Ég hef skrifað nokkra pistla um margskonar fávisku sem einkennir umræðu um lífeyrissjóði og meðhöndlun á sparifé launamanna, og mun halda því áfram, sérstaklega þar sem ég sé að það fer afskaplega í taugarnar á þeim sem vilja halda því fram, að það hafi verið starfsmenn stéttarfélaga gamblandi með fjármuni lífeyrisjóðanna sem hafi leitt til Hrunsins. En öll vitum að þeir sem þar fara fremstir í flokki, gera það til þess að beina sjónum frá því sem raunverulega gerðist.
Sumir halda því fram að 3,5% ávöxtunarkrafa sé gerð af lífeyrissjóðunum og það sé mikill bölvaldur í íslensku efnahagslífi. Þetta er rangt, þetta er vaxtaviðmið notað í tryggingarfræðilegum útreikningum um stöðu sjóðanna og notað til þess að jafna bil milli kynslóða. Ef þetta viðmið næst ekki verður að skerða útgreiðslur til þeirra sem eru fá örorku- eða lífeyrisgreiðslur í dag, annars væri verið að ganga á rétt þeirra sem eru ungir í dag. Taka fjármuni sem ungt fólk á og greiða þá út til annarra kynslóða.
Sjóðsstjórar lífeyrissjóða verða eins og aðrir fjárfestar að láta fjármagnið vinna svo það ávaxtist. Þeir fjárfesta í skulda- og hlutabréfum frá atvinnulífinu og hinu opinbera. Þeir verða vitanlega að sætta sig við þá ávöxtun sem býðst hverju sinni. Ef ávöxtunarkostir eru slakir í dag þarf að skerða réttindi.
Það er gert með árlegum tryggingafræðilegum útreikningum og innistæður og ávöxtun borin saman við skuldbindingar lífeyrisjóðanna. Ef ávöxtun hefur verið undir 3,5% þá verða ársfundir lífeyrissjóða lögum samkvæmt að velja milli þriggja hluta :
a) Breyta starfsreglum viðkomandi sjóðs og skerða réttindi sjóðsfélaga, eins og t.d. skerða makalífeyri eða réttindastuðul eða hækka lífeyrisaldur.
b) lækka lífeyri og örorkubætur
c) hækka iðgjöld, eða hækka lífeyrisaldur.
Mörg lönd hafa verið að hækka lífeyrisaldur og á það hefur verið bent að ef lífeyrisaldur í opinberu sjóðunum yrði settur við 67 ára aldur eins hann er í almennu sjóðunum myndi staða þeirra lagast umtalsvert. En það hefur ekki verið gert og fyrir liggur krafa frá FME um að hækka verði iðgjald í opinberu sjóðina upp 19%.
Í dag ávinna launamenn í almennum lífeyrissjóðum sér árlega lífeyrisrétt sem nemur frá 1.2% til 1,47%. Fyrir sama iðgjald ávinna útvaldir ríkisstarfsmenn sér lífeyrisrétt sem nemur um 1,9%, að allt að 50% hærri réttindi en sjóðsfélagar í almennu lífeyrissjóðanna hafa. Réttindastuðull þingmanna er í dag 2,4% af launum. Þingmenn eru 29 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt. Almennir launamenn eru 41 ár að ávinna sér 56%, eða 25% mismunun.
Réttindastuðull ráðherra þegar búið er að lækka ávinnslustuðul úr 6% í 4,8% af launum. Ráðherrar eru þar með 14,5 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt og þurfa eftir það ekki að greiða af launum sínum í lífeyrissjóð svo fremi þeir greiði í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Til samanburðar má geta þess að þá hafa sjóðfélagar almennu sjóðanna unnið sér inn að meðaltali um 16% lífeyrisrétt eftir 14,5 ára greiðslu í sjóðinn.
Ef lífeyrisréttindi skerðast bitnar það á ríkinu (skattborgurum), útgjöld almenna tryggingarkerfisins munu aukast. Í dag greiða lífeyrissjóðir út um 70 milljarða króna í örorkubætur og lífeyri á meðan Tryggingarstofnun greiðir út 50 milljarða.
Annað veigamikið hlutverk lífeyrissjóðanna hefur verið að skapa möguleika til þess að hægt sé að veita lánum til fólks m.a. til íbúðarkaupa. Fyrstu 40 árin er innstreymi inn í lífeyrissjóðina meira en útstreymi sakir þess að þetta er uppsöfnunarkerfi. Það næst jafnvægi á kerfið upp úr 2030, þá verða útborganir úr kerfinu svipaðar og innstreymi, það er ef ávöxtun hefur náðst.
Sú staða gæti skapast ef viðmið hafa ekki nást að lífeyrissjóðirnir yrðu upp úr 2030 að snúa blaðinu við og taka út fjármagn frá atvinnulífinu. Samfara því gæti einnig orðið skortur á lánsfjármagni í landinu, það er að segja ef ekki er til nægilega mikill inneign í sparifé.
Venjulegt meðalheimili á í dag um 17 millj. kr. inneign í lífeyrissjóð. Ef ekki verða gerðar ráðstafanir til þess að ná stöðugleika hér á landi og ná vöxtum niður (sem þýðir að verðtryggingarákvæði verða gerð óvirk), er verið að snúa til fyrri tíma og gera eignarnám í sparifé heimilanna. Það var ástundað af stjórnmálamönnum í fyrstu og allt sparifé launamanna var reglulega gert upptækt í gegnum neikvæða ávöxtun sem skapaðist með reglulegum gengisfellingum.
Þessu var breytt með Ólafslögum um verðtryggingu. Þá kom fram að tengja laun einnig við verðtryggingu, en þáverandi verkalýðsforingjar höfnuðu því, þar sem það myndi koma í veg fyrir eðlilegt launaskrið. Myndin hér að neðan sýnir að það mat var rétt.
