föstudagur, 14. janúar 2011

Óvissan á Suðurnesjum

Markmið með sjálfbærri þróun er að hver kynslóð skili orkulindum náttúrunnar jafnsterkum til næstu kynslóðar. Þegar rætt hefur verið um endurnýjanlegar auðlindir (sjálfbærar) hér á landi er oft talað um gufuaflið, eða varmaflæði frá iðrum jarðar til yfirborðs. Ferlið er í grófum dráttum þannig að með borholu er gufu og heitu vatni, sem hefur myndast á heitu bergi í iðrum jarðar hleypt upp á yfirborð og í stað þess kemur kalt vatn og kælir bergið niður.

Stefán Arnórsson jarðfræðingur hefur haldið því fram að orkan sem nú gengur kaupum og sölum sé því miður ekki eins endurnýjanleg og endalaus eins og menn gera ráð fyrir. Hún geti hæglega klárast á um fimmtíu árum ef nýtingaráformin eru ekki endurskoðuð. Því að þær orkulindir endurnýja sig ekki nema á um þúsund árum.

Stefán segir að rannsóknir sýni að það taki nokkrar aldir að ná sama hita í bergið aftur. Þetta hefur verið þekkt um alllangt skeið t.d. í jarðvarmavirkjunum í USA og víðar og hefur komið fram hér á landi. Einhverra hluta vegna hefur þessi umræða náð að takmörkuðu leiti til stjórnmálamanna, þegar þeir hafa farið um héruð landsins og lofað stóriðju í hverjum firði, alla vega í hverjum landsfjórðungi, orka landsins væri óþrjótandi.

En aðrir hafa bent á að umræða um Stefán kasti fram upplýsingum sem eru réttar í vissum skilningi, en gjaldfellir allt annað í leiðinni. Miðað við rannsóknir og rauntölum hjá OR er ekkert sem bendir til að jarðhitageymar kólni, svo framarlega að þeir séu virkjaðir rétt og nýta þá reynslu hafa íslendingar öðlast. OR er með allt að 80 ára gamlar tölur því til stuðnings, og þéttari skráningar á nýrri tölum, sbr. Laugardal, Elliðaárdal, Mosfellsdal og Nesjavelli.

Í þessum veitum sést mjög greinilega að ef dælt er of miklu upp úr holunni, þ.e.a.s. þannig að yfirborðið í holunum lækkar mikið, þá kólna svæðin. OR hefur fylgt ákveðið þeirri stefnu að taka ekki meir upp úr hölum en þær þola.

Það sem Stefán bendir hins vegar á er reynsla frá USA og það sem Suðurnesjamenn eru að upplifa sé afleiðing rányrkju. Ekki er fylgst með niðurdrætti í holum, þrýstingi og hitastigi. Ef rýnt er í orð hans, bendir hann vissulega á þetta; að með of mikilli dælingu mun bergið kólna vegna of mikils kalds vatns niður í jarðhitahólfin. Það er staðreynd - sem er margsönnuð hér á landi.

Þetta er í raun það sama og við fjallgöngumenn þekkjum vel og er nýtt í fjallaskálum, með stóran pott með vatni á Sólóeldavélinni, ef maður tekur smávegis úr honum á meðan vatnið sýður og bætir svipað við af köldu vatni, getur maður viðhaldið suðunni með margfalt minni orku en að tæma pottinn í hvert skipti, fylla og sjóða aftur. Hér má benda á að borholur á gatnamótum Laugavegs/Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar sem eru með þeim elstu í vörslu OR, sem eru enn 120 C heitar, eins og þær voru í upphafi.

Það er ekki hægt annað en velta fyrir sér orkupælingunum á Suðurnesjum. Satt að segja sé ég fyrir mér algera skelfingu þar - bæði með Magma og Enron tilburði þeirra, og hvaðan og hvernig HS ætlar að skaffa alla þessa orku þegar jarðfræðingar benda á að allt bendi til þess að svæðið sé nú þegar ofnýtt.

Hér spilar inn sú óvissa um hvort veiturnar á Hellisheiði sem nú að fara að nýta séu tengdar þeim sem þegar eru í notkun. Flestir virðast nokkuð vissir um að þetta séu aðskilin jarðhitasvæði - ef svo er, er mikil orka ónotuð þar. En ef ekki og svæðin eru samtengd, verða menn að hætta strax, annars gerist það sama og í USA og Stefán lýsir í greinum sínum.

