða þætti sem eru mjög háðir verðsveiflum á markaði - og þeir markaðsþættir skipta miklu máli sbr. rúm 90% gjaldeyristekna Íslands koma frá fiski, áli og ferðamennsku.

Þá hefur þú ekki val um hvort það verða sveiflur - heldur hvað skal sveiflast. Þetta var ábending Stiglitz, þegar hann var hérlendis fyrir rúmu ári.

Fall bankanna, er búið að færa ísl. hagkerfið aftur um 20 ár. Við erum aftur háð sveiflugjörnum þáttum eins og áður fyrr.

Þá er einfaldlega val, hvað á að sveiflast - gjaldmiðill, laun eða atvinnustig.

Fyrir launamann, skiptir engu máli hvort laun lækka 20% eða gengi fellur 20%.

Þetta tal um samsæri gegn launamönnum, er út í hött að sjálfsögðu.

Stiglitz mælti með hámörkun nýtingar framleiðsluþátta, og taldi gengisfellingar heppilegra form sveigjanleika, þ.s. þær skila nauðsynlegri aðlögun fyrir sveiflugjarna framleiðslu með skjótari hætti en verðhjöðnun.

Þú munt sjálfsagt svara út og suður um samsæri gegn launamönnum, og babbla e-h um út úr snúninga.

"Værum við í þeirri stöðu sem við erum í dag ef við hefðum haft gjaldmiðil sem er ekki eins og korktappi út á rúmsjó hins alþjóðlega hagkerfisins?"

Að lokum eitt. Krónan gerði okkur stórfelldan greiða með því að falla. Því, það verðfall framkallaði tafarlausan viðsnúning á viðskiptareikningi landsmanna - frá halla yfir í hagnað. Ég leyfi mér eftirfarandi fullyrðingu, að landið væri löngu komið á hausinn í þessari kreppu, ef ekki hefði verið fyrir þennan greiða krónunnar við landsmenn.

Að sjálfsögðu, er krónan besta vörn ísl. launamanna, einmitt með sveigjanleika sínum. Því, sá lágmarkar hagkerfissveiflur og um leið atvinnuleysi. En miðað við það að Ísl. lenti í alvarlegasta hagkerfis áfallinu af öllum löndum í Evrópu, er það óskaplegur árangur að atv.leysi skuli langt í frá vera það versta - sem hefði verið rökrétt afleiðing annars og ég fullyrði, væri staðreynd ef við værum hluti af hagkerfi Evrunnar.

Kv.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, þetta krónu vs. evru-tal hjá þér er farið að vera svolítið þreytandi og beinlínis leiðinlegt.
Þú ert orðinn eins og Don Kíkóte, þú berst gegn krónunni sem í raun er alsaklaus af þessu öllu saman, en er í raun eins og misnotað barn sem útrásarvíkingar nauðguðu.

Hvers vegna hafna Danir Evru

Og hvers vegna hafa Svíar ekki tekið upp Evru?

Evran er ekkert efnahagslegt töfralyf.

Írar eru með Evru en eru að sigla inn í efnahagslegan kjarnorkuvetur sem mun vara í mörg ár.
Laun munu lækka hjá Írum, niðurskurður verður gífurlegur, og atvinnuleysi mun aukast gífurlega, las einhvers staðar að atvinnuleysi gæti náð allt að 20% þar, sem myndi leiða til fjöldafólksflótta þaðan.
Og þetta þurfa Írar að fara í gegnum þrátt fyrir að vera í ESB og vera með Evru.

Í millitíðinni verður Ísland löngu komið upp úr kreppunni, og jafnvel verðum við búin að upplifa tvö góðærisskeið á meðna Írar verða í djúpri kreppu allan tímann.

Og hvernig ætlar þú að útskýra og réttlæta fyrir þínum umbjóðendum værum við með Evru, að þeir verði efnahagslegt sveiflujöfnunartæki í Evru-hagkerfi hér líkt og Írsk launafólk þarf nú að upplifa?

Nafnlaus sagði...

Já Guðmundur Það er kostulegt að lesa þennan málflutning og reyndar níðangurslegt hvernig sumir vilja halda áfram að níðast á launamönnum.

Augljóst hverjir skrifa og fara alltaf á taugum þegar þú skrifar þína beittu og vel rökstuddu pistla.

Þessir aðilar vilja geta fært efnahagsleg mistök yfir á almenning með stórkostlegri eignaupptöku eins og gert hefur verið reglulega hér á allt frá stríðinu.

Þessir sérhagsmunaaðilar vilja halda í sína stöðu og bregðast alltaf við með sama hætti þegar þeir telja sín forréttindi í hættu.

Danska og Sænska krónan er fasttengd við Evru og Finnar búa við Evru. Almenningur þar þarf ekki greiða 2 - 3 sinnum meira fyrir sín hús vegna þeirra vaxta sem sveiflukenndur gjaldmiðill eins og krónan kallar á. Svo maður tali nú ekki um verðtrygginguna. Hinir norðurlandabúarnir búa ekki við 20 - 40% hærra verðlag. Þeir búa ekki við það ástand að skuldir þeirra taki stökkbreytingum á meðan forréttinda fólkið, sem skrifar hér í aths. dálkana og lifir í velystingum á kostnað launamanna.

Öll vitum við hvað stendur í vegi fyrir því að íslensk fyrirtæki komist af stað, það er krónan.

Þú stendur þig frábærlega Gleðileg jól
Rúnar

nemo sagði...

