þriðjudagur, 28. desember 2010

Getuleysi til vitrænnar umræðu

Það er hreint út sagt kostulegt að lesa sum þeirra bréfa sem menn senda inn í aths.kerfið. Þóttafullar tilskipanir og aðdróttanir með samblandi af afkáralegum já/eða nei spurningum til þess eins gert að draga athyglina frá viðkomandi pistils. Menn eru að lýsa yfir getuleysi sínu til málefnalegrar umræðu. Það er greinilegt að mörgum er umhugað að geta haldið áfram að senda reikning vegna rekstrarvanda til launamanna í gegnum gengisfellingar.

Sumir eru þeirrar skoðunar að ég megi ekki hafa skoðanir á pólitískum málum sakir þess að ég sé verkalýðsforingi. Þetta hefur verið viðtekin skoðun hjá tilteknum hópi manna sem tilheyra þeim Flokki sem hefur verið meir og minna við völd allan lýðveldistímann. Þetta er með því bjálfalegasta sem maður heyrir. Af hverju má ég ekki hafa skoðanir á stjórnmálum og setja þær fram? Þessi síða er ekki á vegum þess stéttarfélags sem ég vinn fyrir, það félag er með sína eigin síðu, rafis.is.

Mörg stéttarfélög, og þar á meðal það félag sem ég starfa fyrir, hafa sett fram þá skoðun að helsta verkefni í kjaramálum sé að taka til við að móta stefnu í atvinnumálum til langs tíma, þar spila gjaldmiðilsmál stóran þátt. Það sé ekki hægt að halda áfram á þessari braut. Þetta er grundvöllur kjarasamninga og það er í besta falli barnalegt að heyra menn halda því fram að forsvarsmaður stéttarfélags eigi ekki að hafa skoðun á þessu máli, það sé svo pólitískt??!! Þvílíkt bull.

Rafiðnaðarsambandið hefur gert kjarasamninga frá 1970 sem innifela um 3.600% launahækkanir. Á sama tíma hefur Danska sambandið gert kjarasamninga sem innifela 330% launahækkanir og þeir standa betur en við kaupmáttarlega. Það er gjaldmiðillinn sem skiptir mestu. Danir eru eins vitað er með krónu sem er fastengd við Evruna og það samband er bakkaðu upp með gjaldeyrisvarasjóði ESB. Samskonar samband og við gætum náð á tiltölulega stuttum tíma.

Þetta var að mati iðnaðarmanna helsta uppistaða hins svo kallaða Stöðugleikasáttmála og grundvöllur stefnumótunar til langs tíma, en stjórnmálamenn slitu þegar þeir tóku til við að stöðva aðildarviðræður við ESB, og fjármálaráðherra fór ásamt fleirum, þá helst þingmönnum Flokksins að mæra krónuna og láglaunastefnuna.

Ég hef oft svarað með því að setja saman viðbótarpistil, frekar en að eltast við dylgjurnar í aths.kerfinu. En það hefur orðið tilefni hinna einkennilegu til ógeðfelldra aðdróttana og spunaflétta. Engin þessara einstaklinga treystir sér til þess að svara þeim rökum sem sett eru fram í pistlunum.

Í dag er staðan sú að atvinnuleysi á Íslandi er meira, en á hinum Norðurlöndunum fyrir utan Finnland, kaupmáttur hefur fallið á Íslandi á meðan hann hefur verið að vaxa á hinum Norðurlandanna. Skuldir heimila launamanna á hinum Norðurlandanna tóku ekki stökkbreytingum. Þar liggja ekki í valnum 25% heimila viðkomandi lands.

Ástæða er að benda á að þær atvinnuleysistölur sem koma frá Vinnumálastofnun segja ekki alla söguna hér á landi. Á það hefur margoft verð bent, einnig hér á þessari síðu. Fjölmargir íslendingar hafa flutt af landi brott, og enn fleiri eru að fara, auk þess að þeirra er ekki getið sem hafa fallið af íslenskri skráningu.

Ein helsta ástæða þess að fólk er flytja er einmitt sú staða sem ég hef verið að gagnrýna, það eru svo margir sem berjast fyrir því að halda áfram á sömu braut með krónuna og vaxandi einangrunarstefnu, þetta drepur endanlega niður vilja fólks til þess að vera hér áfram. Ung menntað fólk er ekki að fara að vinna við fiskvinnslu eða í landbúnaði. Enda eru launin þar svo aum að íslendingar vilja frekar vera atvinnuleysisbótum.

Öll aukning atvinnutækifæra í rafiðnaði hafa verið í tæknigeiranum. Það hefur ekki verið nein aukning í fiskvinnslu, útgerð, landbúnaði, byggingarvinnu og orkugeira undanfarin 25 ár. Í þessum greinum vinna 1.500 rafiðnaðarmenn á meðan um 4.000 vinna í tæknigeiranum.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Alltaf gaman að lesa svona komment.
"Allt þetta kemur bara Evru og IKR ekkert við"

En.
Vinnan mín er ennþá jafnmikils virði, þrátt fyrir hrun og alles.
Ég þarf bara fá borgað í gjaldmiðli sem er einhvers virði.

mbk.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, sástu frétt um laun strætóbílstjóra á Íslandi og í Noregi?

Í Noregi hafa þeir 700 þúsund á mánuði í dagvinnu.

Á Íslandi 200 þúsund.

Segir þetta ekki allt sem segja þarf?

Og varðandi getuleysi til rökræðu þá er það stærsti vandi ísl. Þjóðarinnar.

Kemur til menntunarleysi og skorti á vönduðum upplýsingum sem kemur til vegna algjörs getuleysis fjölmiðla.

Nafnlaus sagði...

Það heyrir til undantekninga að athugasemdir séu málefnalegar. En það er hægt að sjá við því. Bloggið þitt er mjög skemmtilegt og málefnalegt. Það er meira en sagt verður um 90% af bloggi.