fimmtudagur, 2. desember 2010

Svarti Pétur lýðskrumaranna

Stjórnmálamenn hafa um langt skeið boðið landsmönnum upp á þann heimasmíðaða veruleika að sá kostur standi til boða, að þeir geti leyst efnahagsvandamál með því að ráðstafa sparifé launamanna, það er að segja ef það sé í almennum lífeyrissjóðum. Þingmönnum virðist það ekki skipta neinu þó landslög og stjórnarskrá standa í vegi fyrir þessu og stilla málum upp með þeim hætti, að það séu óbilgjarnir stjórnendur lífeyrissjóða sem standi í vegi fyrir því „réttlæti“ sem þeir boða.

Fréttamenn og spjallþáttastjórnendur hafa gleypt við þessu og úthúða starfsmönnum lífeyrissjóða og reyndar alla sem voga sér að benda á að þetta standist ekki.

Ráðherrar og þingmenn virðast telja að þeir geti einhendis samið við um starfsmenn ASÍ eða samtaka lífeyrissjóða um þessi mál, þessi afstaða er fullkomlega óskiljanleg og eitthvert ómerkilegasta lýðskrum sem sést hefur.

Um lífeyrissjóði gilda lög sem Alþingi setti árið 1997, þar eru settar mjög ákveðnar leiðir um meðferð þess sparifé sem sjóðsfélagar eiga í sjóðunum. Ef þingmönnum tekst þetta ætlunarverk sitt og virða með að vettugi landslög og stjórnarskrá, spyrja sjóðsfélagar hvar það fordæmi endi. Fjölmargir lögmenn halda því fram að slíkt sé í raun óheimilt og benda á eignarréttinn og jafnræðissjónarmið. Með því að samþykkja slíkt er líklegt að stjórnendur væru að kalla yfir sig persónulega skaðabótaábyrgð. Þetta verður ekki gert nema með því að kalla saman fundi sjóðsfélaga og kanna hug þeirra.

Lífeyrissjóðir hafa fylgt þeim starfsreglum sem ársfundir sjóðanna hafa sett, ef sjóðfélagar geta ekki greitt og eignir duga ekki fyrir skuldum, er tekið á viðkomandi máli. Enda hafa mjög fá mál á þeirra vegum farið í gjaldþrot. Úrræðin hafa verið kynnt, en þau ekki nýtt sakir þess að stöðugt er beðið eftir almennri niðurfellingu. Aðrar leiðir hafa ekki verið samþykktar enda eru þær ekki færar, sama hversu margar tunnur eru barðar og hvað lýðskrumarar á Alþingi lofa.

Starfsmönnum ríkisins er ekki ætlað að losa almenning úr skuldum með sama hætti og þingmenn ætla sjóðsfélögum á hinum almenna vinnumarkaði. Tugmilljarða niðurfærslur hafa í för með sér skerðingu lífeyrisréttinda fyrir sjóðsfélaga á hinum almenna vinnumarkaði. Á meðan þurfa sjóðfélagar í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins ekki að óttast slíka skerðingu enda réttindi ríkistryggð.

Sjóðfélagar á hinum almenna vinnumarkaði greiða því fyrir almenna niðurfellingu skulda annars vegar með skerðingu á sínum lífeyrisréttindum og hins vegar með hækkunum skatta og greiða það sem tapast hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Er til of mikil mælst að þingmenn kynni sér þessi mál með þeim hætti að hægt sé að nálgast viðfangsefnið af meiri fagmennsku.

Sjóðfélagar hafa greitt mislengi til lífeyrissjóða. Með almennum niðurfærslum skulda er verið að hlífa þeim er greitt hafa lítið til lífeyrissjóða á kostnað þeirra sem lengi hafa greitt. Miklu réttara að slíkar aðgerðir séu greiddar úr sjóðum almennings. Í skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið meðal landsmanna kemur fram að mikill meirihluti vill ekki að stjórnmálamenn geti tekið sparifé launamanna úr lífeyrisjóðunum og ráðstafað því. Auk þess liggja fyrir samþykktir funda sjóðsfélaga og t.d. hefur skrifstofu Rafiðnaðarsambandsins borist fjöldi símtala og tölvupósta þar sem þess er krafist að menn standi í fæturna gagnvart háværum minnihlutahópum og stjórnmálamönnum á atkvæðaveiðum.

