fimmtudagur, 23. desember 2010

Efnahagslegar þrælabúðir krónunnar

Samanburður á verði matvæla eða annarri vöru í hinum ýmsu löndum og hjá okkur segir í raun ekkert. Hann er álíka marklaus ef rætt er um kauphækkanir einar út af fyrir sig. Það er kaupmáttur sem segir okkur til um árangur kjarabaráttu. Hversu langan tíma við þurfum að verja til þess að kaupa nauðþurftir, þak yfir fjölskylduna með rafmagni og hita, sem segir okkur til um raunverð matvæla.

Til að fá marktækan samanburð á verði milli landa er nauðsynlegt að hafa í huga kaupmátt íbúa þeirra landa sem verið er að bera saman. Kaupmáttur launa á Íslandi féll á einni nóttu haustið 2008 um svipað hlutfall og hafði áunnist næstu 8 ár á undan. Auk þess hafa skattahækkanir ásamt minni þjónustu frá velferðarkerfinu valdið því að fólk hefur minna umleikis. Við verðum að verja meiri tíma til þess að geta keypt daglegar nauðsynjar og matvælaverðið á Íslandi verður hátt til lengdar. Ef við göngum í ESB mun matarverð á Íslandi lækka svo um munar, í það minnsta í þeim vöruflokkum þar sem höftin og tollarnir eru mestir. Ellegar væru sérhagsmunahópar á borð við Bændasamtök Íslands ekki á móti því að leyfa tollfrjálsan innflutning matvæla.

Algengt viðkvæði þeirra stjórnmálamanna sem ganga erinda kvótaeigenda og bænda er að verja krónuna með því að halda því fram að lönd innan ESB eigi við efnahagsvandamál að etja. Staðreyndin er sú að okkar stærstu vandamál eru vegna gjaldmiðilsins. Í þeim löndum sem þeir benda á er almenningur ekki að tapa eignum sínum vegna ónýts gjaldmiðils, ofurvaxta og verðtryggingar. Þar getur fólk selt eignir sínar og flutt þær, t.d. til annarra landa. Hér í krónuumhverfinu er hvorugt hægt.

Ekkert land í Evrópu hefur orðið fyrir jafnmiklu kerfistjóni og Ísland, það er vegna hruns krónunnar. Ekkert Evruríki hefur orðið fyrir jafnmiklu tekjutapi og hér, það er vegna hruns krónunnar. Tekjustofnar ríkissjóðs hafi hrunið um tugi prósenta og er í raun stærsta vandamálið sem Alþingi þarf að glíma við. Ísland er rúið efnahagslegu trausti, það er vegna krónunnar.

Ef þjóð býr við stöðugan gjaldmiðil verður rekstur fyrirtækja og hins opinbera reistur á traustum grunngildum í stöðugu umhverfi og leiðir jafns vaxtar og skapar störf. Þetta blasir við okkur ef við lítum t.d. til Danmerkur, og það er vegna þessa að þjóðir leita inn í ESB og til að tryggja fullveldi sitt. Það rekur engin fyrirtæki til langframa með bókhaldsblekkingum – Ebita blekkingum.

Íslenskt atvinnulíf getur ekki endurfjármagnað sig, það er vegna krónunnar. Lönd sem eru með Evru eru ekki í sömu vandræðum. Hvergi á norðurlöndunum eða í vestan-verðri Evrópu hefur kaupmáttur fallið eins mikið og hér, það er vegna hruns krónunnar.

Vextir hér eru hærri vegna krónunnar. Vextir leiða til hærra verðlags. Óstöðugur gjaldmiðill leiðir til enn hærra verðlags. Það eru aðstæður og skilyrði sem ákvarða hvort fyrirtæki vaxa og dafna. 25% af launum íslendinga fara í aukakostnað vegna krónunnar. Til þess að hafa svipuð laun og annarsstaðar á norðurlöndunum þurfum við að skila 25% lengri vinnuviku.

Vextir hér á landi eru töluvert hærri en annarsstaðar og vaxtamunur verður alltaf a.m.k. 5% hærri á Íslandi en innan Evrusvæðisins, það er vegna krónunnar. Ef fjölskylda sem kaupir sér eitt hús á Íslandi og önnur kaupir sér hús t.d. í Danmörku. Þá er staðan sú eftir 20 ár að þá hefur íslenska fjölskyldan greitt sem svarar andvirðis rúmlega tveggja húsa, séu greiðslur bornar saman við endurgjald dönsku fjölskyldunnar.