Þakkir fyrir góðan pistil. Ég er sammála þér um mat á krónuni.Það virðist vefjast mikið fyrir mönnum að sjá staðreyndir málsins.Það er broslegt þegar "Einar" virðist álíta það gagnrök í málinu að 85% af fjármálakerfinu hafi fallið. Hefur hann aldrei heyrt um það að staða bankanna sé háð gengi krónunnar?Hefur öll umræðan um stöðutöku gegn krónunni farið framhjá honum?

Nafnlaus sagði...

Alltaf fara menn í sömu útúrsnúningaumræðuna og vilja komast hjá því að ræða efni pistilsins og koma svo með einhverjar ómerkilegar ásakanir.
Þetta er frábær pistill, hann er virkilega vel rökstuddur og sma á við um svör þín Guðmundur.
Takk fyrir frábæra pistla um skaðvaldinn króna
Góðar kv Gunnar og gleðileg jól

Nafnlaus sagði...

Mig langar til þess að þakka þér sérstaklega fyrir góða og vel rökstudda pistla Guðmundur, þessi er í betri flokknum af mörgum góðum um krónuna. Skil vel að hann fari í taugarnar á sumum.
Gleðileg jól og farsælt komandi ár. Vona að þú haldir áfram að skrifa á nýju ári.
Einar

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir góðan pistil og góða pistla almennt.

Krónan hefur nýst okkur í gegnum tíðina til komast út úr ógöngum í efnahagsmálum. Virkað eins og bjarghringur þegar allt er komið í óefni. Menn mættu samt leiða hugann að því að krónan bíður þeirri hættu heim að ráðamenn séu óábyrgir í efnahagsstjórninni. Ráðamenn leiðist út í alls kyns ævintýri í efnahagsmálum, óábyrgt, vitandi að ef allt fer á versta fellur gengið og almenningur borgar brúsann. Fyrir allan almenning hlýtur það hins vegar að vera eftirsóknarvert að hér sé rekin ábyrg efnhagsstjórn með verkfærum sem duga. Bjarghringurinn íslenska krónan á ekki að vera í þeirri verkfærakistu. Það er skrýtin útgerð sem tekur áhættu á þeim forsendum að í skipinu er bjarghringur.

Gleðileg Jól, ABC.

Einar sagði...

"Krónan hefur nýst okkur í gegnum tíðina til komast út úr ógöngum í efnahagsmálum."

Rétt! Og, þó krónan hafi fallið 99,99% á 65 árum gagnvart D-kr., þá eru lífskjör hér hærri en fyrir 65 árum.

"Menn mættu samt leiða hugann að því að krónan bíður þeirri hættu heim að ráðamenn séu óábyrgir í efnahagsstjórninni."

Þetta er úr af fyrir sig rétt ábending hjá þér, að menn komast frekar upp með óábyrga hagstj. í krónuhagkerfi.

"Ráðamenn leiðist út í alls kyns ævintýri í efnahagsmálum, óábyrgt, vitandi að ef allt fer á versta fellur gengið og almenningur borgar brúsann."

En ath. almenningur borgar brúsann "regardless" - þegar verða hagstjórnarmistök. Spurningin er einungis hvernig hann borgar fyrir mistökin.

Menn töluðu á svipuðum nótum, í Argentínu þegar þeirra gjaldmiðill var tengdur við Dollar á sínum tíma. Menn töluðu á þessum nótum í Portúgal, Grikklandi, Írlandi og Spáni.

Spurningin er hvort skilar verri útkomu fyrir launamenn?

En, ath. að í öllum ofangreindum löndum brást stjórnmálamönnum samt hagstjórnarbogalistin þrátt fyrir fögur fyrirheit.

Á endanum gafst Argentínska þjóðin upp, eftir AGS prógramm - sambærilegan pakka og Írar og Grikkir eru með, og yfirgáfu tenginguna og létu gjaldmiðilinn gossa.

Margir hafgræðingar erlendis spá því að Írar, Grikkir, Portúgalar og jafnvel Spánv. muni yfirgefa Evruna, eftir sambærilega uppreisn kjósenda.

"Fyrir allan almenning hlýtur það hins vegar að vera eftirsóknarvert að hér sé rekin ábyrg efnhagsstjórn með verkfærum sem duga."

En, þú fækkar verkfærum í verkfærakystu stjv.

**Vextir teknir út.

**Seðlaprentun tekin út.

**Gengisstýring tekin út.

*Ríkið getur enn sparað eða eytt peningum.

*Hægt er að auka eða minnka bindiskildu banka.

Ekki margt fleira. Þannig, að stýra hagkerfinu verður eins og að stýra með aðra hendi bundna fyrir aftan bak. Og, þá er eins gott að hagkerfið þitt fari ekki á flug. Því þá hefur þú færri tæki yfir að ráða, til að hindra að ílla fari.

En, mundu að 5 ríki innan Evrunnar lentu í hagkerfisbólu - Grikkl., Írl., Spánn, Portúgal og Belgía.

Tilviljun? Er ekki of mikið að kalla það tilviljun?

"Bjarghringurinn íslenska krónan á ekki að vera í þeirri verkfærakistu."

Ef þig vantar bjarghring er hættan sú að þú bjargist ekki!


"Það er skrýtin útgerð sem tekur áhættu á þeim forsendum að í skipinu er bjarghringur."

Ekki, ef þ.e. raunverulega ástæða að ætla að þú þurfir á bjarghring að halda.

Kv.

Nafnlaus sagði...

Einar, þú færð ekki meðmælabréf frá mér sem skipstjóri.

Kv. ABC :)