mánudagur, 6. desember 2010

Staðan

Gríðarlegan halla þjóðarbúsins verður að minnka með miklum og sársaukafullum niðurskurði. Samfara því verður að auka tekjur ríkissjóðs svo minnka megi vaxtagreiðslur á erlendum skuldum. Verðbólga verði það lág að vextir verði innan við 4,5%. Það þarf að skapa 20 þús. störf á næstu fjórum árum ef koma eigi atvinnuleysi niður fyrir 5%. Ef það tekst munum við á árinu 2013 hafa endurheimt þau lífskjör sem við bjuggum í upphafi froðu áranna 2006.

Næstu vikur geta haft mikið með það að segja hvert muni stefna á næstu misserum. Tekst að leiða til lykta deilum um hvernig taka eigi á skuldum heimila og fyrirtækja. Næst lending í Icesave málum. Tekst að skapa tiltrú og bjartsýni, þannig að einstaklingar og fyrirtæki fari að fjárfesta og skapa með því fleiri atvinnutækifæri. Eða verður stefnan tekin með yfirboðum og höfrungahlaupi í Karphúsinu, hækkandi verðbólgu og minnkandi kaupmætti?

Í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum heyrum við lýsingar á ógeðfelldum og fársjúkum viðskiptaháttum sköpuðum með Barbabrellum í bókhaldi og skammtíma hagræðingu. Gróinn fyrirtæki voru bútuð niður og seld skúffufyrirtækjum, sem tóku lán og keyptu hlutabréf í sjálfum sér. Fjármunum pumpað úr íslenska hagkerfinu og flutt í skattaskjól. Það er skoðun þessara manna að það sé hlutverk annarra að greiða skatta til samfélagsins og standa undir menntakerfinu, heilbrigðisþjónustunni og samgöngukerfinu. Það sé annarra að greiða þær skuldir sem þeir skilja eftir sig.

Við þurfum hugarfarsbreytingu ef atvinnulífið á að skapa 20 þúsund störf fyrir árið 2013. Það gerist ekki með því að fjölga störfum hjá ríkinu, það verður að gerast í atvinnulífinu með vaxandi verðmætasköpun. Styrkleiki okkar liggur meðal annars í miklum náttúruauðlindum, sterkum lífeyrissjóðum, hlutfallslega meira af ungu fólki en hjá öðrum Evrópuþjóðum. Helsti styrkleiki þjóðarinnar liggur í hugarfari; þrautseigju og mestu atvinnuþátttöku sem þekkist í vestrænu landi. Við megum ekki missa þennan styrkleika niður.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er búið að eyðileggja Íslenskt þjóðfélag með spillingu. Því verður ekki viðbjargað úr þessu. Allur samfélagssáttmáli hefur verið rofinn með spillingu og mismunun milli borgara. Líf sumra er eyðilagt meðan aðrir fá allar skuldir afskrifaðar. Svona eins og að senda suma í fangabúðir en veita öðrum stöðuhækkun

Eina leiðin er algjör bylting og niðurrif allra stofnana landsins og fá síðan utanaðkomandi til að stjórna landinu sem ekki eru glæpamenn.

Nafnlaus sagði...

Góð grein,

Spurningin er - á að byggja hús og kjör almennings á sandi (krónu) - eða kletti (evru). Engin umræða er um þetta atriði.

Afleiðing er að þjóðin siglir á stórhættulegri örmynt í björgunarhringjum (gjaldeyrishöft, o.fl). - þegar valkostur er á miklu mun stærri og öruggari farkosti (evru).

Verði gjaldeyrishöftum aflétt með krónuna má örugglega búast við nýrri kollsteypu gengis, verðbólgu og nýjum hörmungum - á sama hátt og þegar björgunarflot eru tekin af hálf sökkvandi smábát.

Stefnumörkun nú í kjarasamningum á evru með aðild að ESB - eftir 2 ár - gefur hinsvegar kost á mestu kaupmáttartækifærum sögunnar.

Slíkt gerist með styrkingu krónunnar þannig að eftir 1-2 ár væri búið að ná langtíma jafnvægisgengi - sem er lykil atriði við tengingu við erm2 - ef og þegar aðild væri samþykkt. Um leið og tenging við er komin á - er komið nægjanlet öryggi til að afnema að fullu gjaldeyrishöft.

