miðvikudagur, 15. desember 2010

Meiri jákvæðni

Hún hefur sannanlega verið einkennileg umræðan frá Hruni. Rekinn áfram af neikvæðni, rætni og heimtufrekju. Nái menn ekki sínu fram, þá er veist að þeim sem taldir eru standa í vegi með ógeðfelldum ásökunum. Þessari kröfuhörku hefur oft verið líkt við hátterni alkóhólista, hann vill fá meira að drekka, hann er á hröðum flótta undan sjálfum sér inn í framtíðina. Hafnar því að horfast í augu við sjálfan sig.

Sé skoðað hverjir viðhafa mestu ásakanirnar og hafa hæst skýrist málið. Hann hefur eytt um efni fram, var virkur þátttakandi í þenslunni og krefst þess hiklaust án umhugsunar að fá sparifé annarra til þess að fjármagna áframhaldandi neyslu. Hann er ekki virkur þátttakandi í stéttarfélögum, en veitist að þeim með uppspunnum dylgjum byggðum á þekkingarleysi.

Upp á þetta hefur okkur verið boðið í beinni útsendingu í ljósvakamiðlum og þeir sem stjórna þeirri umræðu hafa leitað uppi aðra sömu skoðunar til þess að fá staðfestingu á sinni skoðun. Niðurstaðan er ákveðin fyrirfram.

Nú er komið fram að það sem bent var á fyrir tveim árum og ekki verður lengur undan því vikist að horfast í augu við staðreyndir og fara að lögum og gildandi samningum. Svo einkennilegt sem það nú er þá hafa nokkrir stjórnmálamenn ásamt bæði fyrrv. og núverandi ráðherrum verið virkir þátttakendur í því að ala á væntingum um að sniðganga megi lög.

Er ekki kominn tími til þess að skipta um aðferðarfræði og hætta að ala á neikvæðni og innistæðulausum væntingum? Fyrir liggur eitt erfiðasta ár íslendinga, mikill niðurskurður og í undirbúningi eru kjarasamningar fyrir alla launamenn.

Talið er að nú flytji héðan um 10 fjölskyldur á mánuði, þetta er ekki atvinnulaust fólk, þetta er velmenntað fólk á besta aldri og er að flytja sakir þess að það er búið að gefast upp á því samfélagi sem hér hefur myndast. Ein helsta meinsemd íslensks samfélags að þar hefur ekki verið sátt um grunngildin. Þeir sem hafa haft valdið beittu brögðum til þess að tryggja völd sín enn frekar. Spilltu valdinu og nýttu stöðu sína til þess að hrifsa til sín eignir samfélagsins og skópu með því ófrið.

Í fyrsta kafla finnsku stjórnarskrárinnar stendur þessi yfirlýsing: „Stjórnarskráin skal tryggja friðhelgi mannvirðingar, frelsi og rétt einstaklingsins og stuðla að réttlæti í samfélaginu.“ Engin slík yfirlýsing er í hinni íslensku. Stjórnendur ljósvakamiðla ættu að hefja nýtt ár með því að endurskoða með hvaða hætti þeir geta stuðlað að meiri jákvæðni í umræðunni. Stjórnmálamenn vanda betur og ígrunda það sem þeir láta frá sér fara. Við verðum öll að taka höndum saman og vanda okkur ef ekki á að fara enn verr.

6 ummæli:

Hallur sagði...

Sæll Guðmundur.
Margt hefur þú skrifað sem fallið hefur mér vel, annað síður. Alhæfingar þínar um þá sem krafist hafa leiðréttinar á innistæðulausum verðbótum á fjármagni er í þeim flokki sem mér falla miður. Málið er ekki svart hvítt eins og þú gefur ítrekað í skin, lögum má breyta komi í ljós að þau eru óréttlát eða vinna gegn tilgangi sínum. Ég tek undir þá hugleiðingu þína að umræðan í þjóðfélaginu hefur verið einsleit, miðast við að drag fram hrillingsmyndir hrunsins en ekki að sýna raunveruleikan. Íkjudæmi þau sem ratað hafa á öldur ljósvakans eru ekki normið, fjölmiðlar hafa bruggðist í því að greina frá raunveruleikanum. Aftur á móti er málflutningur þinn ekki til þess fallinn að lægja öldur eða stýra í betri eða upplýstari farveg, "lýðskrumarar" og önnur slík orð eru ekki hófstillt orðfæri. Stilltu þínum sleggjudómum í hóf, þá munu margir fylgja á eftir.Við eigum öll sama rétt á réttlætinu, gerum ekki lítið úr tilburðum annara til að ná fram og túlka sitt réttlæti.
Það skal tekið fram að ég er launþegi og hef verið í 42 ár, alltaf greitt til stéttarfélags og í lífeyrissjóð. Ég fer fram á það að forsvarsmenn stéttarfélaga og lífeyrissjóða tali fyrir hönd umbjóðenda sinna en ekki eigin persónulegu skoðunum.

Nafnlaus sagði...

Góð grein,

Þegar vitnað er í stjórnarskrá og endurskoðun hennar, vakan spurningar.

Í 72 gr. stendur eingnarrétturinn varinn,, eða hvað????;;; þar stendur,,

"72. grein

Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir."


