föstudagur, 10. desember 2010

Sjúkleg efnishyggja

Öll umræðan í samfélaginu snýst um fjármál. Efnishyggjan er sjúkleg og blindar mönnum sýn. Maður er hreint út sagt gáttaður á ummælum þingmanna, ráðherra og fyrrv. ráðherra um lífeyrissjóðina. Þeir eru með ummælum sínum og athöfnum búnir að grafa undan lífeyriskerfinu. Hafa reyndar notið góðrar aðstoðar nokkurra spjallþáttstjórnenda.

Þar er talað af fullkomnu ábyrgðarleysi og eins æði oft algjöru þekkingarleysi. Lítum til ummæla Kristjáns Möllers,kjördæmapotara veglagningar- og gangnamanns. Hann segist ekki hafa náð lífeyrissjóðunum niður á jörðina hvað varðar vexti. Bíddu aðeins, í lögum eru kröfur um lágmarksávöxtun, annars verði allir lífeyrissjóðir að skerða réttindi.

Annar ráðherra sem er reyndar í stjórn ofursjóðsins með ríkisábyrgðina sem við hin styrkjum með hækkandi sköttum, segir að það sé ekkert mál að lána úr þeim sjóð fullt af peningum á lágum vöxtum, það skipti engu því það sem upp á vantar verði bara sótt í sköttum á aðra landsmenn. Hans lífeyrisréttindi eru ríkistryggð.

Forsætisráðherra segir að það sé óskiljanleg níska!!?? í stjórnarmönnum lífeyrissjóða að hafa ekki afhent henni 200 milljarða til þess að greiða upp skuldir fólks. Af hverju fór hún ekki til bankanna og bað um bankabækur og tók út úr sparireikningum launamanna 10% af innlánsreikningum þeirra?

Á sama tíma rignir hér inn mótmælum sjóðsfélaga og kröfum um að lífeyrissjóðirnir séu varðir fyrir misvitrum stjórnmálamönnum sem séu blindaðir af lýðskrumi líðandi stundar. Forsætisráðherra sendir sjóðsfélögum tóninn og segirt níska þeirra standi í vegi fyrir réttlætinu??!!

Það er þetta fólk sem stjórnar landinu og setur því lög á Alþingi, en það vill ekki fara eftir þeim og lætur hafa eftir sér rök sem eru gjörsamlega fjarstæðukennd. Það liggur fyrir að ef tekið verður fjármagn út úr sjóðunum til þess að greiða upp skuldir annarra eða til óskaverkefna vega- og gangnalagningarmanna í kjördæmapoti, þá munu sjóðsfélagar taka sig saman og hefja málsókn gegn stjórnum sjóðanna.

Það liggur fyrir að 73% félagsmanna RSÍ, og reyndar eru samskonar niðurstöður til á fleiri stöðum, þar sem fólk hafnar þessari leið. Er ætlast til þess að stjórnarmenn og starfsmenn gangi gegn vilja meirihlutans, gegn gildandi landslögum og stjórnarskrá? Hvenær linnir þessu lýðskrumi?

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ertu búinn að lesa síðasta innlegg Egils Helgasonar um þetta efni? Það er býsna alvarlegt, þegar Egill tekur þennan pól í hæðina, því ótrúlega margt fólk tekur allt sem hann setur fram sem heilagan sannleika.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur
Það er eitt sem aldrei virðist vera í umræðunni en það er tekjutengingin á þessu bótakerfi. Einstaklingur með kr.70.000 úr lífeyrissjóði er að fá ca 147.000 krónur útborgaðar mánaðarlega og sá sem aldrei hefur borgað í lífeyrissjóð er að fá svipaða upphæð á mánuði. Sá sem er að fá kr.220,000 úr lífeyrissjóði er að fá ca 50.000 hærra, eða 198,000. Þannig að það er ljóst að sparnaður Ríkisins hlýtur að liggja í því að viðhalda öflugu lífeyrissjóðakerfi, því skerðing á bótum virðist lenda að 60-70% á Ríkinu í formi hærri greiðsla úr TR. Það er hægr að fara inná reiknivelar hjá tr.is og skoða þetta.
kv
Ólafur Bjarni

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur! Við erum nú yfirleitt sammála og í raun erum við það hvað fyrri helming pistilsins varðar.

Ég verð nú samt að segja að áður en þessir lífeyrissjóðir eru lofaðir og prísaðir - hverjir við erum skyldaðir að greiða í - þá langar mig að sjá skýrsluna góðu um lífeyrissjóðina og hrunið.

Mér skilst að um 800 milljarðar hafi tapast í hruninu hjá sjóðunum og að í þeim séu núna 1800 milljarðar. Niðurfellingin er sem sagt um 1/4 af því sem tapaðist í hruninu hjá sjóðunum!

Með góðri kveðju,

Guðbjörn Guðbjörnsson

Nafnlaus sagði...