Þingmenn eru enn einu sinni búnir að mála sig út í horn í lýðskrumi sínu og reyna á örvæntingarfullan hátt að koma Svarta Pétri yfir á almennu lífeyrissjóðina, með því að þverbrjóta landslög. Það er reyndar ekki óþekkt, í könnun sem gerð var fyrir 2 árum kom fram að liðlega 30% af framlögðum lagafrumvörpum hefðu stangast við lög eða stjórnarskrá.

19 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Veit ekki betur en að lífeyrissjóðirnir sjálfir hafi skert bætur til sjoðsfélaga upp á sitt einsdæmi, með gríðar áhættusömum fjárfestingum.

Eða voru bankarnir og útrásarvíkingarnir kannski Svarti-Pétur í þeim ákvörðunum?


Ó.Skúlason

Nafnlaus sagði...

"Þetta verður ekki gert nema með því að kalla saman fundi sjóðsfélaga og kanna hug þeirra."

Er þá ekki bara rétt að gera það
og fá fram hver er vilji þeirra?

Guðmundur sagði...

Já vitanlega verður að kalla saman sjóðsfélagsfund um þetta mál ef það á að ná fram ganga og einkennilegt hvernig málum er stillt upp í fréttum fjölmiðla.

Það er allavega kostulegt að mönnum detti það í hug að kalla til sín starfsmenn ASÍ og spyrja þá um þetta. Þeir hafa nákvæmlega ekkert með mál lífeyrisjóða að gera, nema tillögu rétt hjá þeim lífeyrissjóð sem þeir greiða til.

Þetta mál hefur verið til umfjöllunar meða sjóðsfélaga Stafa og er klárt hver afstaða þeirra er og hafa starfsmenn okkar unnið eftir því.

Ó. Pétur skilur greinilega ekki hugtakið Svarti Pétur

Arnar Ívarsson sagði...

Sæll Guðmundur.

Ég ætla að spyrja þig aftur að spurningu sem þú svaraðir ekki áður varaðndi verðtryggingu.

Er eðlilegt að skuldir lántakenda hækki við skattahækkanir?

Frægt er dæmið þegar hækkun opinberra gjalda á bifreiðar, bensín, olíu, áfengi og tóbak ollu því að skuldir heimilana í landinu hækkuðu um 8 milljarða.

Hvaðan komu þessir 8 milljarðar sem eru bókfærðir sem eign einn daginn, en daginn áður voru þeir ekki til.

Finnst þér þetta eðlilegt?

Nafnlaus sagði...

Guðmundur,

Það verður að hugsa lífeyrissjóða kerfið upp á nýtt.

Eins og það er rekið gengur dæmið ekki upp.

Aðkoma almennings er engin í dag.

Aðeins í skjóli þessa verður að líta svo á að greiðslur í lífeyrissjóðina í dag sé SKATTUR.

Kveðja,

Björn Kristinsson

Heiðar Kristinsson sagði...

Batnandi mönnum er best að lifa eða þannig og gott að stjórnir og forstöðumenn Lífeyrissjóða ætla nú að gæta hagsmuna sjóðfélaga. Í mínum lífeyrissjóðum sem og fleirum hafa réttindi verið skerrt um milli 20 og 30 % vegna rangra fjárfestinga sem ég minnist ekki að hafa verið spurður neitt um. Ég hefði glaður frekar viljað sjá þá skerðingu ganga uppí niðurkurð á óréttmættum verðtryggingum á lánum sjóðfélaga.
Heiðar Kristinsson

Nafnlaus sagði...

Góðir punktar.

Skuldavandi heimilanna verður aldrei leystur, nema með skammtímalausnum - samhliða langtímalausnum eins og að taka upp evru, með aðild að ESB sem allra fyrst - sem gæti gerst við aðild.