Styrking gengis myndi lækka verðlag og lán, og gera Ísland á ný samkeppnishæft í launum við næstu lönd - þannig að fólk fengi á ný tækifæri hér á landi og þýrfti ekki að flýja land.

Aðild að erm2 eftir 2 ár - væri einnig forsenda fyrir erlendum lánum og erl. fjárfestingum á Íslandi sem kæmi framkvæmdum af stað.

Stóra spurningin er hinsvegar þessi.

Er stefnumörkunin á hættulegasta gjaldmiðli verladar áfram (krónuna) sem mun vald nýrri kollsteypu fljótlega - eða nýjan gjaldmiðl, evru, sem hefur burði til að standa undir alþjóðlegu trausti og opna Ísland á ný fyrir lánveitingum og fjárfestingum, sem er forsenda endurreisnar.

Nú kemur í ljós hvort endurtaka á mistök fortíðar enn og aftur. Mistök nú munu hinsvegar hafa skelfilegar afleiðingar.

Hversu mikil er samfélagsleg ábyrgð aðila á hinum ýmsu stöðum - til að horfast í augu við þennan veruleika. Það er kjarni málsins.

Athyglisverð grein um kostnað krónunnar.

http://www.visir.is/islensk-heimili-thurfa-ad-losna-vid-kronuna-/article/2010968764495

Nafnlaus sagði...

Má ég minna á nafnlaus að Írar höfðu evru og einnig Grikkir og Spánverjar og Portúgalar einnig. Það sem okkur sést alltaf yfir að engin gjaldmiðill hjálpar okkur ef við breytum ekki að kjósa alltaf það sama og síðast og fá þeim sem telja sig konungborna völdin. Vildi bara benda á þetta.

Nafnlaus sagði...

Góðir punktar,

Það er rétt. Hversu mikil er samfélagsleg ábyrgð þeirra sem telja sig vera fulltrúa hópa og almennings.

Hversu mikill er skilningur og ábyrgð þeirra - á þeim gríðarlegu ógn sem samfélaginu stafar af hættulegasta gjaldmiðli veraldar.

Kannski er samfélgslegs ábyrgð svo lítil að það er bara snúið út úr - og í raun stefnt af meiri hættum fyrir samfélgið, með því að stefna á endurtekinn krónuleik í gjaldmiðlaspilinu - þar sem spákaupmenn eru látnir leika sér að krónunni á kostnað almennings.

Er það hin samfélgslega ábyrgð aðila í raun?

Slíkt ábyrgðarleysi margra kom þjóðinni í seinasta hrun. Á að halda áfram á þeirri braut.

Verk manna segja miklu meira en tóm og merkingarlaus orð.

Nú er tækifæri á að sýna - hvað menn meina með samfélgslegri ábyrgð í stefnumörkun þjóðar í gjaldmiðlamálum, m.a. í kjarasmaningum.

Samborgarar og samfélgið býður eftir því svari.

Nafnlaus sagði...

Athyglisverðir punktar,

Eitt er þó ljóst. Styrkur og tækifæri einstakra landa eins og Íslands - er erfitt ef ekki ómögulegt að nýta - og gagnast því ekki - ef önnur atriði gera þessi tækifæri að engu s.s. ónýtur gjaldmiðill.

Þetta sést ágætlaga hjá Landsvirkjun - sem getur ekki farið í stór verkefni - þar sem fyrirtækið fær ekki erlend lán - þar sem Ísland er með ónýtan gjaldmiðil.

Ísland hefur ótal önnur tækifæri - en það segir nokkuð - að aðalskrifstofur allra stærsku fyrirtækja Íslands eru fluttar úr landi - Actavis, Marels og Össurar. Svo mætti áfram telja. Spurning hvenær fyrirtækin sjálf fara.

Tækifæri Íslands - s.s. á sviði orku, menntunar og tækniþekkingar - verða því að engu - þar sem þessi tækifæri eru einnig eyðilögð með - ónýtum gjalmiðli.

Merkilegt hvað Íslandi tekst að - skaða eigin tækifæri og gera að engu.

