laugardagur, 11. desember 2010

Niðurstaða Icesave-samninganefndar

Ég tek undir með þeim sem segja að það sé einungis eitt hægt að gera núna í Icesave málinu, taka hið nýja Icesave-samkomulag og afgreiða það sem lög frá Alþingi eins fljótt og hægt er og ljúka þar með einhverjum leiðinlegasta kafla umræðunnar sem frá Hruni. En eins og búast mátti við eru komnir fram menn með einkennilegar reikniskúnstir um að nú hafi af þeirra völdum unnist miklir sigrar.

Icesave er einn stór ósigur frá upphafi, ómerkileg brella sem lenti á þjóðinni. Hún er búinn að valda okkur miklum búsifjum eins og margir af forsvarsmönnum stærstu fyrirtækja landsins í orku og hátækni hafa bent á. Lánstraust er minna og orðspor Íslands hefur laskast mikið eins og ég bent á nokkrum pistlum þar sem ég hef verið að vitna til ummæla á erlendum ráðstefnum og fjölmiðlum.

Það er útilokað að vera með einhverja „ef og hvað ef“ útreikninga á hversu miklir fjármunir og tækifæri hafa glatast vegna áhrifanna á lánstraust Íslands og fjárfestingar í íslensku atvinnulífi. Nú liggur fyrir að reikningurinn sem sendur er til skattgreiðenda er samkvæmt nýja samkomulaginu aðeins þriðjungur af því sem hann hefði verið samkvæmt gamla samningnum. Reyndar má benda á endurskoðunarákvæði hins gamla samkomulags og fara á þeim forsendum út í „hvað ef“ pælingar.

Ef þeim sem ekkert kunna annað en átakaumræður tekst að róta upp moldviðri og taka til við digurbarkalegar upphrópanir og hafna því að afgreiða hið nýja Icesave-samkomulag, þá liggur fyrir áhættusöm dómstólaleið, jafnframt því að verið er að bjóða vinaríkjum Íslands í birginn og gefa alþjóðlegum fjármálamarkaði langt nef. Þá lægi endanlega fyrir að Ísland ætlaði ekki að standa við skuldbindingar sínar. Flestir þingmenn ásamt forseta okkar hafa rætt um óhagstæð kjör, en alltaf sagt að Ísland muni standa við skuldbindingar sínar, hvað ætla þeir að gera núna?

Ef við verðum dregin fyrir EFTA-dómstólinn mun það taka langan tíma og á þeim tíma mun uppdráttarsýki atvinnulífsins halda áfram með enn meira atvinnuleysi og minnkandi hagkerfi. Sem mun valda enn meiri niðurskurði og enn meiri landflótta.

Bara svo í lokinn (vegna venjubundinna aths.skrifa) ætal ég að benda enn einu sinni á að ég er ekki að óska eftir því að skattgreiðendur taki við Icesave reikningnum, heldur benda á að við verðum, þó ósanngjarnt sé, að standa við gerða samninga og skuldbindingar sem Íslenskir ráðamenn hafa undirgengist á undanförnum áratugum.

Bæti svo við uppbyggilegu ræðukorni úr bókum Alþingis :

Samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innistæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.
Til umræðu var 10 ára lán með 6% vöxtum og jöfnum greiðslum.

Alþingi 38. fundur 28. nóv. 2008 úr ræðu Bjarna Benediktssonar Sjálfstæðisflokki :
Virðulegi forseti. Mér sýnist nú sé að ljúka umræðu um þessa þingsályktunartillögu og málið sé á leiðinni til utanríkismálanefndar til frekari skoðunar. Hér með er óskað heimildar til þess að leiða til lykta samningaviðræður á grundvelli hinna sameiginlegu viðmiða sem liggja til grundvallar samningaviðræðum sem fara síðan afstað í kjölfarið. Þær voru eins og áður hefur komið fram í umræðunni hér í dag og reyndar áður grundvöllur fyrir því að greiða fyrir afgreiðslu lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Það er mjög áberandi hér í umræðunni að þátttakendur í henni telja sig sjá það fyrir eftir á að hægt hefði verið að fara aðrar og skynsamlegri leiðir, sem hefðu verið líklegri til þess að valda íslenskum skattgreiðendum inni byrðum en sú leið sem, málið hefur ratað í. Það er vísað til að mynda í lögfræðilegt álit í því samhengi.

Ég held að það sé afskaplega mikil einföldun á þessu máli öllu saman að telja í raun og veru að það hafi verið valkostur fyrir íslensk stjórnvöld að standa stíf á lögfræðilegri túlkun og halda henni til streitu, jafnvel fyrir dómstólum, hvort sem það væri á alþjóðlegum vettvangi eða hér heima fyrir íslenskum dómstólum.
....
Það er alveg ljóst að sú leið sem valin var og sá farvegur sem málið er í núna mun alveg örugglega skila okkur hagstæðari niðurstöðu en við hefðum fengið með því að láta reyna á rétt okkar og ef við hefðum síðan mögulega tapað þeirri þrætu fyrir dómstólum. Það er alveg öruggt.
....
Þegar heildarmyndin er skoðuð er tel ég að ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en að vel hafi verið haldið á íslenskum hagsmunum í þessu máli.

Engin ummæli: