fimmtudagur, 20. janúar 2011

Staða kjarasamninga

Þessa dagana eru fundir innan stéttarfélaganna víða um land þar sem farið er yfir stöðuna við undirbúning kjarasamninga. Á ársfundi ASÍ í haust var samþykkt nær einróma að stefna á samræmda samninga, með því væri best varin staða þeirra sem verst stæðu á vinnumarkaði.

Þar kom fram að þau stéttarfélög sem eru með svokallaða millitekjuhópa, myndu ekki sætta sig við samskonar niðurstöðu og í undanförnum samningum. Það er að fá lítið sem ekkert út úr samningum, allt hefði farið í að hækka lægstu laun. Millistéttirnar væru að fara verst út úr Hruninu, hefðu orðið fyrir mesta kaupmáttarhrapinu, og hækkandi skattar og gjöld væru að lenda á þeim með mestum þunga.

Nú er sú staða að nokkrir vilja fara þá leið að hver hópur fari fram einn og sér og reyni að ná til sín eins miklum kjarabótum sem frekast er kostur. Um þetta er tekist einna harðast innan Starfsgreinasambandsins. Aðrir benda á að sú leið gæti ekki endað öðruvísi en svo að þeir sem minnst megi sín og búi við lakasta atvinnuöryggið muni sitja eftir. Þetta ætti sérstaklega við um svokölluð kvennastörf í heilsugæslunni og þjónustustörfum. Einnig eru taldar líkur á að þessi leið muni verða til þess að gerðir verði skammtímasamningar, sem muni valda vaxandi verðbólgu og auki líkur á áframhaldandi spíral niður á við.

Hinn kosturinn er að halda áfram á þeirri leið sem samþykkt var á ársfundinum og kanna til hlítar hvað langtímasamningur bjóði upp á, bæði hvað varðar launahækkanir, ekki síður kaupmáttaraukningu í skjóli stöðugleika og sú leið opnar fyrir þann möguleika að ná heildstæðu samkomulagi við stjórnvöld, sem margir telja grundvallaratriði hvað varðar tryggingu samninga og eins að ná fram kaupmáttarauka og koma atvinnulífinu í gang.

Þeir sem eru fylgjandi þeirri leið benda á að undanfarin misseri hafi ríkt kyrrstaða, sem er afleiðing af þrefi stjórnmálamanna um alla skapaða hluti og á meðan haldi allir að sér höndum hvað varðar framkvæmdir. Hagkerfið er keyrt áfram af einkaneyslu en engin fjárfesting er í gangi. Ef haldið væri áfram á þeirri braut geti það ekki leitt til annars en vaxandi erfiðleika.

Til þess að greina stöðuna betur þarf að velta fyrir sér hvaða hópar séu varðir í dag? Ef ekki næst samstaða er mestu líkur á að nokkrir hópar dragi til sín það sem til skiptana er og þeir sem minna mega sín sitji eftir. Nokkrir hópar hafa skjól af ónýtri krónu, en það muni verða á kostnað þeirra hópa sem hafa orðið fyrir miklum búsifjum vegna krónunnar.

Á fundum sem ég hef verið á undanfarna daga víðsvegar um landið og hitt þar á þriðja hundrað rafiðnaðarmanna, hefur komið fram skýr krafa um að ef samið verði tveggja eða þriggja ára verði að vera trúverðug endurskoðun á samningstímanum, sem verði bundin við hvert samband ekki heildina. Auk þess að ríkisvaldið komi með skýrum hætti að þeirri tryggingu.

Helst hefur verið horft til þeirrar leiðar að sérstök krónutöluhækkun komi á lægstu taxta sem leiðir til þess að þeir fengju hlutfallslega meiri launahækkanir en þeir sem hærra eru launaðir.

Við launamönnum blasir sú staða að starfsmenn fyrirtækja eru í samkeppni við bankana um þá lausu peninga sem eru í fyrirtækjunum. Bankarnir nýta sér stöðu sína og hrifsa allt lausafé út úr fyrirtækjunum áður en rætt er við starfsmenn og um laun þeirra. Eigendur fyrirtækjanna eru að greiða sér arð jafnvel þó eiginfjárstaða sé öfug og það sé ólöglegt. Eitt meginverkefnið í yfirstandandi kjarasamningum er að taka á siðferði í atvinnulífinu. Launamenn eru oftast algjörlega hlunnfarnir og fjármagnseigendur sitja að kjötkötlunum.

Fjölmargir halda því fram að það væri ábyrgðarleysi að kanna ekki til hlítar hvað launamönnum standi til boða með samstarfi á vinnumarkaði, ekki sé hægt að hafna einhverju sem ekki væri þekkt. En þolinmæði fólks fer minnkandi og það vill fá sem fyrst niðurstöður í þessar könnunarviðræður.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Athyglisvert,

Grunnur kjarasamninga er gjaldmiðillinn og verðlagið. Á Íslandi er gjaldmiðillinn afar hættulegur, sem skapar mikla ógn
fyrir allt hagkerfið.

Að byggja kjarasamninga á krónu, er eins og að byggja hús á sandi.

Það furðulega i þessu máli er að, margir virðast ekkert læra og ætla sí og æ, að endurbyggja hrunin hús á sama ónýta sandinum, sem hrynur í næsta flóði.

