föstudagur, 21. janúar 2011

Fáránleiki umræðunnar

Í því starfi sem ég er í kemst maður ekki hjá því að verða oft undrandi yfir ummælum þingmanna, og reyndar afstöðu sumra spjallþáttastjórnenda. Þar á ég við að það virðist ekki vefjast fyrir þessu fólki, að setja fram kröfur um að við, sem erum kjörnir til þess að vera í forsvari fyrir tiltekna hópa launamanna, göngum þvert á gegn samþykktum meirihluta félagsmanna.

Við höfum oft heyrt ummæli þingmanna, sem lýsa þeirri afstöðu þegar að er gáð, að þeim komi ekkert við hvert álit fólks sé, og afsakað með því að þeir fari eftir eigin sannfæringu. Öll þekkjum við að stjórnmálamenn eru til viðræðu 2 vikur fyrir kjördag og eru þar með allskonar loforð. Daginn eftir kjördag tekur við tæplega fjögurra ára tímabil þar sem þeir fara eftir eigin sannfæringu.

Það er sjálfu sér ekki nema von eftir það sem hefur komið uppá yfirborðið, að 50% landsmanna vilji taka þátt í kosningum stjórnmálaflokkanna, þar tilbótar ætlar einungis hluti þessa helmings að kjósa gömlu flokkana. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun er Sjálfstæðisflokkurinn með stuðning liðlega 20% kjósenda, Samfylking með um 12% stuðning, VG með um 8% og Framsókn með 5%.

Fyrir nokkrum dögum var fjármálaráðherra með fund á Akureyri, þar mættu 6 einstaklingar, ég var þar með fund nokkrum dögum síðar, þar mættu þriðjungur félagsmanna á svæðinu, eða um 50 manns. Ég er þessa vikuna búin að vera með 4 fundi víðsvegar um landið og á það fundi hafa mætt vel á þriðja hundrað félagsmanna.

Þar eru lagðar fyrir félagsmenn spurningar um hvað við í forystunni eigum að gera og hvernig bregðast eigi við hinum ýmsu málum. Vitanlega voru skiptar skoðanir um eitt og annað, en öll umræða var málefnaleg og jákvæð um starfsemi stéttarfélagsins. Ef við förum ekki eftir því, þá fáum við að finna fyrir því.

Það umhverfi sem mætir manni á félagsfundum, er allt annað en sú sem dregin er upp í spjallþáttum og í fjölmiðlum, í umræðum á netinu og svo maður tali nú ekki um ræður stjórnmálamanna, eða aths. dálkana í netheimum. Félagsmenn er vel meðvitaðir um stöðuna og vilja taka á vandamálunum með festu og ábyrgð. Einn svona fundur skilar 10 sinnum fleiri vitrænum skilboðum en koma fram í einu Silfri Egils.

Á skrifstofuna koma daglega liðlega 100 símtöl og um 50 tölvupóstar frá félagsmönnum, auk þess að starfsmenn hitta okkar fólk á kaffistofum og vinnustaðafundum. Þrátt fyrir þetta halda framangreindir einstaklingar því blákalt fram að verkalýðsforkólfar séu einangraðir og þekki ekki vilja félagsmanna. Nokkrir stjórnmálamenn og spjallþáttastjórnendur telj sig þekkja það betur en við!!

Ef við tökum nýlegt dæmi; Einn stjórnmálaflokkur og sjálfskipaður hópur fólks hefur barist fyrir því að 20% af skuldum fólks verði fellt niður. Eftir ítarlegar kannanir var kom í ljós að þessi leið væri einungis fær, teknir væru um 200 milljarðar af sparifé launamanna úr lífeyrissjóðum og nýttir til þessara hluta.

