Fór að sjá Lér konung í gærkvöldi. Lér konungur er talið magnþrungnasta verk Shakespeares. Viðfangsefnið er spilling, vald og oflæti. Sýningin er hreint út sagt ákaflega sterkt leikhúsverk, með því betra sem fram hefur komið. Arnar fer fyrir sýningunni með stórkostlegum leik, sama má segja um flesta hinna leikaranna. Sviðsetning er einföld en samt mjög sterk, sama má segja um tónlistina.
Þýðing Þórarins Eldjárns er listilega góð og færir verkið til okkar tíma. Textinn hans er lipur og átakalaust fylgdust áhorfendur með, ekki að setja sig í stellingar og venjast textanum eins og oft er þegar Shakespeare er annars vegar.
Í sýningunni er dregin upp harmþrungin mynd af fallvaltleika alls og hún talar til okkar með ógnvænlegum krafti. Maður kemst ekki hjá því að velta fyrir sér samsömun þess samfélags sem lýst er í verkinu og hvernig komið er fyrir okkar íslenska samfélagi.
Þetta ógeðslega þjóðfélag, þar sem eru engin prinsipp, engar hugsjónir, ekki neitt. Bara tækifærismennska og valdabarátta. Svo vitnað sé í orð þekkts ritstjóra sem er búinn að vera á fremsta bekk í 50 ár og er það að lýsa íslensku samfélagi.
Þeir sem hafa gaman af því að fara í leikhús mega einfaldlega ekki láta þessa sýningu fram hjá sér fara.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli