sunnudagur, 23. janúar 2011

Umræðan út á mörkinni

Hef verið á fundaferðalagi þessa viku og hitt tæplega 300 félagsmenn. Fyrir utan undirbúning kjarasamninga, hefur umræða um lífeyrismál verið efst á baugi. Það er reyndar ekki nýtt á fundum innan Rafiðnaðarsambandsins, málefni lífeyrissjóðsins eru ætíð til umræðu á fundum og oftast er einhver af starfsmönnum sjóðsins boðaður á fundina til þess að svara spurningum félagsmanna.

Það kemur mér alltaf jafn þægilega á óvart hversu upplýst umræðan er á félagsfundum, þá á ég við að maður er líklega of litaður af fjölmiðlaumræðunni og netinu. Fundarmenn hafa bent á að sú umræða sem fram fer í spjallþáttum, sé augljóslega vísvitandi og markvisst dregin inn á villigötur þar sem athyglinni sé beint frá hinum raunverulegu meinum samfélagsins.

Tekist hefur að halda athyglinni á lífeyrissjóðunum, og stéttarfélögunum undanfarna mánuði, þar sé að finna hina helstu banditta þessa samfélags sem leiddu það í Hrunið. Aðalleikurunum í Rannsóknarskýrslunni hefur tekist að pumpa þessa umræðu áfram og fengið til þess góða aðstoð frá mönnum sem starfa sem verktakar, ekki félagsmenn í stéttarfélögum. Menn sem reyna allt til þess að greiða sem minnst til samfélagsins, en eru jafnfram með miklar kröfur um samfélagslega aðstoð og jafnvel að tekið sé sparifé launamanna í lífeyrissjóðum og það nýtt til þess að greiða upp skuldir þeirra.

Fjárhagslegt tap í Hruninu var liðlega 15 falt samanlagðar innistæður í lífeyrissjóðunum og 30 sinnum meira en heildartap lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðirnir voru einu fjármálastofnanirnar sem komu standandi út úr Hruninu. Þrátt fyrir þessar augljósu staðreyndir tekst Hrunverjum að draga umræðuna í það plan að starfsmenn lífeyrissjóða og stéttarfélaga séu spilltastir allra. Þar fari glæpamenn sem ganga um með logsuðutæki og handrukki iðgjöld og standi í vegi fyrir hækkun launa.

Starfsmenn lífeyrirssjóða fara eftir settum lögum og starfsemi líferyissjóða, þar á meðal er það skylda þeirra að sjá til þess að skilað sé þessu sparifé launamanna ísjóðina, sem er hluti launa þeirra. Ástæða er að minna á að ef kerfið yrði lagt niður þá myndu allar örkorkubætur og lífeyrisgreiðslur lenda á almenna tryggingarkefinu og það þyrfti að hækka skatta um 12°- 15%.

Stéttarfélög semja ekki við hvert annað um laun. Allir vita að starfsmenn stéttarfélaga eða trúnaðarmenn á vinnustöðum hafa enga hagsmuni af því að halda launum niðri, en samt þrífst umræða byggð á þessum rakalausu fullyrðingum. Örfáir nytsamir sakleysingjar úr verkalýðshreyfingunni taka undir þessa umræðu. Að því virðist til þess eins að ná inn í spjallþættina og fá viðtöl í fjölmiðlum og eru þar nýttir ótæpilega af þeim sem hafa hag af því að halda umræðunni þarna og eru fastir gestir spjallþáttastjórnenda fengnir til þess að níða niður félaga sína úr verkalýðshreyfingunni.

Í þeim dómsdagspám sem birtar hafa verið um lífeyriskerfið, er augljóslega verið að blanda saman tveim ólíkum kerfum annað hvort vegna þekkingarleysis eða vísvitandi, almenna lífeyrissjóða kerfinu og svo hinum ríkistryggða lífeyrissjóði tiltekinna opinberra starfsmanna, þar sem ávöxtun skipti engu máli. Það sem upp á vantar er einfaldlega sótt í ríkissjóð, réttindi aldrei skert og skuldastaða ríkisins við þann sjóð vex með hverju ári. Þar er verið framvísa vandanum á börn okkar. Það er óþolandi að sumir búi við ríkistryggð réttindi á meðan öðrum er gert að standa undir þeim réttindum og á sama tíma að búa við skerðingar í sínum sjóðum.

Ef ávöxtunarkrafa yrði skert, yrði strax að skerða réttindi umtalsvert, eða sækja það sem upp á vantaði í ríkissjóð til þess að standa undir því að tryggja sjóðsfélögum 60% af meðallaunum út lífaldurinn, sem í dag er um 80 ár, þær upphæðir nema hundruðum milljarða króna. Í þessu sambandi yrðu menn að velja á milli hækkunar skatta um 3 – 5% eða hækka iðgjald og samkvæmt nýlegum útreikningum mætta ætla að hækka þyrfti iðgjaldið um 5%, sem þýddi að menn fengu ekki launahækkun á næstunni, hún myndi renna beint í lífeyrissjóðina.

Ef ætlast er til þess að lífeyrissjóðir geti staðið við skuldbindingar sínar og tryggt lífeyri allan lífaldur sjóðsfélaga þá þarf að líta til þriggja ráðandi þátta.

• a) Lífeyrisaldri og örorkubótum, margar þjóðir eru að hækka aldurinn úr 60 - 65 upp í 67 ár til þess að mæta hækkandi meðalaldri, undir háværum mótmælum almennings.

• b) Iðgjaldi, margar þjóðir hafa verið að hækka iðgjald og það er sumstaðar komið í 16 - 18%. Iðgjald hins opinbera í LSR er umtalsvert hærra en í almennu sjóðina auk rausnarlegs framlags. Vilja launamenn láta af hendi þá launahækkun sem í boði er til þess að hækka iðgjaldið?

• c) Ávöxtun sjóðanna. Ef ávöxtunarkrafa er tekinn niður eins og rætt hefur verið um, þá verður að skerða lífeyrisrétt þeirra sem nú eru á bótum umtalsvert strax umtalsvert. Það er að segja í almennu sjóðunum, ekki hins opinbera það er sótt í ríkissjóð.

Það liggur fyrir að ef lífeyrissjóðirnir verða að hafa möguleika til þess að ávaxta hina miklu fjármuni sem þar eru þá verða þeir að geta fjárfest erlendis. Það eru ekki nægilega góðir fjárfestingarkostir fyrir hendi á Íslandi. Auk þess má velta fyrir sér hversu örugg fjárfesting það sé ef nánast allar fjárfestingar séu í bréfum með ábyrgð íslenska ríkisins. Hversu öruggt er það?

Hvað varðar ávöxtunarkröfu og verðtryggingu þá er ætíð valinn óhagstæðustu tímabilin og sakir bornar á lífeyriskerfið. T.d. má benda á að þeir sem fengu lán til þess að kaupa húsnæði á árunum 1993 - 1996 og seldu það á árunum 2006 - 2008 nánast tvöfölduðu eign sína. Benda má önnur tímabil þar sem fólk hagnaðist og svo vitanlega önnur þar sem fólk kom öfugt út. En það í raun kallar á endurskoðun grunnþátta og þar koma menn alltaf að hinum sveiflukennda gjaldmiðli.

Á fundum kom fram að það væri mun betra fyrir launamenn að taka á þessum vanda í þríhliðaviðræðum við stjórnvöld og fyrirtækin og þetta væri eitt af helstu verkefnum komanda kjarasamninga. Sé litið til farins vegar hefði það verið skelfilegt ef stjórnmálamenn hefðu haft greiðan aðgang að þessu mikla sparifé launamanna.

Einnig var bent á hversu misjöfn staða lífeyrisjóðanna væri, það væri l´jost að margir gerðu sér enga grein fyrir því. Ávinnslustuðull er frá því að skila um 56% af meðallaunum í lífeyri upp í um 80%. Ef sjóðirnir yrðu sameinaðir myndi það þýða um 25% skerðingu í lífeyrissjóð rafiðnaðarmanna.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Fínn pistill - þessi tónn meðal félagsmanna okkar er mjög almennur, fann það þegar ég heimsótti stjórnir allra aðildarfélaganna í haust! Það eru þessir fáu hávaðasömu sem fá athygli fjölmiðlanna, enda ,,ódýrt og hagkvæmt að endurvarpa þeim á rásum ljósvakamiðlanna'' frekar en leggjast í rándýra leit að raunveruleikanum - þetta sem einu sinni var kallað ,,fréttamennska''!
Gylfi

Nafnlaus sagði...

Sammála - mjög góð grein! Fólk almennt er mun skynsamlegra en flestir stjórnmálamenn. Hversvegna nákvæmlega þetta fólk endar á þingi er samt spurning, sem við öll verðum að spyrja okkur?
Guðbjörn

Nafnlaus sagði...

Góð grein Guðmundur
Snorri Már

Nafnlaus sagði...

Að venju er hér fjallað um málin á skiljanlegu máli og með skýrum rökum.
Við viljum ennþá meira af þessu, takk Þorri

Nafnlaus sagði...

Góður og mjög þarfur pistill.
Stórir sjóðir hafa alltaf aðdráttarafl, að því er virðist ómótstæðilegt, í augum stjórnmálamanna og bankstera.
Hrunverjar réðust á sparisjóðina og tæmdu þá.
Þeir réðust á bótasjóðina og tæmdu þá.
Nú hafa þeir lífeyrissjóðina í sigtinu.
Gæslumenn lífeyrissjóðanna þurfa því að standa í lappirnar og láta ekki hávaðaskrölt populista í spjallþáttum afvegaleiða sig.
Þórhallur J

Nafnlaus sagði...

Já enn einu sinni stenst konungur lýðskrumaranna ekki mátið og fer í bakið á sínum félögum í Starfsgreinasambandinu.

Hann krefst 27,5% launahækkanna fyrir launahæstu félagsmenn sína, en ætlar ekki að semja un neinar launahækkanir fyrir konurnar, sem eru launalægstar í Verkalýðsfélagi Akranes.

En þetta kynnir hann svo í fjölmiðlum, og kemst upp með það, að hann sé að ganga erinda þeirra tekjulægstu
Jens.