Það er ekki víst að Íslandi sé viðbjargandi - svo kyrfilega er landið fast í fortíðinni og hugarfari krónunnar - að krónuvandinn er ekki einusinni ræddur - frekar en fyrir hrun.

Þrárr fyrir það var fall krónunnar stökkbreyting lána og verðbólga í kjölfarið - stærsta orsök vanda heimila og fyrirtækja.

Það hefur tekist afar vel að heilaþvo þjóðina á því að vandinn sé ekki gjaldmiðlinum að kenna.

Þetta er svipaður heilaþvottur og var í Sovét - þar sem öllu öðru var kennt um ófarir í efnahagsmálum en kommúnismanum. Það kostaði algert hrun þeirra landa.

Þetta er mesta hagblinda landsins, sem líklega á eftir að kosta meira en orðið er.

Það ætti eiginlega að taka upp sérstakan kúrs - þar sem kennd væri hagblinda. Svo mikil þekking er á þessu sviði á Íslandi.

Stærsti vandinn - ónýtur og of lágt skráður gjaldmiðill - er ekki einusinni ræddur í þessu samningi - sem hluti af lausninni.

Hvað þetta varðar hefur ekkert breyttst frá því fyrir hrun.

Fyrst svo er, eru vaxandi líkur á að vandinn halda áfram að magnast - þar til annað hrun skellur á.

Eina lausnin er að samhliða fylgi lausn frá ónýtum gjaldmiðli, með upptöku evru sem allra fyrst - t.d. innan 2ja ára.

Nafnlaus sagði...

Auðvitað snýr það að Alþingi að lagfæra óraunhæfa ávöxtunar"kröfu" sem er að vísu markmið en ekki krafa.
En of lág prósenta inngreiðslna í sjóðina er ástæða háu ávöxtunar"kröfunnar" svokölluðu.
Lagfæra þarf inngreiðslurnar. Það er kvetjandi fyrir allt hagkerfið að snúa þessu þannig.
Annars tapa allir.

Guðmundur sagði...

Hvet menn eindregið til þess að lesa pistilinn og það sem þar stendur og lesa hann þá aftur.

Samandregið stendur þar: Það hefur ekki staðið á lífeyrissjóðunum að endurskoða stöðu fólks í samræmi við gildandi lög oghefur verið gert í þeim sjóð sem ég er í.

En það hefur aftur á móti staðið á stjórnmálamönnum að sýna fram á hvernig þær leiðir sem þeir hafa bent á standist lög og núverandi stjórnarskrá.

Stjórnmálamenn hafa dregið það í rúmt ár og eru sífellt á sama stað, því loforð þeirra standast ekki. Og leika nú það ómerkilega lýðskrum að koma af sér Svarta Pétri yfir á aðra.

Minni á nýlega fallna Hæstaréttardóma hvað þetta verðar.

Stefán Benediktsson sagði...

Til hamingju
með stjórnlagaþingskjörið Guðmundur og ég spái því að eftir svona eitt ár til viðbótar af tilraunum þínum til að efla skynsemi manna fáir þú amk bjartsýnisverðlaun Bröstes

Nafnlaus sagði...

Sammála þér Guðmundur. Neikvæð "Comments" eru vart svara verð gagnvart þessu innleggi frá þér. Ánægður með að þú skulir vera kominn á Stjórnlagaþing (og ekki í Egils Helga klíkunni!).
Kveðja,
Hlöðver Örn Ólason

Hervar Gunnarsson sagði...

Þakka þér fyrir Guðmundur. Alveg hjartanlega sammála þér eins og oft áður. Varðandi eignaréttinn þá skil ég alls ekki hvernig er hægt að skerða bætur mínar, sem hef lokið greiðslu til lífeyrissjóða, til að láta þá sem greiða í framtíðinni njóta þess. Þannig er gengið á eignarétt minn og öðrum færðar inngreiðslur mínar þrátt fyrir loforð síns tíma um núvirðingu.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur.
Mikið stóðstu þig vel gamli vinur í kastljósinu áðan í að verja það sem eftir er af lífeyrissjóðunum þeim almennu meina ég og einnig fannst mér þú halda vel upp þeirri staðreynd að lífeyrissjóður hvers og eins er skýlaus EIGN viðkomandi ekki eitthvað sem pólitíakusar geta notað til að leiðrétta mistök sín.
Kær kveðja. Logi

Bragi Jóhannsson sagði...