Væri ekki athugandi að skoða hvort það sé "eðlileg" raunávöxtunarkrafa sem er bundin í lög, þ.e. 3.5%? Það má jafnvel halda því fram að þessi ávöxtunarkrafa sé í raun lamandi því hún ræður í raun svo miklu um almenna vexti í landinu vegna stærðar lífeyrissjóðskerfisins. Hvaðan kemur þessi 3.5% tala?
Hvernig væri síðan að lífeyrissjóðirnir tækju sig saman í andlitinu og upplýstu um það hversu mikið tap þeirra af slæmum fjárfestingum hefur áhrif á lífeyrisréttindi í samanburði við að slaka aðeins á ávöxtunarkröfunni.

Stefán Benediktsson sagði...

Einfalt. Þeir vilja ekki sjá Guðmundur.

Guðmundur sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Guðmundur sagði...

Egill Helgason hefur upplýst okkur bæði í aths. kerfum og ekki síður í þáttum sínum um að þekking hans á lífeyriskerfinu er ótrúlega lítil og skilningur hans á tilgangi kerfisins enn minni. Það að rugla saman gegnumstreymiskerfi og uppsöfnunarkerfi er t.d. algengt. Eða svo maður tali nú ekki um að telja að það sem menn borgi inn í kerfið fari í súginn ef menn fala frá fyrir aldur fram. Innlegg hans í lífeyrissjóðsumræðuna eru þar af leiðandi ómerkilegt bull, sem reyndar einkennist af ómerkilegri rætni. Leiðinlegt að þurfa að segja þetta því á öðrum sviðum eru innlegg Egils mjög góð.

Það hefur víða komið fram að tap lífeyrissjóðanna í Hruninu var 8% af nafnvirði sjóðanna. Sjóðirnir eru það eina sem stendur uppi eftir Hrunið og þeir eru þegar búnir að ná vopnum sínum. Það segir það sem segja þarf um stjórnum sjóðanna og einkennilegt að þurfa að endurtaka það reglulega. Í fréttum er daglega farið vendilega yfir hvernig allir landsmenn voru blekktir í gegnum bankakerfið. Þetta var reyndar gert í skjóli nokkurra ráðamanna.

Það eru margir sem hafa komið að máli við mig undanfarna daga, þar á meðal fyrrv. ráðherrar og þakkað fyrir þá vörn sem við höfum haft gagnvart lífeyriskerfinu.

Ef það væri eins og sumir vilja t.d. einn sjóður þá væru stjórnmálamenn ásamt efnamönnum þar í stjórn og eignir lífeyrissjóðanna hefðu farið með því sem þeir stjórnuðu fyrir Hrun. Það er hreint út sagt ótrúlegt að þurfa að benda þessum örfáu sem böðlast hér í aths.kerfinu með góðri aðstoð fávísra spjallaþáttastjórnenda á þessar staðreyndir.

Sjáið t.d. hver staða opinbera lífeyrissjóðsins er. Þangað hafa ekki einu sinni verið greidd iðgjöld, ávöxtunin fjarri öllu. Það liggur fyrir að það þurfi að hækka skatta á börnunum okkar um 3-4% til þess að sá sjóður geti staðið við skuldbindingar sínar.

Ef við myndum skipta um gjaldmiðil og losa okkur við þessa örmynnt sem stjórnmálamenn nota til þess að lagfæra hagstjórnamistök, með storkostlegum eignatilfærslum frá launamönnum til hinna fáu, þá væri hægt að lækka ávöxtunarkröfuna og eins að losa okkur við verðtrygginguna.

Þetta vita allir sem kynna sér hagstjórn af einvherru viti, annað er ómerkileg í óskhyggja og lýðskrumsyfirboð.

Jón Bragi sagði...

Alveg sammála þér Guðmundur. Það er mikilvægt að halda krumlum misviturra stjórnmálamanna og braskara frá lífeyrissjóðunum. Þegar þeir eru búnir að fara með allt annað til fjandans þá klæjar þá í fingurna að komast með lúkurnar í sjóðina okkar.

Nafnlaus sagði...

Það þörf á hugarfarsbreytingu hjá þjóðinni. Sjúkleg efnishyggja er ekki ný hún hefur verið í þjóðfélaginu í áratugi, en líklega verri núna en oft áður
ólafur

Nafnlaus sagði...

Tek undir þetta með Egil og þá menn sem hann notar í þáttum sínum til þess að níða niður lífeyrisskerfið og bera þungar sakir á saklaust fólk. Egill virðist rekin áfram af einhverju öðru en umhyggju fyrir eignum sjóðsfélaga. Hafið þið t.d. tekið eftir því að Egill bíður aldrei neinum af þeim sem þekkja vel til starfsemi lífeyrissjóðanna í þætti sína, einungis þeim sem setja saman einkennilegar Excel töflur byggðar kolvitlausum forsendum. Hvers vegna skildi það nú vera?

Þetta eru staðreyndir sem mikill meirihluti þjóðarinnar þekkir, en fámennur hópur vill ekki samþykkja. Það er sakir þess að okkur miðar ekkert í umræðunni. Þessi hópur með spjallþáttastjórnendur í broddi fylkingar hefur heltekið umræðuna og dregur þjóðarsálina sífellt lengra niður í þunglyndi og svartsýni.
Gunnar

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill og enn betra innlegg í kommentadálkinum
Hárrétt greining
Kv Haraldur