Í könnunum sem gerðar voru meðal launamanna, þar á meðal innan þess sambands sem ég stjórna, höfnuðu 83% sjóðsfélaga þessari leið. Ef hún yrði farin myndi þessi hópur stefna stjórnum lífeyrissjóða fyrir dómstóla fyrir brot á ákvæðum stjórnarskrár um eignaupptöku og jafnræðisreglum. Það væri verið að taka fjármuni sem nokkrir ættu og nýta þá til þess að greiða upp skuldir annarra. Í flestum tilfellum væri ekki verið að greiða upp skuldir eigenda þessa sparifjár.

Stjórnmálamenn og ýmsir aðrir fóru mikinn og lýstu vanþóknun sinni á forseta ASÍ, og reyndar hef ég verið nokkrum sinnum nefndur í þessu sambandi, og við sakaðir um að standa gegn hagsmunum fólks í landinu. Með öðrum orðum þess krafist að við gengjum gegn vilja meirihlutans og brytum um leið lög og stjórnarskrárvarinn réttindi.

Þessi umræða varð allsráðandi í spjallþáttum þar sem stjórnendur fóru hamförum í að ata okkur auri og kölluðu til viðtals þá sem vitað var að væru sammála þessari skoðun, til þess að búa til staðfestingu á sínu heimsmíðaða áliti. Aldrei var kallað á fólk frá hinum þögla meirihluta og forsvarsmanna þeirra í viðtöl.

Annað dæmi. Liðlega 92% félagsmanna ASÍ samþykktu að fara í þríhliða samstarf um að koma atvinnulífinu í gang, svokallaðan Stöðugleikasáttmála. Þessi yfirgnæfandi meirihluti samþykkt þessa leið á þeim forsemdum að af tveim mjög slökum kostum væri sú leið illskárri. Hin leiðin myndi leiða til þess að vinnumarkaðurinn yrði samningslaus og sérstakar hækkanir til hinna lægst launuðu myndu ekki skila sér, auk þess myndi ekki skapast möguleiki til þess að koma atvinnulífinu í gang.

Hluti af þessu stóðst en hluti þingmanna og stjórnmálamanna ekki. Ráðherrar sem skrifuðu undir samkomulagið hafna því að þeir hafi svikið launamenn, þeir hafi borið þetta undir þingið og stjórnmálamönnum fannst í fínu lagi brjóta samkomulagið og standa ekki við sinn hluta við launamenn, en kröfðust hins vegar að launamenn bæru sínar byrðar.

Þetta eru dæmigerð vinnubrögð stjórnmálamanna og þarf ekki að færa frekari rök fyrir því hvers vegna fólk fjölmennir á fundi í mínu stéttarfélagi, en mætir ekki á fundi stjórnmálaflokka og vill ekki vera þátttakandi í þeim farsa. Þetta er sambærilegt ef ég skrifaði undir kjarasamning fyrir hönd Rafiðnaðarsambandsins og hann samþykktur, en síðan tækju formenn aðildarfélaga RSÍ sig til og lýstu því yfir að þeim kæmi þessi samningur ekkert við.

Þetta segir okkur í raun allt um vinnubrögð stjórnmálamanna að þeim finnst í fínu lagi að gera samning við launamenn og krefjast þess að þeir standi við sinn hluta, en telja sig ekki þurfa að fara eftir undirrituðum samningum. Þá geti þeir farið eftir eigin sannfæringu (hentugleikum).

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er mjög sammála þessu.

Kærar þakkir fyrir skrifin og þessar upplýsingar.

Spjallþættir á Íslandi eru alveg furðulegir.

Furðulegastur er Silfur Egils þar sem fólk fær að blaðra út í eitt og afhjúpa fordóma sína án þess að stjórnadinn stýri umræðunni eða beri fram eitthvað sem nálgast það að vera vitrænar spurningar.

Ég bara skil ekki að ríkið sé með þennan þátt á dagskrá. Ég hef aldrei séð lélegri spjallþátt og jafn metnaðarlausa dagskrárgerð.

Nafnlaus sagði...

Tíminn til allsherjaruppstokkunar í stjórnmálum er brátt að renna upp.
Sigursteinn

Nafnlaus sagði...

Frábær greining á umræðunni. Pistlar þínir eru beittasti hnífurinn í skúffu launamanna.

Það er augljóst að umræðan er og hefur verið rekin áfram af hagsmunaðilum því hún er svo yfirgegnilega vitlaus stundum og það er verið að beina sjónum almennings frá hinum raunverulegu vandamálum.

Tek heilshugar undir yfirferð þína um stöðu stjórnmálaflokkana. En það segir reyndar margt um stöðuna hér að það séu enn 25% landsmanna sem styðja þann flokk sem er með á Alþingi þingmenn sem eru mað langa lista spillingar og mútunar á bakinu.

Einnig ef litið er til nýútkominnar bókar Guðna um Gunnar Thor.

Það segir manni að það eru þessi 25% sem hafa völdin í gegnum spillingu og gera allt til þess að halda völdum sínum.
Þorvaldur

Nafnlaus sagði...

Tek undir með Sigursteini, tími uppstokkunar í stjórnmálum er upprunninn. Sjálfstæðisflokkurinn er minnihlutaflokkur gjörspilltrar sérhagsmunastéttar sem er krabbamein á þjóðfélaginu. Landsmenn verða að sjá til þess að fram komi ný stjórnmálasamtök.

Nafnlaus sagði...

Fantagóður pistill. Greiningin vinnubrögðum stjórnmálamanna er hárrétt. Umræðan um lífeyrissjóðina og stéttarfélögin er svo fáránleg, að hún er greinilega rekin áfram af fólki sem óttast sterka málefnastöðu

Nafnlaus sagði...

Það er líka hálf asnalegt þegar einstaklingar sem eru í lífeyrissjóði ríkisins eru að biðja um að peningar almennu lífeyrissjóðana verði notaðir til að redda öllu.
Kv.Jón P

Nafnlaus sagði...

Það er líka fáránlegt þegar menn sem ekki borga í lífeyrissjóði, eða eru "verktakar" og eru að reyna að greiða eins lítið og þeir geta til samfélagsins og í lífeyrissjóðina, standa svo fremstir með kröfur um að sparifé annarra sé notað til þess að borga niður skuldir þeirra. Eins t.d. Egill Helga, Sölvi hjá Skjá einum, Heimir og þeir hjá Bylgjunni. Enda taka fáir mark á þeim.
Kv Þorri

Nafnlaus sagði...

Góður og þarfur pistill, vill fá svona reglulega, meira meira. Hér á landi er áberandi hvernig menn vaða alltaf í manninn en ekki málefnið. Það segir manni að viðkomandi er rakalaus, en það er svo einkennilegt að það er tekið undir þetta og raunveruleg umræða næst aldrei í gang. Það er svo oft slegið fram ómálefnalegum og rakalausum upphrópunum eins og vitleysa, þekkingarleysi, kjánaskapur og svo hin vinsæla klisja „staðreyndavillur sem ég nenni ekki að rekja“, en aldrei farið út hvað er átt við. Svona upphrópanir upplýsa okkur um að sá sem notar svona klisjur er mát, hefur engin gagnrök.

Nafnlaus sagði...

‎"Einn svona fundur skilar 10 sinnum fleiri vitrænum skilboðum en koma fram í einu Silfri Egils." - Góður pistill!
Kv Eiríkur

Nafnlaus sagði...

Það klikkar ekki að ef þú sleppir tveimur orðum úr pistlunum þínum (króna/ESB) þá er ég þér algjörlega samála:)

Helsta hætta lífeyriskerfisins eru stjórnmálamenn á vinsældarveiðum eða stjórnmálamenn í skítareddingum.

Verkalýðsforystan verður að láta stjórnmálamenn sæta ábyrgð fyrir svik sín við launamenn!

Hér verða engin raunverulegar umbætur nema með alvöru hagstjórn.