Formaður Framsóknarflokksins fullyrti í Kastljósinu í gær að formaður Rafiðnaðarsambandsins fagnaði því að ríkisstjórnin leiðrétti einungis hluta skulda heimilanna. Þetta er ómerkilegt framhald lýðskrumsins sem tíðkast á hæstvirtu Alþingi.
Hið rétta er að formaður Rafiðnaðarsambandsins benti á í Kastljósinu síðastliðinn fimmtudag, að loks nú eftir mikið stapp væri að takast að fá stjórnmálamenn til þess að horfast í augu við það sem starfsmenn stéttarfélaganna hefðu haldið fram í tæplega tvö ár væri rétt.
Forsvarsmenn lífeyrissjóða ásamt umtalsverðum meirihluta sjóðsfélaga hafi ítrekað bent á þá lögfræðilegu staðreynd, ef sjóðsfélagar geta ekki greitt upp skuldir sínar og eignir duga ekki fyrir skuldum, þurfi að leysa mál viðkomandi með sérstökum aðgerðum. Einnig hafa legið fyrir samþykktir á annað ár frá sjóðsfélagafundum nokkurra lífeyrissjóða um að taka á vanda sjóðsfélaga í viðkomandi lífeyrissjóð, nákvæmlega það sama og verið er að ganga frá í gær. Því hefur ítrekað verið algjörlega hafnað að tekið verði sparifé launamanna í lífeyrissjóðum og það nýtt til þess að greiða upp skuldir allra í landinu, jafnvel eignamikilla þingmanna. Pirringur nokkurra vegna þessa felst nákvæmlega í þessari staðreynd, þeir geti ekki komið óráðsíu sinni yfir á aðra.
Í tæp tvö ár hafa legið fyrir nákvæmir útreikningar á þeim leiðum sem þingmenn og nokkrir einstaklingar hafa haldið fram, þeir útreikningar voru síðan staðfestir af nefnd sem þingmenn settu á laggirnar fyrir mánuði eða svo. Þessi úrræði voru kynnt, allavega í þeim lífeyrissjóð sem ég greiði til, í maí 2009 og er Alþingi loks nú að staðfesta það.
Fáir hafa nýtt þessa leið sakir þess að stjórnmálamenn hafa með skrumi boðað almenna niðurfellingu og færslu á sparifé launamanna til eignamanna, aðgerð sem er ólögleg. Það er óheimilt að fella niður skuldir ef eignastaða er jákvæð. Eigi að breyta því þarf að breyta stjórnarskrá og landslögum, skiptir þar engu hvaða skoðun menn hafa á þessu eða hvort skrifaðir hafa verið upp óskalistar um eitthvað annað og tunnur barðar.
Lögmenn hafa tekið undir þetta og bent á eignarréttinn og jafnræðissjónarmið. Þetta var staðfest í Hæstarétti fyrir skömmu. Með því að samþykkja slíkt væru stjórnendur lífeyrissjóða að kalla yfir sig persónulega skaðabótaábyrgð, eins og landslög kveða á um.
Það blasir við að þingmenn hafa valdið mörgum miklum skaða með því að draga á langinn raunhæfar aðgerðir og vakið upp og viðhaldið innistæðulausum væntingum hjá fólki. Það er ómerkilegt lýðskrum og fantaskapur gagnvart fólki sem er í vandræðum að gera slíkt. Þetta skafa þingmenn ekki af sér í Kastljósi með því að bera sakir á aðra.
Einnig má benda á einstaklinga sem hafa komið saman og skrifað upp óskalista og reynt að gera stéttarfélögin ábyrg fyrir því að þeir nái fram að ganga. Jafnvel þó óskalistarnir gangi gegn meirihluta samþykktum félagsmanna stéttarfélaganna. Svo einkennilegt sem það nú er þá hafa jafnvel þekktir spjallþáttastjórnendur og fréttamenn krafist þess að forsvarsmenn stéttarfélaga gangi gegn samþykktum sinna stéttarfélaga, ella séu þeir svikarar við almenning í landinu??!!
Stjórnmálamenn hafa á Alþingi látið sem svo að talsmenn óskalistana tali fyrir munn félagsmanna og með því vísvitandi lítilsvirt með því samþykktir meirihlutans. Hversu lágt komast menn í málflutningi sínum?
Þegar nú er endanlega flett ofan af lágkúrunni og lýðskruminu líður sumum illa og hafa ekki manndóm til þess að horfast í augu við eigin gjörðir.
3 ummæli:
Það er rétt að formaður Framsóknarflokksins er lýðskrumari en það merkilega er að læyðskrumið ber engan árangur. flokkurinn er nánast að hverfa í könnunum og vonandi af Alþingi að lokum.
Af hverju talar þú alltaf um þingmenn, alþingismenn og stjórnmálamenn og segir alla þessa lýðskrumara ?
Það hafa bara alls ekki allir verið að tala fyrir almennum flötum niðurfærslum.
Þú ert farinn að taka þátt í þeim ljóta leik að gera hróp að stjórnmálamönnum sem einhvers konar stétt (sem ekki er til).
Betra væri að sjá málefnalega umfjöllun þar sem gerður er munur á þeim sem tala fyrir leiðum sem þú ert sammála og hinum sem tala fyrir hugmyndum sem þú telur að gangi ekki.
Það er óábyrgt að lofa hlutum sem fyrirfram er vitað að standast ekki, og það er enn óábyrgara að eyað heilu ári í að þrasa um það á meðan þúsindir heimila eiga í vandræðum og atvinnulífið er þjakað af uppdráttarsýki vegna þess að allir halda að sér höndum í framkvæmdum á meðan beðið er eftir niðurstöðum stjórnmálamanna. Það er áóbyrgt að gera samninga við launamenn og svíkja þá jafnharðan og koma svo með enn meiri kröfur á launamenn.
Ég gæti haldið áfram og alltaf ver ég að tala um þingmenn.
Skrifa ummæli