Krónan heldur íslendingum í efnahagslegum þrælabúðum. Við viljum losna undan þeim viðjum sem þessi valdaklíka heldur okkur í og fá efnahagslegt frelsi takk fyrir.

Forsvarsmenn CCP, Össur, Marel og allra hátæknifyrirtækjanna hafa marglýst því yfir að þeir verði að færa sig yfir í Evrusvæðið ef fyrirtækin eigi að lifa. Þau eru þegar farinn að greiða hluta launa í Evrum. Stjórnendur þessara fyrirtækja telja að innganga Íslands inn í ESB muni leiða til þess að umhverfið sem þeir hafi starfað í síðustu ár róist og verði líkara því sem er í öðrum löndum, þar sem þau geta gengið að flestu vísu, svo vitnað sé í þeirra eigin orð.

Þótt margt hafi breyst til batnaðar í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja erum við enn að burðast með íslensku krónuna, hina örsmáu og óstöðugu mynt. Íslenskt atvinnulíf starfar í alþjóðlegu umhverfi og við verðum að víkja frá einangrunarstefnunni. Vandamálið var ekki síst að það var nánast ómögulegt að fá krónur að láni til þess að fara út í framkvæmdir. Eitt af helstu vandamálum Íslendinga er krónan. Hún er alltof dýr og hreinlega ónothæf þegar kemur að fjármögnun stórra framkvæmda.

Það er brýnt að annar gjaldmiðill verði tekinn upp í landinu, sé horft til framtíðar. Ísland á miklar auðlindir og mun ná vopnum sínum. Það eru allar forsendur fyrir því að það sé hægt að á skömmum tíma. Ef ekki verður gripið til réttra aðgerða verður Ísland láglaunasvæði við hlið hinna norðurlandanna sem eru með lægri vexti, hærri laun, mun lægra verðlag og mun betra öryggisnet. Það kallar á fólksflótta. Varanleg lausn á gjaldeyriskreppunni er lykill og grunnur að lausn annarra stórra vandamála á Íslandi og um leið forsenda endurreisnar.

Hlutdeild sjávarútvegsins í þjóðarframleiðslunni er innan við 8% og skapar um þriðjung gjaldeyris. Þau 20.000 störf sem þarf að skapa á næstu 4 árum til þess að koma atvinnuleysinu niður fyrir 4% verða ekki í sjávarútvegi og landbúnaði. Ný störf verða til í sömu störfum og atvinnuleysið er nú; þjónustu og tæknigreinum. Það er því kaldranalegt fyrir atvinnulausa fólkið að heyra þá sem hafa atvinnu hafna algjörlega eina möguleikanum að koma þróuninni í réttan farveg og til framtíðar með því að nýta orkuna og byggja upp þekkingariðnað, líftækni, lyfjaframleiðslu og ferðaþjónustu.

Þessar atvinnugreinar eiga það sameiginlegt að búa við stöðugleika. Þau þurfa aðgang að erlendu fjármagni og erlendum mörkuðum, af því að heimamarkaðurinn er of smár. Okkur er lífsnauðsyn að tengjast stærra myntsvæði, sem getur fært okkur stöðugt efnahagsumhverfi. Ella munu atvinnugreinar framtíðarinnar ekki þrífast hér. Unga menntaða fólkið mun flytja úr landi og þeir sem eru að mennta sig núna koma ekki heim.

18 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Að venju frábær pistill!

Hvernig komum við þessum skilaboðum betur til almennings?

Með góðri jólakveðju,

Guðbjörn Guðbjörnsson

Nafnlaus sagði...

Svo satt - svo satt. En svo sárt
Takk fyrir frábæra pistla.
Með góðum jólakveðjum
Kristinn Þór

Nafnlaus sagði...

Þetta er góður pistill sem kemur að kjarna málsins.Til þess að bera saman lönd er notaður kaupmáttarjöfnuður og landsframleiðsla ólíkra landa umreiknuð í mynt þriðja lands sem er venjulega dollar.Það er mikilvægt að vinna skýrslu um samanburð á lífskjörum hér á landi og öðrum Norðurlöndum eftir Hrun.Kannski hefur það verið gert.

Nafnlaus sagði...

Já tek undir það þetta er frábær pistill. Besti sem ég hef lesið lengi. Þeir eru reyndar virkilega góðir þessir sem hafa birst hér síðustu daga og vel rökstuddir.

Nafnlaus sagði...

Ég er félagsmaður í öðru stéttarfélagi en Rafeindasambandinu. En við höfum oft rætt að mikið vildum fá Guðmund sem formann hjá okkur.

Þau atriði sem hann er að benda á eru nákvæmlega kjarni málsins og vantar inn í umræðu verkalýðshreyfingarinnar.

Nafnlaus sagði...

Þettað er auðvitað sá samanburður sem við eigum alltaf að miða við, hvað þarf maður að vinna mikið fyrir nauðsynja vörum. Enn meðan við getum ekki stýrt fjármálum okkar betur þá er staða okkar ekki betri enn hún er. Það er ekkert skrítið að erlend ríki hafi ekkert traust á okkur. Ég er frekar hlintur ESB, enn set varngla við trú á að það bjargi okkur, er ekkert Herbalife. Og sama er með Everuna hún er enginn lausn, álíka og fyrir áfengissjúkling að skifta um áfengistegund. Það er svoldið skrítið að þegar við flytum til annara landa þá breytum við um lífstíl, þurfum bara einn bíl og notum hann lítið tökum strætó. Semsagt lifum einsog fólk. Svo óska ég ykkur öllum gleðilegra Jóla Kv Simmi

Hallur sagði...

Sæll Guðmundur.
Tek heilshugar undir allt í þessum pistli þínum. Óstöðugur gjaldmiðill og verðlaus á alþjóðlegum vettvangi er okkar stæðsta vandamál. Stöðug fárviðri það sem sífellt er verið að breggðast við nýjum og breittum aðstæðum slævir ábyrgðatilfinningu almennings gagnvart sínum ákvörðunum, alltaf er búist við bjargráðum. Okkur vantar stöðuleika fyrir heimili og fyrirtæki, honum verður ekki náð með áframhaldandi notkun krónunar. Andstaða við ESB byggist fyrst og fremst á óupplýstri umræðu og ótta við að missa völd og áhrif. Að mínum dómi er ljóst að Íslenskt samfélag getur ekki vaxið nema með því að verða fullgildur aðili að ESB með öllum þeim möguleikum sem bjóðast til eflingar atvinnu og þróunar. Okkur skortir fjármagn til þróunar.
Jólakveðjur.

Nafnlaus sagði...

Vel mælt og 100% sammála. Gleðilega hátíð, félagi
Guðrún

Nafnlaus sagði...

Afar raunsær pistill, þetta er veruleikinn.

Þessi texti hefði átt að vera í nýju skýrslu Seðlabankans - þar sem þetta er kaldur raunveruleikinn.

Það sem kannski vantar er - mat á þeirri áhættu sem er framundan verði ekki gengið í ESB og tekin upp evra. Þá er nokkuð öruggt að annað kerfishrun er framundan. Það kann hinsvegar að hljóma ótrúlega - eins og það hljómaði ótrúlega 2006 að kerfishrun væri framundan 2008. Líkurnar á nýju hruni eftir c.a. 3-4 ár verði ekki gengið í ESB eru miklu mun meiri nú en 2006.

Það væri óskandi að á nýju ári væri eftir þessum texta þínum farið Guðmundur, þar sem það er eina björgunarleiðin.

Nafnlaus sagði...

Þú ert í fantagóðu formi þessa dagana, flottur pistill. Meira Meira Takk
Jólakveðjur Gústi

Nafnlaus sagði...

Það mætti e.t.v. koma því betur á framfæri að flest af stærri útgerðafélögum nota orðið aðrar myntir en krónu í uppgjörum sínum og viðskiptum, sem og þau greiða arðinn í öðrum myntum en krónu. Það er helst að þeir vilja hafa laun og kostnað "sveigjanlegan." Það er nauðsynlegt að horfa á ESB og kosti myntsamstarfs út frá þörfum venjulegs fólks. Þá má líka horfa til mismunarins á milli kaupgengis og sölugengis Evru og annarra mynta sem er í raun 0,6% skattur banka á allan innflutning. Skattur sem síðan er magnaður upp í gegnum, tolla, vörugjöld og vask.
Mbkv.
Guðsteinn Einarsson

Nafnlaus sagði...

Efnahagslegar þrælabúðir fjórflokksins væri nær lagi
Það er einkver hluti þjóðarinnar sem
lítur á millistjéttina og lálaunastéttina sem neðsta þrepið í
peningafæðukeðjunni og það er heilagur réttur þeirra að blóðmjólka þær með öllum ráðum og krónan er tæki sem þeir hafa oft gripið til
Krónan er ekki bölvaldurinn per se
heldur þessir flibbajúðar sem hafa stjórnað efnahags og peningastefnu Íslands

meigi skatan smakkast vel og
gleðileg jól

Guðmundur sagði...