Nú er hinsvegar staðan allt öðruvísi en áður og miklu hættulegir. Það er ekki hægt lengur að endurbyggja hús á ónýtum krónusandi, þar sem aðstæður allar eru miklu hættulegri og sandurinn hrynur strax aftur. Það verður að finna nýjan grunn til að byggja á.

Það eru hin miklu tímamót sem of fáir skilja.

Langsamlegasta sterkasta leiðin, er að byggja á öðru efni, bjargi (evru) strax við samninga eftir 2 ár. Það er hægt með því að Ísland setji evru sem skilyrði frá samþykkt samninga.

Slíkum samningi er vel hægt að ná, með góðum samningamönnum, ef Ísland hefur fyrir því að berjast fyrir slíku máli. Það er hin raunverulega sjálfstæðisbarátta, nútímans.

Kjarninn er að hafa hugrekki til að setja fram slíkar kröfur. Það er munurinn á góðum samningamönnum og öðrum.

Það er fullt af fólki sem segir "þetta er ekki hægt", en flestir sem slíkt hugsa ná yfirleitt ekki langt, því þeir gefast upp fyrirfram, þeir eru ekki keppnismenn, því þeir gefa leikinn fyrirfram. Það væri lítið gagna að hafa slíka aðila í erfiðum verkefnum, s.s. handboltaliðinu.

Á örlagastundu heillar þjóðar, getur kjarkur til að ná árangri í gjaldmiðlamálum, skipt sköpum fyrir framtíð þjóðarinnar.

Takist slíkar kröfur ekki, er litlu að tapa, menn hafa þá reynt eins og hægt er, og geta verið sáttir. Gríðarlegur ávinningur væri fyrir þjóðina tækjust hinsvegar slíkar kröfur.

Það er hollt að minnanst orða Nelsons Mandela, í þessu sambandi þar sem reyndi margoft á kjark.
„It always seems impossible until its done“.

Nafnlaus sagði...

merkileg grein.
kristrún

Nafnlaus sagði...

Eina krafan sem skiftir máli í næstu kjarasamningum er verðtrygging launa, fyrir því má færa öll sömu rök og eru fyrir verðtryggingu skulda. Fullkomlega fáránlegt að verkalýðshreyfingin skuli styðja verðtryggingu skulda.

Nafnlaus sagði...

Öll önnur baráttumál en verðtrygging launa eru bara til að kasta ryki í augu almennings. Legg til að þetta verpi eina krafa verkalýðshreyfingarinnar í komandi kjarasamningum.

Nafnlaus sagði...

Verðtrygging launa er eina krafan sem máli skiftir, á meðan laun eru óverðtryggð skiftir engu máli hvað annað samið er um í kjarasamningum.

Nafnlaus sagði...

Kjaraviðræður á íslandi eru nú ekkert annað en leikhús fáránleikans meðan laun eru óverðtryggð en skuldir verðtryggðar.

Guðmundur sagði...

Alveg sammála því að tryggja verði grunn kjarasamninga. Enda hef ég skrifað fjölmarga pistla þess efnis hér á þessari síðu.

En ég kannast ekki við að að verkalýðshreyfingin berjist fyrir verðtryggingu skulda. Sit þó allmarga af sameiginlegum fundum inna verkalýðshreyfingarinnar. Hef aldrei heyrt þetta.

En á það heufr verið bent að ef menn vilja losna við verðtryggingu, tryggja lága vexti, og tryggja kaupmátt er einunigs ein leið til frambúðar, það er að skipt aum gjaldmiðil.

Nafnlaus sagði...

Ef laun eru verðtryggð er búið að núlla út neikvæð áhrif verðtryggingar fyrir launþega. Þetta fyrirkomulag að hafa verðtryggingu skulda en ekki launa gerir að að verkum allur kostnaður af hagstjónarmistökum leggst á þá sem skulda verðtryggð lán. Að sama skapi er ómögulegt að semja um kjarabætur í slíku umhverfi þar sem í raun er verið að semja um laun í öðrum gjaldmiðli en skuldir og útgjöld meginþorra launafólks eru í. Í því ljósi á fyrsta krafa verkalýðshreyfingarinnar að vera að verðtryggja launin. Þegar það er í höfn er hægt að semja um raunverlulegar kjarabætur. Að skifta um gjaldmiðil og fá evru gerir auðvitað sama gagn en er nú tæplega að fara að gerast alveg á næstunni. Ef menn vilja vera í umhverfi þar sem vextir eru lágir þarf hagstjórnin að vera í lagi, ekki er nú sagan hagstjórnar á Íslandi hingað til með þeim hætti að hún gefi ásæðu til bjartsýni. Kom ríkisstjórnin ekki að máli við verkalýðshreyfinguna um að frysta vísitöluna snemma árs 2008 þegar sýnt var að verðbólga færi úr böndunum og lögðust ekki fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar gegn því?

Guðmundur sagði...

Ég kannast ekki við það, það var allavega aldrei borið undir okkur í Rafiðnaðarsambandinu
kv GG

Nafnlaus sagði...

Gylfi Arnbjörnsson, hagfræðingur og formaður Aþýðusambands Íslands, var formaður starfshóps sem Jóhanna Sigurðardóttir skipaði til að bregðast við vanda lántakenda vegna verðtrygginga. Kannski ekki rétt að setja samasem merki milli hans og verkalýðshreyfingainnar. er alls ekki að setja samasemmerki milli hans og þín.