Til að hafa allt á hreinu i nýju stjórnarskránnni,,, þarf að bæta við,,,, Þetta ákvæði gildir þó ekki ef í hlut á ónýtur gjaldmiðill,, s.s. krónan,,, þar sem henni er leyfilegt að gera eignir almennings og fyrirtæja upptækar,,,, með gengissveiflum,, eftir geðþótta,,,, þá gildir,,,, eignir manna og fyrirtækja ,, MÁ gera upptækar,,,,eftir þörfum,,,,

Þessu þarfa að bæta við 72. greinina til að hún endurspegli veruleikann,,,

Nafnlaus sagði...

Hvernig væri nú að reyna að horfa hlutlaust á hvers vegna íslendingar á besta aldri eru að flytja erlendis í hrönnum?
Ætli það sé vegna neikvæðrar umræðu hér á landi? Eða kannski vegna raunhæfra möguleika á sæmilegri afkomu erlendis?
Hver er munurinn á að ala upp fjölskyldu á Íslandi og í nágrannalöndum? Jú, í Þýskalandi, Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Bandaríkjunum eru afleiðingar kreppu og tekjufalls mildaðar með því að raunvextir skulda minnka, eins og við sjáum í nýlegum fréttum t.d. frá Danmörku.
Hér á landi sér hin heilaga verðtrygging um það að skuldir lækka aldrei! Jafnvel þó rauntekjur, velta og neysla hrynji.
Erlendis neyðast fjármagnseigendur til að taka á sig hluta höggsins sem kreppan veldur. En ekki á hinu frábæra Íslandi - hér skal fjármagnið fá sína ávöxtun hvað sem tautar og raular, jafnvel þó engar raunforsendur séu fyrir því í hagkerfinu.
Hvort ætli sé nú betra fyrir fólk á fertugsaldri? Að búa við viðráðanlega greiðslu- og skuldabyrði í dag og næstu 10 árin. Eða horfa upp á skuldirnar vaxa þeim upp fyrir höfuð og geta varla veitt börnum sínum almennileg uppvaxtarskilyrði, en hugga sig við það að verðtryggingin heilaga muni veita þeim svo fínan lífeyri eftir 35 ár?
Ef ég hefði valið þá myndi ég hætta að greiða í lífeyrissjóð "med det samme" og nota þá aura til að standa í skilum með skuldirnar.
En þá væri ég sjálfsagt nefndur illmenni sem vill foreldrum mínum og öðrum núverandi og væntanlegum lífeyrisþegum allt hið versta.
Þannig að við skulum halda áfram að tilbiðja verðtrygginguna og hina heilögu ávöxtun lífeyrissjóðanna og annarra fjármagnseigenda.

Nafnlaus sagði...

Athyglisvert,

Mesta eignaupptaka sögunnar hefur sennilega átt sér stað með stórfelldu falli krónunnar 2008, sem ekki hefru verið leiðrétt, vegna þess hversu örsmá og viðkvæm hún er. Vegna þessa hefur átt sér stað einhver mesta eignaupptaka nokkurs ríkis, hjá almenningi og fyrirtækjum, án þessa að nokkrar bætur hafi komið fyrir. Annarsvegar í formi hækkunar á erlendum lánum og hinsvegar með hækkun vísitölulána.
Þetta er gert án þess að nokkrar bætur komi fyrir. Sbr. 72. gr. stjórnarskráinnar. Er annars ekkert að marka það plagg. Er þessi texti merkingarlaus í tilfellum - eignaupptöku með gegnisfellingum.

Nafnlaus sagði...

þetta er alveg rétt hjá þér, svona er meginhugsanagangur þjóðarinnar og því miður hefur hann ekki breyst mikið eftir hrun, alkóhólistinn notar áfengi en íslendingurinn lánað fé, það er alltaf reynt að fá lánað sem mest og það er eytt sem mest, það er Íslendingsins háttur. Svo þegar kemur að skuldadögum grenja menn að allt sé nú þeim sem lánaði að kenna, hann sé svo vondur (reyndar verður að taka fram líka bankar að lána fólki hægri vinstri í sumum tilvikum sem þeir vissu að hefði ekki efni á téðum lánum, það er óábyrgt en reyndar önnur umræða)
Ég reyni að vera jákvæður en eyndar get ég ekki verið mjög jákvæður með laun undir 200þús. Svo er ég líka svekktur hve stjórnvöld hafa frestað kreppunni og hún virðist bara teygja sig lengra af því að það var ekki tekið á henni í byrjun, fólki hér er haldið í voninni um að allt sé að skána en svo koma ömurlegar fréttir um niðurskurði, fleiri uppsagnir, skattahækkanir os.frv. , ég skil vel að fólk sé neikvætt en ég bið líka um meiri jákvæðni. Að kveikja á fréttum hér t.d. er eins og að kveikja á fréttum f. 2 árum, það er nánast enginn munur, alveg jafn niðurdrepandi

Guðmundur sagði...

Halli og til útskýringar þá upplýsist það að ég sit ekki við tölvuna og bíð eftir athsemdum. Ég var t.d. á ferðalagi í gær frá hádegi fram á miðja nótt. Mikið ofboðslega er þessi endalausa rætni og útúrsnúningaárátta leiðinleg.