Ég held reyndar að það sé orðið löngu tímabært að stjórnir lífeyrissjóða fari að kalla saman almenna sjóðsfélaga og kanna hug þeirra. Bæði í þessu máli og líka um hvernig stjórnun þeirra á að vera háttað.

Burtséð hverjir eru í stjórn og hvernig þeir komust til valda, þá skiptir gríðarlegu máli að samhugur sé meðal sjóðsfélaga um meginlínur varðandi fjárfestingar og útgreiðslur.

Raunar svo miklu að fjárfestingastefna og útgreiðslustefna ætti að ráða því hvaða lífeyrissjóð einstaklingar velja sér að greiða í.

Fyrir mitt leiti vildi ég gjarnan geta greitt í eina af Lífeyrissjóðsdeildum Ríkisstarfsmanna.

Óvissan um fjárhagslegt öryggi í framtíð minni, af því að ég þarf að greiða í almenna lífeyrissjóðakerfinu, fer í taugarnar á mér.

Nafnlaus sagði...

Þegar verðbólguskotið kom eftir hrunið og gengisfall krónunnar, þá þótti stjórnum verkalýðsfélaga almennt að ekki væri við hæfi að krefjast kjarabóta vegna slæmra stöðu fyrirtækja. Fyrr á árum var það hinsvegar venja þegar verðbólga geisaði. Margir sjóðsfélagar eiga nú í efriðleikum með að standa skil á afborgunum skulda sinna og margir hafa tekið lífeyrissjóðslán. Þegar það virðist einsýnt að mörg þúsundum þeirra dugir ekki sú aðstoð sem fjármálafyrirtæki eru að bjóða þeim þá er verið að reyna að finna betri leiðir með aðstoð stjórnvalda, ef svo má segja. Það er auðvitað göfugt að stjórnir lífeyrissjóðanna ætli nú að reyna að standa betur vörð um hagsmuni sinna sjóðsfélaga en þeir gerðu á góðærisstímanum. En hagsmunir sjóðsfélaganna sem skulda lífeyrissjóðslán og ráða ekki við að borga af þeim eru augsýnilega ekki fyrst og fremst fólgnir í því hvort viðkomandi lífeyrissjóður geti varið verðbótargróðann, heldur að lífeyrissjóðurinn komi nú til móts við hann varðandi það að geta ekki borgað af lánunum eftir að téðar verðbætur voru lagða ofan á höfuðstól skuldarinnar.

Nafnlaus sagði...

Mér fannst þú koma mjög sterkur út í kastljósi kvöldsins, þessi hluti málsins með bómullarsjóðinn eins og þú nefndir hann ekki oft heyrst svona kröftuglega eins og hjá þér í kvöld.
Takk fyrir góðan þátt.
Stefán

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur
Ekki veit ég hvort þér finnst óþægilegt að fá hrós héðan úr herbúðum atvinnurekenda en ég ætla bara að þakka þér fyrir frammistöðuna í Kastljósþættinum í gær.

Mér hefur fundist vanta málsvara lífeyrissjóðanna sem taka fast á stöðugum árásum stjórnvalda og lukkuriddara sem sjá þá helstu leið til að bjarga fjármálum þjóðarinnar að ráðast að þeim einum sem tekist hefur að byggja upp á löngum tíma verulegan sparnað. Það verður að verja hagsmuni lífeyrissjóðanna mun ákveðnar en gert hefur verið og mér fannst þú gera það mjög vel í gær.

Kær kveðja Pétur

Nafnlaus sagði...

Flott frammistaða hjá þér í Kastljósi í kvöld. Þessi sjónarmið þyrftu að heyrast sterkar og meira!
Takk meira - meira Vigdís

Nafnlaus sagði...

Flottur - Gott að heyra í þér í Kastljósinu :)

kær kveðja
Olla