Það er svo einkennandi fyrir suma sem eru að skrifa aths. að þeir eru fullkomlega röklausir. Þeir lýsa því svo ákaflega vel þegar þeir tala um "en það eru svo margar rangfærslur" án þess að skilgreina hverjar þær eru.

Og svo er að venju farið í að tala niður til manna með venjubundnu rætnu orðafari.

Sumt er svo langt fyrir utan það að vera birtanlegt

Jólakv. GG

Nafnlaus sagði...

Mér fynnst nú rökleysa hjá höfundi
að vera tala um að ganga í myntbandalag EU á næstu árum
það mun ekki ske fyrr við höfum náð
tökum á okkar efnahagstjórn
Svo er spurning lifir EU þessa kreppu af?

Og að menn séu að tala niður til manna
Renndi yfir commentina
var ekki var við neitt sem gæti sært
viðkvæmar sálir

Guðmundur sagði...

Eins og kemur fram á forsíðunni þá er farið yfir aths. áður en þær eru birtar. Varð því miður að taka upp þann háttin því sumir hafa vanið sig á það að í skjóli nafnleysis ótrúlegar svívirðingar inn í aths. dálkana, ekki endilega um mig (sem væri birt) heldur aðra og svo einhverjar endaleysur um eitthvað sem ekki snertir efni viðkomandi pistils.

Þannig að það nær ekki allt í gegn, til þess gert að þurfa ekki að hræða viðkvæmar sálir. Ég hef það útaf fyrir mig það sem ljótast er og birti það ekki. En er svo sem vísari um innra eðli viðkomandi
kv GG

Nafnlaus sagði...

Þú ert enn og aftur í heilagri krossferð þinni gegn krónunni og talar hana niður.

Krónan er sauklaus af þessu öllu. Hún er fórnarlamb manna sem ekki kunna fótum sínum forráð í efnahagsmálum.

Ein besta kjarabót sem þú sem formaður stéttarfélags getur boðið umbjóðendum þínum er að tala krónuna upp.

Með lága krónu er t.d. glapræði að taka upp Evru á lágu skiptigengi. Það mynda festa okkur varanlega í sessi sem C-þjóð í efnahagslegu samfélagi þjóðanna.

Svo fæ ég ekki betur séð en Írar, Spánverjar, Pórtúgalir, Ítali og Grikkir séu í efnahagslegum þrælahlekkjum Evrunnar. Og það munu þeir verað út þennan áratug.

Hér er ég með tvo valkosti fyrir Ísland:

a. Krónu, stýrvexti í hærri kantinum, lágt atvinnuleysi = (veruleikin á Íslandi fyrir Hrun)

b. Evru eða Evru-tengingu, stýrivexti mjög lága, hátt atvinnuleysi = (einkenni og veruleiki ESB-ríkjanna).

Hvort myndir þú velja, Guðmundur, a eða b?

Ég vel möguleika a, því ekkert er verri en hátt atvinnuleysi enda kostar það mikið í peningum og félagslegum vandamálum.

Guðmundur sagði...

Nafnlaus #15:25 er dæmigerður fulltrúi þeirra sem snúa hlutunum á haus og býr sér til niðurstöður. Einhver ómerkilegasti málflutningur sem þekkist, en einkennir þá sem eru röklausir.

Smíðaðir eru valkostir sem eru hreint út sagt út í hött og þeir síðan studdir með því að fara í manninn ekki boltann.

Hér er verið að reyna að verja ofboðslega eignaupptöku hjá launamönnum og færa þá fjármuni til ríkra og um leið er það klætt í búningi þess að verkalýðsforingi sé að vinna gegn hagsmunum launamanna.


Atvinnuleysi í sambærilegum Evrópuríkjum er ekki lakari en á Íslandi nema síður sé.

Engin talar um að taka upp krónu á lágu gengi og festa í sessi láglaunaland. Allir vita að krónan er leiða opkkur til þess ástands að festa Ísland sem láglaunaríki til framtíðar. Fyrirtæki með góða atvinnukosti eru að flýja landið.

En hinir ríku eins og Nafnlaus #15:25 óttast að hann missi starfskrafta héðan. Enda sjáum við hvert stefnir, vel menntaðir íslendingar eru að flyja land á meðan eftir situr láglaunafólk sem er að drukkna í skuldum sem urðu til vegna gjaldmiðilsins.

Þvílíkur lágkúru málflutningur.

Nafnlaus sagði...

Já Guðmundur málflutningur Nafnlaus #15.25 er nákvæmlega sem okkur launamönnum hefur verið boðið upp á af hinum spilltu mönnum sem hafa stýrt þessu landi frá 1944 og koma frá Flokknum.

Þorsteinn