Með þessu ástandi er ekki bjart framundan - nema tekin verði afdráttarlaus stefna á nýjan gjaldmiðil.

Nafnlaus sagði...

Það er nokkuð rétt, tækifæri Íslands eru gerð að engu, með spillingu. Hluti af þeirri samfélagslegu spillingu er að vilja ekki rökræna umræðu um gjaldmiðlamál og framtíð Íslands.

Dæmi um rugl í umræðunni - er að reint er að hræða fólk með evrunni - með því að vísa í ástandið á Írlandi. Vandi Íra væri margfalt meiri ef þeir hefðu ekki evru - þar sem þeir hefði einnig sín vandamál og að auki stökkbreyttar skuldir eins og Ísland. Vandi Íra er óábyrg útlánastarfsemi, sem hefur ekkert með evruna að gera.

Vandinn í Kaliforníu - er miklu mun meiri en á Írlandi - af svipuðum ástæðum ofþenslu í mörg ár. Það er hinsvegar ekki dollarnum að kenna. Ástandið í Kaliforníu yrði margfalt verra - ef þeir hefðu ekki dollarinn.

http://www.visir.is/schwarzenegger-lysir-yfir-efnahagslegu-neydarastandi/article/2010152581828

Á sama hátt er vandi Grikkja spilling og óábyrg ríkisfjármál.

Þannig þarf að taka á vandanum á hverjum stað eftir - því hver hann er. Lækning fer eftir því hver sjúkdómurinn er.

NN sagði...

"Næst lending í Icesave málum."

Samkrull við atvinnurekendur, pólitík og peninga hefur blindað forystufólk stéttarfélaganna sbr. fylgisspektina við spillinguna í stjórn Kaupþings.

Síðustu áramót átti að beygja sig undir grímulaust ofbeldi Breta og Hollendinga á vettvangi AGS. Nú vilja vinirnir í SA og ASÍ aftur leggja Icesave okið á launþega vegna fjármögnunarhótanna. Auðvelt er að losna undan þessu ofbeldi með því að sýna andlit Cosa Nostra fjármagnsins innan NIB og CEB.

Icesave er hluti af kapitalkerfi frjálshyggjunar sem hannað var í City of London og Brussel. Almenningur í Evrópa á ekki að taka á sig ábyrgðalaust bankasukkið og kerfisklúðrið. Ríkisstjórnir Breta, Hollendinga og Íra eru brenndar og búnar að átta sig á þessu. Fleiri stjórnvöld eru að átta sig á þessu líka.

Hinsvegar eru íslensk stjórnvöld með harmkvælum að skera niður 1,3 milljarða í heilbrigðisþjónustunni og láta nú lævíslega leka út að Icesave sé ekkert mál því upphæðin er "aðeins" 60+ milljarðar, fyrir utan óútfyllta ábyrgð á endurheimtum í þrotabúa einkabanka. Íslenskir skattgreiðendur (þ.e. launþegar) ráða varla við að reka Austur Evrópu grunnþjónustu og geta ekki borið þessar byrðar líka.

Áhugi SA er mjög skiljanlegur því atvinnurekendur munu lítið borga í Icesave vegna 1000+ milljarða taps fyrirtækjanna sem verður nýtt út í hörgul skv. skattaráðgjöf PwC. Ætlar forysta ASÍ virkilega að taka þátt í því að þvinga Icesave skuldir upp á launþega með hótunum og endurunnum hræðsluáróðri?

Guðmundur sagði...

Á meðan menn ástunda jafnómerkilegan spuna og NN hefur í frammi er varla nema von að lítið miði. Enda þorir hann ekki að koma fram undir nafni

Nafnlaus sagði...

Tek undir með þér Guðmundur. Það er svo víða sem svo níðangursleg samsuðu birtist. Reyndar virðist þetta vera frekar fámennur en hávær hópur. Þessi hópur tröllríður aths. kerfinu og leggur sig fram um að splundra vitrænni umræðu.

Hann hefur ekkert til málanna að leggja nema dylgjur og samsæriskenningar.

Það sem veldur okkur mestu tjóni er að hluti þingmanna virðist hlusta á þetta lið.