mánudagur, 24. janúar 2011

Allt í hnút í Karphúsinu

Fundur var með samninganefndum ASÍ og SA í dag. Þar var farið yfir stöðuna og hún enn óbreytt. SA setur það fram sem skilyrði að lokið verði umræðum um kvótamál og aðspurðir kom það fram að þeim væri ekki nægjanlegt að viðræður myndu hefjast milli stjórnvalda og SA um þessi mál heldur yrði einnig að liggja fyrir efnisleg niðurstaða. Með öðrum orðum að SA vætlaði sér að taka öll stéttarfélögin í gíslingu, til að ná fram ásættanlegri niðurstöðu að þeirra mati.

Það má fullyrða með þokkalegum rökum að þetta muni tengjast umræðum um nýtingu orkuauðlinda. Hver verður endurnýjunarréttur og hversu langur verður samningstíminn? Reyndar má ætla að þetta mun að öllum líkindum leiða til þess að orkuverð muni hækka umtalsvert og líklega fara á svipaðar slóðir og það er í Noregi.

Samninganefnd ASÍ sá sér ekki annan kost en að slíta þessum viðræðum, þolinmæði félagsmanna heimilar ekki að þessar viðræður dragist fyrirsjáanlega í langan tíma. Þetta mun þá leiða til þess að samböndin innan ASÍ munu fara fram á að allar viðræður hefjist strax og stefnt verði að á kjarasamning til skamms tíma og reynt verði að þrýsta á viðræður eftir því sem styrkleiki hópana gefur tilefni til.

Í svörum ríkisstjórnar í dag kom fram að hún ætlaði ekki að leggja fram niðurstöður neysluviðmiðunar strax. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur í viðtölum undanfarið borið þungar sakir á verkalýðsfélögin gagnvart lágmarksbótum í almenna tryggingarkerfinu, það er reyndar Alþingi sem ákvarðar þessar bætur ekki verkalýðsfélögin. Það verður vart hægt að hefja viðræður um grunnlaun án þess að neysluviðmiðin liggi fyrir. Þannig að áframhald viðræðna er í raun í höndum velferðarráðherra.

Þessi staða setur öll mál í ákaflega flókna stöðu. Aukin hætta er á að viðræður þeirra hópa sem verst standa, launalega og atvinnulega, muni dragast verulega og þeir muni dragast aftur úr þeim hópum sem betur standa.

8 ummæli:

Stefán Benediktsson sagði...

Hversvegna eru stjórnvöld svona feimin við framfærsluviðmið eða lágmarkslaun?

Guðmundur sagði...

Það er nú það. Þetta gæti þýtt að viðmiðin sýni að hvort tveggja sé of lágt og það mun kosta almenna tryggingarkerfið gríðarlega fjármuni. Enn ein afleiðing falls krónunnar

Nafnlaus sagði...

Maður veltir óhjákvæmilega fyrir sér, vegna þess að maður veit að innan forystu samtaka atvinnulífsins er þokkalega vel gefið og ekki sérlega illa meinandi fólk, hvort það sé í svona miklum minnihluta, eða almennt kjarkleysi þjái það. Það er orðið ansi brýnt ef við ætlum að byggja þjóðfélagið upp aftur að menn eins og Friðrik J. Arngrímsson og Vilhjálmur Egilsson séu "settir á ís". Ef þessir arkitektar hrunsins eiga að sitja andspænis kjörnum fulltrúum launafólks og semja við þau um kaup og kjör undir þessum hótunum, sem þeir beita, þá verða engin spor stigin fram á við í átt til heilbrigðs þjóðfélags.

Nafnlaus sagði...

Þessi afstaða SA er næsta víst brot á vinnulöggjöfinni. LÍÚ hefur stjórnað þessu landi með hótunum og frekju og ótrúlegt ef þeim á að takast að taka alla launþega hér á landi í gíslingu til þess að vernda sína sérhagsmuni
Rúnar

Nafnlaus sagði...

Það má LÍÚ eiga, þeir eru snillingar í að skjóta sjálfan sig í lappirnar.Að stilla stærstum hluta vinnandi fólks upp við vegg,til þess eins að tryggja meinta eign sína á sameiginlegri auðlind okkar allra, gerir ekkert annað en að draga framm þann óhugnað sem fellst í núverandi kerfi.
Georg

Nafnlaus sagði...

Hafa útgerðarmenn þvílík völd að þeir geti heimtað og heimtað ? Fólk innan SA hlýtur að vera orðið þreytt á stöðugu frekjugarginu í LÍÚ að ég tali nú ekki um verkalýðshreyfingarnar, hvernig væri nú að berja hnefanum aðeins í borðið þó að æðarnar í Friðriki byrja að tútna út af frekju.
Hann stækkar ekkert og verður grænn, eða hvað ?

Eru völd útgerðamanna ekki byggð á einhverjum misskilningi, núna árið 2011 ?

kv, Atli

Nafnlaus sagði...

Nú segir Vilhjálmur Egilsson að SA muni ekki hvika frá kröfunni að samið verði um fiskveiðistjórnunina. Ekki sé hægt að ganga til viðræðna með mikilvæga útflutningsgrein í óvissu. Ef við gefum okkur að fulltrúar annarra greina í SA styðji þetta í raun og veru þá hljóta þeirra hagsmunir að falla að þessu. Hvert er þá markmiðið? Að draga það á langinn að samið verði? Að gera marga ólíka samninga?Að knýja fram verkföll og lagasetningu? Er ekki SA það örugglega ljóst að þeir eru að gefa ríkisstjórn fyrirskipanir eða setja henni skilyrði sem útilokað er að hún geti orðið við?

Nafnlaus sagði...

Það er augljóst af hverju stjórnvöld eru feimin við framfærsluviðmið og/eða lágmarkslaun:

Viðmiðið verður gagnslaust um leið og það verður gefið út.

Af hverju? Jú, af því að allt mun hækka jafnóðum - mjólkin næstu mánaðarmót, bensínið oft það sem af er ári, o.s.frv. - "blóðsúthellingarlaus leiðrétting" svo þeirra orð séu notuð.

Þetta er sama ástæða og Íslendingar eru ólæsir í fjármálalegum skilningi, það er algerlega ómögulegt að gera áætlanir og þess háttar í þessu þjóðfélagi; með þessa krónu og með þessum sjávarfrekjum.

Að mínu mati er algerlega augljóst hvað verkalýðshryfingin þarf að gera; semja um laun í erlendri mynt, t.d. DKK eða €. Hvort sem það sé gerlegt eður ei.

kveðjur,
Gunnar G