Talið er að álbræðslan í Helguvík þurfi um 450 MW sem er um 150 MW minna en áður var áætlað, en í upphafi var fullyrt að nóg orka væri fyrirliggjandi til að reisa álbræðslu sem þyrfti um 600 MW. HS Orka er sögð munu útvega 250 MW, Orkuveita Reykjavíkur 120-140 MW og Landsvirkjun hefur sett fram loforð um 60-80 MW.

HS Orka ætlar að stækka Reykjanesvirkjun um 80 MW en flest bendir til að svæðið sé nú þegar ofnýtt enda hefur Orkustofnun ekki séð sér fært að veita leyfi fyrir stækkuninni. Þá hyggst HS Orka reisa 50 MW virkjun í Eldvörpum en þau eru hluti jarðhitasvæðisins í Svartsengi. Því er haldið fram að svæðið sé þegar fullnýtt. Um 130 MW eiga síðan að koma frá Krýsuvíkursvæðinu en tvær djúpar holur við Trölladyngju hafa gefið neikvæða niðurstöðu. Aðrir hlutar svæðisins virðast hafa svipaða eiginleika en þar hefur ekki verið borað sl. 40 ár.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þetta, Guðmundur. Hér er tengill sem vonandi snýr að kjarna máls: http://www.visindavefur.is/svar.php?id=4978. Það er að mínu mati augljóslega áhættusamt að ætla sér að taka nokkur hundruð MW umsvifalaust á jarðhitasvæði þar sem ekkert hefur verið virkjað áður. Jarðhitinn hentar miklu betur sem undirlag fyrir orkufrekan iðnað í smærri einingum en álverum.
Þorsteinn Vilhjálmsson

Nafnlaus sagði...

Guðmundur,
Hvar má sjá þessar greinar hans Stefáns?

Guðmundur sagði...

http://gudmundur.eyjan.is/2010/10/um-nytingu-aulinda.html

http://www.forsaetisraduneyti.is/media/utgefidefni/Skyrsla_um_HS-Orku-17092010.pdf

og svo má googla

Nafnlaus sagði...

Hefur eitthvað reynst ótakmarkað af gæðum jarðar? menn töldu ekki hægt að ofveiða síldina á sínum tíma. Það voru líka margir sem töldu að vatn væri ótakmarkað, þorskinn í sjónum ótakmarkaðan, loftið sem við öndum að okkur væri aldei hægt að tæma o.s.frv.

Meira segja ESB var að borga bændum fyrir að hætta að yrkja jörðina þar sem jörðin er gríðarlega frjósöm s.s. á Skáni. Í það rugl var eytt tugum ef ekki hundruðum milljarða, að láta bændur hætta að halda úti bústofni, og rækta eitthvað drasl sem engu skilaði. ESB borgaði bara styrki á móti. Nú hefur sem sagt komið í ljós að það er að verða matarskortur í heiminum, jafnvel á vesturlöndum. Snilligáfa Brussel náði ekki einu sinni að fanga þá staðreynd að gæðin eru ekki ótakmörkuð.

Af hverju ætti gufan og heita vatnið á Reykjanesi að vera ótakmörkuð? það eru 100% líkur á að svo sé ekki.

Því miður hefur ríkisstjórn Samfylkingar og VG staðfest samning um að það sé löglegt að selja ólöglegu sænsku skúffufyrirtæki HS orku, þrátt fyrir að líklega séu um 20% af sjálfráða Íslendingum búnir að skrifa undir mótmælaskjal gegn þessu. Ríkisstjórnin lætur sér samt ekki segjast, þumbast bara áfram í þessum málum. Þetta er víst stefna Samfylkingar, en VG halda bara áfram að svíkja sín loforð eins og þeir hafa gert síðan þeir settust í stjórn.

Suðurnesjamenn áttu SPKEF, Hitaveituna, Keflavíkurverktaka, nokkrar stærstu útgerðir landsins og fleiri og fleiri stöndug fyrirtæki. Það tók víst ekki nema þrjú ár að setja þetta allt á hausinn.

Nafnlaus sagði...

Það væri gaman að fá tilvitnanir í þessar rannsóknir og greinar sem þú vitnar í í greininni til þess að lesa og fá dýpri skilning. Ég finn ekki þessar greinar hans Stefáns t.d. í þesum slóðum sem þú bendir á. Langar að lesa meira, áhugavert.

kv, EGJ